Leg þingmanns, kjálki karla og virðisaukaskattur

Margt er mannanna meinið og mörg eru útgjöld fólks. Síst af öllu skal gert lítið úr þörf kvenna á hreinlætisvörum. Hins vegar má gera athugasemdir við markaðssetningu á skoðunum Heiðu Kristínar Helgadóttur, þingmanns Bjartar framtíðar, sem svo grípandi nefnir það að verið sé að skattleggja á henni legið“. Dömubindi og túrtappar bera virðisaukaskatt rétt eins og allflest annað. Dálítið snjallt að vekja svona athygli á hagmunamáli sínu.

Þessi skoðun er engan vegin ný. Minna má að sósíaldemókratar í Svíþjóð kröfðust á áttunda áratugnum að dömubindi ættu að vera ókeypis í verslunum landsins. Ekki náðist samstaða um það heldur lognaðist málið út af.

Hér á landi hefur þeirri skoðun vaxið ásmegin að fatnaður fyrir börn ætti að vera í lægra skattþrepi virðisaukaskatt eða vera undanþegin honum. Margvísleg rök standa til þess sérstaklega þau að skattur á selda vöru þykir allt of hár.

Karlmenn geta ómögulega lagst gegn skattlagningu á legi Heiðu Kristínar Helgadóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar. Slíkt væri hin mesta ómennska auk þess sem fæstir myndu vilja rökæða við þingmanninn um legið hennar. Aftur á móti væri það ágætis búbót fyrir flest heimili ef legskatturinn væri aflagður.

Einnig væri það guðsþakkarvert fyrir oss karlmenn ef skattur á kjálka vora og efri vör yrði aflagður. Nógu andskoti dýr eru tól til þessara hluta og tengdar vörur. Góður maður skaut því að ritara að árlegur kostnaður hans vegna raksturs sé 57.500 krónur. Nú er afar misjafnt hversu skeggvöxtur er hraður og einnig hversu hraustleg skeggrótin er. Sumir þurfa að raka sig daglega meðan öðrum dugar að þrisvar í viku eða svo. Svo leggja margir upp úr nokkurra daga skeggvexti og þeirri prýði sem slíkt þykir og gjörir marga unglegri en raun er á. Og loks vilja margir leyfa skeggi sínu að vaxa að vild en aðrir snyrta það á ýmsan hátt. Svo eru þeir til sem nota rafmagnsrakvélar, þær eru engu að síður nokkuð dýrar.

Niðurstaðan af ofangreindu er síst af öllu sú að gera lítið úr legi þingmanns Bjartrar framtíðar eða annarra kvenna og þaðan af síður kostnaði vegna þess (óskiljanlegt að ritari telji sig hér knúinn að gera einhvern fyrirvara á skrifum sínum).

Hið stóra mál sem flesta skiptir öllu er að skattheimta ríkisins á seldum vörum í þjóðfélaginu sé hófleg, hvort heldur um sé að ræða dömubindi, rakblöð, barnaföt eða annað. Það stuðlar að betra þjóðfélagi að eyðslufé fólks nýtist sem best til þeirra hluta sem það vill kaupa í stað þess að allt að fjórðungur af verði hverrar vörur sé sjálfvirkt ríkiseign.

Ráð er að þingmaður Bjartrar framtíðar liti til þessa í stað þess að einblína á leg sitt.


mbl.is 65.500 í skatt fyrir að vera á túr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband