Almannaskilningur um almannahættu
18.4.2017 | 11:37
Í frétt á mbl.is segir í fyrirsögn: Skapaðist gríðarleg almannahætta. Þetta virðist vera spurning og spurningamerkið vantar. Nei, svo svo er ekki. Mjög algengt er að þeir sem skrifa fréttir byrji setningar á sagnorði þó ekki sé verið að spyrja neins.
Til að fyrirsögnin þjóni gildi sínu og skiljist þarf sögnin að vera aftast í setningunni: Gríðarleg almannahætta skapaðist.
Að auki hefði verið að nóg að segja að hætta hefði skapast, enda orðið notað yfir það sem er fólki hættulegt. Almannahætta er virðist orðið að stagli í fréttum núorðið.
Svo mun ógæfusami maðurinn hafa framið rán í apóteki. Samkvæmt almannaskilningi mun maðurinn hafa rænt apótekið, en þannig skrifar víst enginn almennilegur blaðamaður lengur.
Í fréttinni segir:
Er það mat lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að mikil mildi hafi orðið til þess að enginn skaði hlaust af hátterni mannsins.
Aftur byrjar setning á sagnorði sem er svo sem ekki rangt en stíllaust. Veslings maðurinn mun hafa keyrt utan í nokkra bíla og skaðað þá. Í því er kannski almannaskaði fólginn.
Margir hefðu sleppt þessari lengingu hafi orðið til þess ....
Fer ekki betur á því að skrifa: Lögreglan telur mikla mildi að maðurinn slasaði engan á flótta sínum.?
![]() |
Skapaðist gríðarleg almannahætta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.4.2017 kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)