Hornreka Ugluspegilsdóttir giftist Jóni Góða sem er vondur gæi
13.4.2016 | 16:11
Mannanafnanefnd veit ekki að einhverjir gárungar eru að gera at í henni. Engum myndi detta í hug að skíra barnið sitt Ugluspegill, hvað þá Silfru ... Jæja, kannski fyrirfinnast einhverjir sem gætu viljað að afkomendi þeirra heiti Silfra Ugluspegilsdóttir.
Ég er þess fullviss að klúbbur bráðfyndinna náunga skemmira sér hið besta við að senda nafnamannanefndinni tillögur um nöfn. Svo mikil gæðablóð sitja í nefndinni að alltaf skulu nefndarmenn svara af sömu alvöru, alúð og kurteisi sem fyrr.
Eflaust kann það að vera dæmi um hingnun málsins ef maður sem er bæði fauti og glæpon í þokkabót geti verið með millinafnið Góði. Sem betur fer getur hann Jón Góði Jónsson ekki skírt son sinn Eldflaug. Skammt væri þá í það að Eldflaug Jónsdóttir ætti barn sem skírð væri Skrúfjárn Ugluspegilsdóttir eða jafnvel Klíputöng. Verra væri ef kát, hress og félagslynd kona í ótal kórum og kvenfélögum héti Hornreka, nú eða þá að hún næði sér aldrei á strik vegna nafnsins.
Þó ég hafi mikla samúð með mannanafnanefnd eða heitir hún nafnamannanefnd ... get ég ekki varist þeirri hugsun að best væri að leggja hana niður og um leið rýmka heimildir fólks til að fá nafni sínu breytt. Gæti vel trúað að þegar hún Hornreka kemst til vits og ára myndi hún vilja breyta nafni sínu í eitthvað venjulegt, til dæmis Guðrún.
![]() |
Nafnið Ugluspegill samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |