Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2023

Ósannindavaðall Hönnu K. Friðriksdóttur þingmanns Viðreisnar

Sá sem ætlar að ófrægja pólitískan andstæðing og upphefja sjálfan sig í leiðinn ætti að skrifa eins og þingmaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksdóttir.

Í föstum dálki sem stjórnmálamenn er einum til afnota og er á blaðsíðu 14 í Morgunblaði dagsins segir hún um Fréttablaðið sem hætti útgáfu sinni í síðustu viku:

Svo eru það þeir sem hemja ekki þórðargleði sína líkt og ritstjóri Morgunblaðsins í Reykjavíkurbréfi helgarinnar. Líklega er það þó frekar gamli stjórnmálaforinginn sem fagnar afdrifum þessa frjálslynda, alþjóðasinnaða og hófsama miðils en ritstjórinn sem gleðst yfir því að samkeppnin verður minni á fjölmiðlamarkaði.

Orðið Þórðargleði er haft um kæti er grípur um sig vegna ófara annarra. Auðvitað nennir enginn að fletta upp á því hvað ritstjóri Morgunblaðsins sagði um gjaldþrot Fréttablaðsins. Alltof margir trúa áróðri um ritstjórann en færri þekkja hins vegar skoðanir mannsins.

Ósvífnir og ómerkilegir stjórnmálamenn eins og Hanna Katrín Friðriksdóttir kunna áróðurstækni. Í því felst að segja óbeint frá því hvað aðrir segja og fullyrða að það sé ljótt. Hún varast auðvitað að geta þess nákvæmlega hvað ritstjórinn sagði. Í því felst „trixið“.

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins sunnudaginn 2. apríl 2023 sagði þetta.

Og í ljós kom að lokunartilkynningin átti einnig við um Fréttablaðið, sem síðustu þrjá mánuði var keyrt á nokkra staði og því haldið fram að blaðið væri enn prentað í 45 þúsund eintökum, eftir að hætt var að dreifa því í hús.

Ekki var heil brú í þeirri fullyrðingu. Það hefði þýtt að fylla hefði þurft í kassa mörgum sinnum á dag, sem voru þó fjarri því að tæmast eftir fyrstu og einu dreifingu.

Auglýsendur keyptu hvorki galdrana né köttinn í sekknum, eins og fyrirsjáanlegt var, og gufuðu auglýsingar blaðsins því upp.

Almennt hafði verið talið að endalok Fréttablaðsins yrðu í lok janúar eða hugsanlega febrúar, en ekki mánuði síðar.

Hvar í tilvitnuninni er nú Þórðargleðin falin? Með hvaða orðum fagnar og gleðst ritstjórinn yfir óförum Fréttablaðsins? Hvergi.

Eftir stendur það eitt að þingmaðurinn skrökvaði og reyndi um leið að upphefja sjálfan sig að hætti „góða fólksins“.

Aðall sumra stjórnmálamanna er vaðall. Ótrúlegt moð, samsuða orða sem hafa ekkert innihald annað en ósannindi og stundum alls ekki neitt. Deila má um hvort sé lakara.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband