Framundan er stjórnleysi minnhlutaríkisstjórnar

Þegar þetta frumvarp er frá og orðið að lögum hefur minnihlutaríkisstjórnin ekki nokkurn einasta blóraböggul. Kannski hún fari nú að bretta upp ermarnar og láta verkin tala.

Hingað til hefur fátt eitt gerst sem ekki var verkefni fyrri ríkisstjórnar. Á næstu dögum má búast við því að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir niður í 8%. Að sjálfsögðu mun minnihlutaríkisstjórnin hreykja sér af því og telja það afleiðing af eigin stjórnarstefnu. Það er þó aldeilis ekki svo því hún er ekki til. Og ekki heldur mun hægt að halda því fram að brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stóli seðlabankastjóra eigi þarna nokkurn hlut að máli.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn mun ekki taka undir með minnihlutaríkisstjórninni heldur einungis halda því fram að sú stefna sem haldið hefur verið fram undanfarinna mánaða hafi gert þessa stýrivaxtalækkun mögulega.

Seðlabankinn er stjórnlaus. Einhver verður samt settur til bráðabirgða. Líklegast er að það verði Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, og fyrrverandi formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Ágætur maður en hefur rétt eins og svo margir aðrir komið að málum fyrir og eftir hrun. Ef hann er hæfur þá eru margir aðrir hæfir, þar á meðal Davíð Oddsson.

Minnihlutaríkisstjórnin mun einnig ráða nýjan Seðlabankastjóra. Hann á að heita pólitískt hlutlaus en hann hefur aldrei verið það því nafn hans er Már Guðmundsson, gamall allaballi, en út af fyrir sig ágætur maður. Hins vegar er frekar ólíklegt að ráðning hans nái fram að ganga fyrir 25. apríl, nema minnihlutaríkisstjórnin ætli að troða honum í stólinn hvað sem hver segir og án tillits til þess hverjir aðrir sæki um.

Svona er verið að leika sér með Seðlabankann, eina mikilvægustu stofnun þjóðarinnar, rétt eins og hann sé einhver sjoppa sem þurfi skemmtilegri leikfélaga í lúguna.

Svo má búast við því að ríkisstjórnin verði á kafi í alls kyns pjattmálum, t.d. stjórnarskrárbreytingum, breytingum á kosningalögunum, ESB umræðustjórnmálum, hvalveiðimálum og álíka en gleyma efnahagsmálunum, atvinnuleysinu, rekstrargrundvelli fyrirtækjanna og öllu þessu sem skiptir máli fyrir tilvist sjálfstæðrar þjóðar.

Svo má búast við því að vandræði fari að segja til sín þegar yfirforsætisráðherrann kemur til starfa og „wannabe“ forsætisráðherrann kemst í prófkjörsham.

Já, framtíðin er björt, ekki satt.


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léttir að Óskar og félagar kaupi Moggann

Ekki er laust við að nokkur léttir fylgi því að hafa lesið þessa frétt. Morgunblaðið er þjóðareign og stór hluti af tilverunni fyrir flesta. úr því sem komið var held ég að betri eigendur hafi ekki verið fáanlegir en Óskar Magnússon og félagar.

Óskar Magnússon er reyndur maður í viðskiptalífinu. Hann hefur stjórnað stórum fyrirtækjum, er sjálfstæður og frumlegur, hefur aldrei verið taglhnýtingur eins eða neins. Ekki nema gott eitt má segja um þá sem eru með honum, Gísla Baldur Garðarsson, sem er afar fær lögmaður, Gunnar B. Dungal, sem átti og rak Pennan þar til fyrir nokkrum árum, Guðbjörg, Matthíasdóttir í Vestmannaeyjum, Pétur H. Pálsson í Vísi í Grindavík, Þorstein Má Baldvinsson margreyndan útgerðarmann og Þorgeir Baldursson í Odda.

Reina má með því að fleiri komi inn í þennan hóp þegar frá líður og Árvakur og Morgunblaðið nái aftur fjárhagslegum styrk.


mbl.is Þórsmörk kaupir Árvakur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fann Gunnar sömu möppuna?

Sagt er að Gunnar Örn Kristinsson hafi verið að blaða í sömu möppu og Magnús Gunnarsson hafði lagt frá sér daginn sem hann sagði af sér. Honum hafi hreinlega fallist hendur. En hvað var það í möppunni sem hrakti þá Magnús og Gunnar frá Nýja-Kaupþingi? Um það snýst umræðan og líklegt er að þeir fyrirvarandi muni ekki gefa það upp.

Gæti það verið minnisblað frá nýjum fjármálaráðherra þess efnis að bankaráðið ætti framvegis að bera þau atriði sem koma að stefnumörkun undir ráðherrann? Skyldi það vera svo að það sé vilji fjármálaráðherrans að formenn bankaráðanna séu framar öllu framlenging af valdi ráðherrans?

Gæti fleira hafa verið í möppunni eða er þetta nóg?

Í bankanum hafa verið gerðir þrír listar yfir fyrirtæki í viðskiptum við bankanna. Á einum listanum eru þau sem eru í lagi og bankinn ætlar að styðja við að óbreyttu ástandi. Á öðrum listanum eru þau fyrirtæki sem bankinn ætlar hugsanlega að styðja við að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um eignarhald og aukið eigið fé. Þriðji listinn er dauðalistinn.


mbl.is Gunnar Örn hættir í bankaráði Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlustuðu menn á Davíð án þess að heyra

Sumir hlustuðu á Davíð Oddsson í sjónvarpinu í gærkvöldi en tóku hreinlega ekki eftir því sem hann sagði. Tóku kannski bara eftir því sem þeir vildu heyra, - gleymdu öðru.

Eignarhaldsfélög í eigu stjórnmálamanna og annarra þekktra manna í þjóðfélaginu á að hafa fengið sérþjónustu í bönkunum, svona eins og Björn Ingi Hrafnsson í Kaupþingi. Hefði einhver annað orðað þetta og haldið því til dæmis fram að Birgir Ármannsson væri með óhreint mjöl í pokahorninu væri annað uppi á teningnum. Hins vegar var þetta „bara“ Davíð, og hann er nú svona og svona ...

Ummæli Davíðs þarf að skoða mjög nákvæmlega. Þar eru fjöldi fréttapunkta fyrir duglega blaðamenn sem nenna að haf eitthvað fyrir hlutunum. Þess í stað eru menn að velta sér upp úr því að Davíð hafi eitthvað verið að hnýta í spyrilinn.

Hvernig er það, greina menn ekki aðalatriðin frá aukaatriðunum?


mbl.is Gæti talist mútuþægni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru allar bjargir bannaðar gegn Bretum?

Maður skyldi það svo sem þegar lögfræðingar frá Bretlandi ráðlögðu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að reyna ekki að höfða mál gegn breska ríkinu. Það hefði orðið mjög dýr, afar langvinnt og niðurstaðan langt frá því að vera borðliggjandi.

Formaður VG sagðist varla eiga til eitt einasta orð yfir þessari ákvörðun, svo vonsvikinn var hann. Svo gerist það að þegar hann sjálfur er kominn í ríkisstjórn er hætt við að stefna Bretum fyrir mannréttindastólnum. Þetta tilkynnti viðskiptaráðherra í erlendum fjölmiðlum en ekkert fréttist hérna heima.

Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Eitthvað hlýtur að standa gegn þessum dæmalausa gerningi bresku ríkisstjórnarinnar gegn Íslendingum. Nema því aðeins að Bretar hafi hótað eða lofað einhverju sem minnihlutaríkisstjórnin hefur ekki enn viljað upplýsa um.

Eða eru okkur allar bjargir bannaðar gegn Bretum.


mbl.is Veldur miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband