Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021
Líkaminn þrútnaði upp, gómur og tannhold bólgnaði ...
18.5.2021 | 22:35
Eldgosið í Geldingadal vekur mikla athygli innanlands og utan. Flestum þykir mikið til þess koma og fylgjast náið með því í beinu streymi hvernig það breytist og þróast. Fyrst virtist þetta stór sprunga með mörgum gosopum, man að ég taldi um átta á myndum sem birtust 24. mars, daginn eftir að það byrjaði. Svo urðu til tveir gígar sem sumir kölluðu Norðra og Suðra. Í þúsundavís gekk fólk upp að eldstöðvunum, stillti sér upp í tvö hundruð metra fjarlægð, góndi á gígana og hraunið sem úr þeim vall. Nokkru síðar sat fólk í brekkunni norðan við þá og skemmti sér við náttúruhamfarirnar en vissi þó ekki að það sat á eldsprungu sem var um sex kílómetra löng. Hún var lifandi, tifandi. Og svo gerðist það að sprungan opnaðist og á nokkrum dögum mynduðust fimm gígar á hluta hennar. Segja má að þar hafi munaði mjóu. Nú er aðeins einn gígur virkur og hann er í brekkunni sem áður var nefnd. Hann er gríðarlega stór, stækkar stöðugt. Hraunið sem úr honum vellur er um sjö rúmmetrar á sekúndu, meir en vatnsrennslið í Elliðaám sem er um fimm rúmmetrar á sekúndu.
Og fólk skemmtir sér og skemmtir sér. Veit ekkert skemmtilegra en að ganga þrjá til fjóra km og skoða gosið, borða nestið sitt og fara síðan heim með minningarnar í myndavél og höfði sínu. Svo er um líka um mig. Þegar þetta er skrifað hef ég sjö sinnum gengið að gosstöðvunum. Já, Við skemmtum okkur yfir gosinu. Köllum það túristagos og gróðavonin vaknar. Nú er ætlunin að malbika gönguleiðina, gróðursetja túlípana með fram henni og setja upp sjoppu, útsýnispalla, bjórbar og allt annað sem tilheyrir.
Nú reikar hugurinn tvö hundruð þrjátíu og átta ár aftur í tímann. Samtímaheimild segir svo frá atburðum dagsins:
Arið 1783 þann 8. júni, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil kom upp fyrir norðan næstu byggðarfjöll á Síðunni svart sandmistur og mokkur svo stór, að hann á stuttum tima breiddi sig út yfir alla Síðuna og nokkuð af Fljótshverfnu, svo þykkt að dimmt varð í húsum en sporrækt á jörðu. Var það dupt, sem niðurfjell, sem útbrennd steinkolaaska. En af þeirri vætu, sem úr þeim svarta mökk ýrði þann dag í Skaptártungunni, var það dupt, sem þar niðurfjell, svört bleyta, sem blek.
Þá hófst eldgos sem síðar var nefnt Skaftáreldar og afleiðingin urðu skelfilegar um allt land, tími móðuharðindanna. Um tuttugu og fimm km löng eldsprunga opnaðist og er þeir nú nefndir Lakagígar eftir Laka, felli sem þarna er. Allt öðru vísi eldgos heldur en í Geldingadalnum, alls ekki eins mannvænt. Þvert á móti.
Jón Steingrímsson, prestur á Kirkjubæjarklaustri en bjó á Prestbakka á Síðu. Hann skrifaði söguna sem nefnt er Eldrit og er einstaklega fróðlegt um eldgosið, skepnur, landbúnað, fólk og stjórnvöld. Hægt er að sækja það í pdf formati hér.
Jón segir hér frá því hvernig náttúruhamfarirnar léku skepnurnar:
Pestarverkunin af eldinum útljek þannig og deyddi hesta, sauðfje og kúpening; hestarnir misstu allt hold, skinnið fúnaði á allri hrvgglengjunni á sumum, tagl og fax rotnaði og datt af, ef hart var í það tekið. Hnútar runnu á liðamót, sjerdeilis um hófskegg. Höfuð þrútnaði fram úr lagi, kom svo máttleysi í kjálkana, svo þeir gátu ei bitið gras nje jetið, því það þeir gátu tuggið, datt út úr þeim aptur. Inníflin urðu morkin, beinin visnuðu aldeilis merglaus. Nokkrir lifðu af með því móti, að þeir voru í tíma hankaðir í höfuðið allt um kring og aptur fyrir bóga.
Sauðfje varð enn hörmulegar útleikið: á því var varla sá limur, að ekki hnýtti, sjerdeilis kjálkar, svo hnútarnir fóru út úr skinninu við bein, bringuteinarnir, mjaðmir og fótleggir, þar uxu á stör beinæxli, sem sveigðu leggina, eða þau urðu á víxl á þeim. Bein og hnútur svo meyr sem brudd væru. Lúngu, lifur og hjarta hjá sumu þrútið, sumu visin; inníflin, morkin og meyr með sandi og ormum; holdtóran fór eptir þessu.
Það, sem kjöt átti að heita, var bæði lyktarslæmt og rammt með mikilli ólyfjan, hvar fyrir þess át varð margri manneskju að bana; reyndu þó menn til að verka það, hreinsa og salta það, sem kunnátta og efni voru til.
Nautpeningur varð sömu plágu undirorpinn: á hann kom stórar hnýtingar á kjálkum og viðbeinum, sumir fótleggir klofnuðu í sundur, sumir hnýttu á víxl með greiparspenningar stórum hnútum. Svo var um mjaðmir og önnur liðamót, þau bríxluðu og hlupu svo saman, og varð svo á engin svikkan. Róan datt af með halanum, stundum hálf, stundum minna. Klaufirnar leystu fram af, sumar duttu sundur í miðju (þar formerktist fyrst pestin, ef skepnan fjekk fótaverk). Rifin bríxluðu eptir endilangri síðunni, duttu svo í miðju sundur, þá ei þoldu þunga skepnunnar, þá hún hlaut að liggja á hliðarnar. Engin hnúta var svo hörð, að ei mætti auðveldlega upptálga.
Hárið af skinninu datt af með blettum, innvortis partar voru meyrir, sem segir um sauðfje, og í margan máta afskaplegir. Fáeinum kúm, sem ei voru ofurbæklaðar, varð það til lífs, að ofan í þær var aptur hellt mjólkinni, sem úr þeim var toguð.
Þetta er hrikaleg lýsing og þó er ekki greint frá kvölum dýranna. Jón segir frá því hvernig hamfarirnar léku heilsu fólks og það er grátleg frásögn:
Þeir menn, sem ei höfðu nóg af gömlum og heilnæmum mat pestartíð þessa af til enda, liðu og stórar harmkvælingar, á þeirra bringuteina, rif, handarbök, ristar, fótleggi og liðamót komu þrimlar, hnútar og bris.
Líkaminn þrútnaði upp, gómur og tannhold bólgnaði og sundursprakk með kvalræðisverkjum og tannpínu. Sinar krepptust sjerdeilis í hnjesbótum, hvert sjúkdómstilfelli kallast scorbutus, skyr- eða vatnsbjúgur á hæstu tröppum. Að þessi pestarfulli sjúkdómur hafi svo nærri nokkrum manni gengið, að tungan hefði moltnað burt eða gengið út af, veit jeg ei hjer nje annarstaðar dæmi til, nema ef sögn þar til væri sönn um einn sóknarmann minn, sem dó á Suðurnesjum, en hann kvaldist opt áður af kverkameinum; innvortis kraptar og partar liðu hjer við, máttleysi, brjóstmæði, hjartslátt, of mikið þvagrennsli og vanmátt um þá parta, hvar af orsakaðist lífsýki, blóðsótt og ormar í lífi, vond kýli á háls og læri, sjerdeilis hárrotnan af mörgum ungum og gömlum.
Og Jón greinir frá því hversu stjórnvöld stóðu sig illa:
Þá gjörði og mikið til húngursneyðarinnar og mannfellisins hjer, að stiptamtmaður var svo seinn að gjöra tilskipanir um kornvörur úr kaupstöðum handa fólkinu hjer, sem þá mátti heldur vera minna með stærsta treiningi, og gjörði sá betur, sem veik út af þeim orðum, því það gaf mörgum manni líf, sem dæmi eru nóg í Rangárvallasýslu.
Jón gagnrýnir fólk, sérstaklega þó þá sem áttu sér einhvern auð:
Hversu þeir komust af, sem hjer eptir voru, vil jeg fátt áminnast: hjer voru sjerdeilis fjórir svo efnugir menn af mat fyrirliggjandi, að meining manna var, að þeir hefðu af komizt, þó litla aðdrætti hefðu fengið í 2 ár eða jafnvel 3, og þar með svo peningaríkir, að þeir gátu ánægjanlega keypt sjer gripi, ef þá hefðu brúkað til þess.
En hversu miskunarlausir þeir voru við aðra nauðlíðandi var, eins og dæmi sýna sig hjá öðrum fjárpúkum þeirra líkum. Aðrir fundust, sem gjörðu gott af sjer, svo mikið þeir gátu, og liðu sjálfir jafnvel skort þar fyrir, og komust þó lífs af, sem hinir.
Ég helda að okkur sé hollt að minnsta Skaftárelda og Móðuharðindanna. Náttúra landsins er í eðli sínu óvægin gagnvart öllu; mönnum, dýrum og gróðri. Hún eirir engu, er ekkert vinsamleg. Ef hægt væri myndum við banna náttúruna með lögum, svo hættuleg er hún. Lífið er gott á Íslandi í dag en það getur hæglega breyst. Jarðeldar geta breytt öllu rétt eins og þeir gerðu árið 1783. Hamfarirnar voru hræðilegar og fólk þjáðist. Margir dóu. Tíminn læknar öll sár er tíðum sagt, en það er rangt. Eftirlifendur mundu Móðuharðindin þó nýjar kynslóðir hafi ekki fundið til sama sársauka og foreldrar eða afar og ömmur. Smám saman fyrndist yfir allt. Þegar dauðinn sækir verður sársaukinn að engu. Sem betur fer erfist hann ekki. Þetta er nú allt of sumt sem tíminn gerir; sem sagt ekkert.
Tvö hundruð þrjátíu og átta árum síðar hlægjum við og skemmtum okkur á gónhæðinni, horfum ofan í tröllslegan gíginn og kvikuna sem spýtist upp úr honum. Við köllum þetta sjónarspil og finnum ekki til ógnar frekar en af regnboganum.
Einhverra hluta vegna verður mér litið út um gluggann og sé ég að guðdómleg kvöldsólin gyllir Bláfjöll og Heiðmörk. Stórkostlegt.
Og ég velti því fyrir mér hvort þjóðin sé undirbúin fyrir önnur harðindi hvort sem þau verða afleiðing af eldgosi eða bara stökkbreyttri veiru utan úr heimi. Sjáum við einhverja ógn?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.1.2022 kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)