Grámann á Alþingi og fleiri talendur ...

Hver skrifar ræður fyrir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins? Bjarni er vissulega mjög góður ræðumaður og efnislega var mál hans undir stefnuræðu forsætisráðherra alveg ágætt. Ræðan var þó frekar illa skrifuð. Hún var rislítil og þannig ekki mjög svo áhugaverð nema fyrir okkur nördana sem fylgjumst grannt með stjórnmálum. Brýnt er að Bjarni ráði nýjan ræðuritara.

Ein skemmtilegasta og best flutta ræða kvöldsins var sú sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrum forsætisráðherra. Ræðan var skemmtileg, sannfærandi og fyndin. Hann sagði meðal annars:

Hvar í stjórn­arsátt­mál­an­um finna Fram­sókn­ar- eða Sjálf­stæðis­menn áhersl­ur sem þeir geta verið stolt­ir af?

Svei mér þá, ég varð hugsi við þessi orð en það brá skjótt af.

Lélegasta ræða kvöldsins var Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata. Hann er slakur ræðumaður, skrifar lélega texta, í honum eru ótal málvillur og hann hikstar og tafsar á flutningnum. Í raun er það eina jákvæða með ræðu mannsins að hann las af iPad, sparar pappír. Jón Þór nefndi kjararáð. Skrýtið. Hann ætlaði að kæra kjararáð í fyrra fyrir hækkun launa þingmanna, ráðherra, forsetans og fjölda embættismanna. Enn hefur hann ekki kært einn eða neinn. Hann hótar að kæra og hótar. Svo hótar hann og hótar að kæra. Ekkert gerist. Auðvitað er hann barnslega einlægur í hótum sínum. Sumum finnst það svo sætt.

Mér þótti gaman að sjá gamlan félaga flytja sína fyrstu ræðu. Ólafur Ísleifsson, þingmaður fyrir Flokk fólksins, á ábyggilega eftir að láta að sér kveða á þinginu. Hann er hagfræðingur og þrátt fyrir það (!) skynsamur og góður maður og leggur meðal annars áherslu á íslenskt mál, menningu og sögu. Treysti honum vel fyrir þeim málum.

Ármann á Alþingi var tímarit sem gefið var út á þar síðustu öld og þótti stórmerkilegt og mikilvægt í sjálfstæðibaráttu þjóðarinnar. Nú hefur sá maður orðið alþingismaður sem nefna má „grámann á Alþingi“. Hann leggur lítt til málanna annað en það sem Vinstri grænir höfðu tuðað um í áraraðir til að ófrægja andstæðinga sína. Grámann er eins. Vílar ekki fyrir sér að starfa í anda Gróu á Leiti. Ljóst er að grámann, Guðmundur Andri Thorsson en mun betri og sannfærandi skríbent en ræðumaður, hvað þá stjórnmálamaður. Hann er á rangri hillu. Ég sakna þess að fá ekki lengur að lesa greinar eftir hann í Fréttablaðinu, sem hann skrifaði margvíslegan óþverra af stakri snilld. Og hann skrifar frábærar bækur.

Ekki finnst mér margir eldhugar í stjórnmálum hafa komist á þing við síðustu kosningar. Og ekki er miklu andríki fyrir að fara. Því miður. Umræðurnar um stefnuræðu forsætisráðherra voru svona leikrit, píratalegt og þar af leiðandi frekar leiðinlegt.

 

 


Bloggfærslur 15. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband