Frammistöður, spila þátt og staðsetningarsýkin

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Hækkaður styrk­ur svifryks á Ak­ur­eyri.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Þetta er ómöguleg fyrirsögn því vel er hægt segja að svifryk hafi aukist eða mælst meira. Í upphafi fréttarinnar segir blaðamaðurinn:

Auk­inn styrk­ur svifryks hef­ur und­an­farið mælst á loft­gæðamælistöð Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar …

Þetta er ekki heldur boðlegt því aftur mætti orða þetta á þann hátt, til dæmis að svifryk hafi mælst meira í þessari mælistöð.

Jafnslæmt er að blaðamaðurinn ofnotar orðið svifryk í allri fréttinni svo úr verður illþolandi nástaða. Auðvitað á hann að skrifa sig oft framhjá orðinu svo fréttin verði læsilegri.

Ef veður­spá næstu daga geng­ur eft­ir gæti áfram orðið hár styrk­ur svifryks í bæn­um. Full ástæða er til að vara við hugs­an­leg­um áhrif­um svifryks­ins …

Í seinna skiptið hér fyrr ofan hefði mátt sleppa orðinu eða setja „þess“ í staðinn.

Tillaga: Svifryk á Akureyri eykst.

2.

Unai Emery, stjóri Arsenal, segir að Mesut Özil verði að bæta stöðuleika sinn en hann segir að frammistöður Þjóðverjans eigi það til að dala. 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Frammistaða er eintöluorð. Orðið er samsett, seinni hlutinn staða er til í eintölu og fleiritölu og þá er merkingin stelling, ástand, aðstæður eða embætti. Margar stöður eru ábyggilega til í glímu eða ballett, auglýstar eru stöður lögreglumanna eða sýslumanna.

Svo má gera athugasemd við sögnina dala í þessu tilviki, hún á ekki við hér því orðið merkir að rýrna eða minnka. Nær er að segja að frammistaða fótboltamannsins sé oft ekki nógu góð eða misjöfn, hann sé mistækur.

Tillaga: Unai Emery, stjóri Arsenal, segir að Mesut Özil verði að bæta stöðuleika sinn en hann segir að frammistaða Þjóðverjans sé oft ekki nógu góð.

3.

Instagram spilaði stóran þátt í sprengingunni sem varð á Íslandi. 

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Hvað þýðir að „spila þátt“. Hef aldrei heyrt um þetta orðasamband. Heimild blaðamannsins er úr erlendum vefmiðli, Global News í Kanada. Þar er fjallað um þátt Instagrams í fjölgun ferðamanna til Íslands. Í vefmiðlinum stendur þetta:

“Instagram has definitely played a huge role in blowing that place up.”

Hér hefur blaðamaðurinn þýtt beint út ensku án nokkurrar hugsunar. Ég bað þá Google translate að þýða þessa málsgrein á íslensku og fékk þetta:

Instagram hefur ákveðið spilað mikið hlutverk í að blása þessi staður upp.

Þýðingin er jafnvitlaus og sú sem blaðamaðurinn gerði. Google Translate kann ekki íslensku. Þó forritið geti þýtt íslensk orð verður útkoman kjánaleg. Blaðamaðurinn hefur hugsanlega enskuna á valdi sínu en hann er eins og Google Translate, hann hefur ekki nægilegt vald á íslensku til að nýta sér þekkingu sína.

Tillaga: Instagram átti tvímælalaust stóran þátt í stórfelldri aukningu ferðamanna til Íslands.

4.

Frá og með laug­ar­deg­in­um 1. des­em­ber 2018 verður bráðaþjón­usta hjarta­gátt­ar Land­spít­ala staðsett á bráðamót­töku spít­al­ans í Foss­vogi. 

Frétt á mbl.is.   

Athugasemd: Allur andskotinn er nú staðsettur, sagði karlinn. Undir það má taka því í tilvitnuninni hér að ofan er orðinu lýsingarorðinu staðsettur algjörlega ofaukið. Berið hana saman við tillöguna hér að neðan.

Síðar segir í fréttinni:

Bráðaþjón­ust­an verður í fullri virkni í Foss­vogi frá og með laug­ar­deg­in­um 1. des­em­ber.

Einhvern vegin finnst mér dálítið ofsagt að segja að bráðaþjónustan verði með fullri virkni enda skilst það berlega í fyrstu tilvitnuninni. Þar að auki er þetta þjónusta og varla gott að segja að hún sé til dæmis með kvart, hálfri eða fullri virkni. Hvernig er slíkt mælt?

Hins vegar verð ég að viðurkenna að lakara er að segja að full þjónusta sé hjá bráðaþjónustunni. Þá er komin nástaða sem þykir ekki góð. Má vera að lesendur hafi betri tillögu ef þeir eru sammála.

Tillaga: Frá og með laug­ar­deg­in­um 1. des­em­ber 2018 verður bráðaþjón­usta hjarta­gátt­ar staðsett Land­spít­ala á bráðamót­töku spít­al­ans í Foss­vogi.

5.

Maðurinn sem var handtekinn var viðstaddur húsleitina og var handtekinn á staðnum, grunaður um peningaþvætti. 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Ofangreind tilvitnun er dæmi um hroðvirkni sem allof oft sést á Vísi og einnig á Stöð2. Skemmdar fréttir verða til af því að enginn les yfir. Enginn blaðamaður er svo klár að hann þurfi ekki að lesa frétt sína yfir með gagnrýnum augum.

Tillaga: Maðurinn fylgdist með húsleitinni og að henni lokinni var hann handtekinn.


Bloggfærslur 26. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband