12 daga kosningabarátta er ólýðræðisleg
28.2.2009 | 19:04
Verður kosið 25. apríl eða ekki? Svo virðist sem einhvers konar handvöm sé í forsætisráðuneytinu. Enda ekki furða. Forsætisráðherrann er óvanur og getur ekki haft forystu um þessi mál. Verra er að ráðuneytisstjórinn er líka óvanur enda aðeins vanur félagsmálaráðuneytinu.
Heyrst hefur að minnihlutaríkisstjórnin telji að tíminn til 25. apríl sé of skammur miðað við það sem hún vill gera. Í undirbúningi er fjöldi lagafrumvarpa og ætlunin er að þingið starfi til 4. apríl. Taka þarf af skarið hvort kosið verði á þessu degi eða ekki.
Þegar nánar er skoðað eru vandamálin nokkur. Sé ætlunin að kjósa áðurnefnum degi fást aðeins 12 daga, tæpur hálfur mánuður fyrir lýðræðislega æfingar, það er kynningu á framboðum, frá því að þingi lykur. Sá tími er alltof skammur.
Hvers vegna er tíminn alltof skammur.
Minnihlutastjórnin styðst við minna en helming þingmanna. Henni til stuðnings eru þingmenn Framsóknarflokksins. Þeir munu verja hana falli standi hún við gerða samninga.
Miðað við stöðu mála er þessi ríkisstjórn aðeins starfsstjórn. Hún hefur ekki leyfi til að breyta heiminum jafnvel þótt hún vilji. Og hvers vegna ætti slík minnihlutastjórn að haga sér eins og hún sé meirihlutastjórn? Einhvers konar wannabe stjórn.
Staðreyndin er sú að ríkisstjórn verður að haga sér miðað við aðstæður. Eina verkefni núverandi minnihlutaríkisstjórnar er að sinna efnahagsmálum, gæta að atvinnumálum og verðbólgu. Allt annað er aukaatriði, innantómt pjatt að mínu mati.
Átta vikur til kosninga mínus páskar. Þingi á að ljúka um miðjan mars í síðasta lagi. Nauðsynlegt er að framboðin hafi tækifæri til að kynna stefnu sína. Slíkt er lýðræðislegt og afsláttur af lýðræðinu er ekki í boði, hvort heldur um er að ræða minnihluta eða meirihluta þings.
Hvar er svo forseti Íslands þegar ætlunin er að gefa afslátt af lýðræðislegri starfsemi fyrir þingkosningar? Ég óska eftir því að hann taki fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni í þessu máli. Hann hefur gert það áður af ómerkilegra tilefni.
![]() |
Ekki hægt að hefja utankjörstaðaatkvæðagreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |