Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023

Mynd af óróasvæðinu við Grindavík

IMGT4769_IMGT4771 Neo b

Veðurstofan gerir góð kort af óróasvæðinu í og við Grindavík. Þó hefur vantað nógu góðar myndir fyrir okkur sem erum ekki gjörkunnugir staðháttum. Um daginn gekk ég leyfislaust á Þorbjarnarfell og tók þar nokkrar myndir af staðháttum. Þar á meðal þá sem hér fylgir.

Ég leyfði mér að setja inn örnefnin sem koma oft fyrir í grindvísku fréttunum, hef vonandi sett þau rétt. Svo virðist sem myndin sé ekki alveg í fókus hér fyrir ofan en þá er best að tvísmella á hana og hún birtist í allri sinni fegurð enda er landslagið er tilkomumikið.

Mikið er talað um Hagafell. Það er móbergsfjall en gígar eru vestan við það og eru tengdir Sundhnúksgígunum sem eru norðaustan við fellið. Þeir urðu til í gosi fyrir rúmlega 2000 árum. Um helmingur húsa í Grindavík stendur á hrauninu sem þá rann. Hinn helmingurinn stendur á um 8000 ára gömlu hrauni og Hópsnes er úr sama gosi.

Fagradalsfjall er í baksýn og þar glittir í gíginn frá árinu 2021. Ef grannt er skoðað, hægra megin við Stóra-Hrút, sést dökkur hrauntaumur sem rann í sama gosi ofan í Nátthagadal.

Sýlingarfell er vinstra megin á myndinni. Hraunið úr Sundhnúksgígum rann allt í kringum fjallið og er Blá lónið á mörkum þess og Illhrauns sem rann á árunum 1210 og 1240. Jafngömul eru Eldvarpahraun og Arnarseturshraun sem eru skammt frá.

Sýlingarfell er torkennilegt örnefni við fyrstu sýn. Í Íslenskri orðsifjabók segir að sögnin að sýla merki að gera skarð eða skoru í eitthvað. Sýling, sýldur getur verið fjármark, eyrnamark. Efst í Sýlingarfelli er lægð, vera kann að nafn fjallsins sé dregið af henni, sýlingunni.

Að lokum tvennt. Taka verður undir með því sem jarðfræðingar segja að eldgos á Reykjanesi eru aldrei ofsaleg, eru yfirleitt skammvinn. Stærsta hættan er af hraunrennsli. 

Loks er hér kortið sem Veðurstofan gaf út í dag. Afar skýrt fyrir þá sem vilja átta sig á staðháttum. Hægt er að stækka það með því að tvísmella.

Hættusvæði

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband