Er verðlækkun á markaði Costco að þakka ...?
10.4.2017 | 18:08
Hagstæðara gengi, tollaniðurfellingar og lægra innkaupsverð gerir þessa lækkun mögulega og gagnsæið í verði og vöruframboði verður hér eftir mun betra. Dekk eru eitthvað sem við þurfum flest á að halda og það á ekki að vera flókið ferli að verða sér úti um þau.
Þetta segir framkvæmdastjóri Sólningar og í fölskvalaustri gleði sinni yfir aðstæðum býður hann okkur neytendur njóta aðstæðna í lægra verði á hjólbörðum.
Mikið óskaplega fagnar maður allri þessari breytingu. Hjólbarðar lækka í verði, risastór sjónvörp eru komin á verð sem smásjónvörp voru á fyrir ári eða tveimur. Bráðlega lækkar matvaran enn meira í verði og svo koll af kolli.
Hvað er eiginlega að gerast? Maður hneigir sig í auðmýkt fyrir verslunarrekendum sem lækka verð í öfugu hlutfalli við hækkandi sól.
Hvað veldur þessari neytendavænu aðgerð? Ég veit ekki. Hef ekki hugmynd.
Læt mér ekki detta það eitt augnablik í hug að verðlækkunin séu vegna þess að bandaríska fyrirtækið Costco ætlar að opna verslun hér á landi í lok maí og þar verða meðal annars seldir hjólbarðar, sjónvörp, húsgögn og ekki síst matvæli af ýmsu tagi.
Hins vegar er ég sannfærður um að samkeppni á markaði kemur neytendum alltaf til góða ... nema því aðeins að samráð sé um verðlagningu.
Svo veit ég líka að margir njóta útiveru og fyrir einskæra tilviljun liggja stundum leiðir saman í Öskjuhlíð.
![]() |
Sólning lækkar verð um allt að 40% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íbúðaskorturinn er vinstri meirihlutanum í Reykjavík að kenna
10.4.2017 | 11:47
Nú eru helstu vinstri gáfumenn landsins búnir að fatta það að frjáls markaður getur ekki leyst húsnæðisvandann í Reykjavík, sjá hér. Við liggur að þeir fagni þessu ómögulega ástandi.
Trúir sannfæringu sinni líta þeir ekki á vandamálið í heild sinni. Þeim finnst engu skipta þó að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hafi í fjölda ára ekki boðið upp á nægilegan fjölda lóða. Þeir sjá enga tengingu á milli aukins straums ferðamanna, útleigu íbúðarhúsnæðis og að leiga á íbúðarhúsnæði hefur hækkað svo hátt að fólk flýr höfuðborgina, þar á meðal sá sem hér skrifar.
Skortur á leiguhúsnæði byggist á tvennu: framboði og eftirspurn. Sé framboðið ekki nægilegt þýðir það einfaldlega að húsnæðisverð hækkar og þar með húsaleiga. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst. Þokkalegar íbúðir sem áður voru verðlagðar á 250.000 krónur í leigu á mánuði eru hreinlega ekki fáanlegar. Og hver í ósköpunum hefur efni á að borga þessa fjárhæð í leigu.
Sökin liggur hvergi annars staðar en hjá Reykjavíkurborg. Vinstri meirihlutinn er upptekinn við að andskotast tefja fyrir bílaumferð og reyna að loka Reykjavíkurflugvelli. Á meðan gleymist fólkið sem vantar íbúðir til kaups eða leigu.
Og nýsósíalistarnir kenna markaðnum um vandann en líta með vilja framhjá ábyrgð Reykjavíkurborgar.