Bloggfærslur mánaðarins, október 2018

Hann var endurtekið inni, ey var sjálfgefið og aðili féll í fljót

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

Heimildir Verdens Gang herma að maðurinn hafi endurtekið verið inni á svæðum í þinghúsinu þar sem hann átti ekkert erindi.“ 

Frétt á bls. 17 í Morgunblaðinu 25. september 2018.      

Athugasemd: Í Ríkisútvarpinu eru oft dagskrárliðir sem nefnast endurtekið efni. Það er nú gott og blessað fyrir þá sem á þurfa að halda. Hins vegar gengur það gegn málvitund margra að endurteknir dagskrárliðir séu kallaðir „ítrekaðir“

Sögnin að endurtaka merkir að gera eitthvað aftur, þó varla meira en einu sinni: endurtaka einhvern ákveðinn dagskrárlið, endurtaka aftur sama lag, endurtaka sömu söguna.

Þó er ólíklegt að orðið þýði aftur og aftur nema því aðeins að það sé sagt. Sagt er að maður hafi verið svo skemmtilegur að hann hafi endurtekið brandarann aftur og aftur í veislunni. Og fólkið hló í hvert sinn, ekki „ítrekað“ eða „endurtekið“.

Enginn getur orðað það þannig að gestir á hóteli gangi „endurtekið„ eða „ítrekað“ um anddyri þess. Ég ek oft um Miklubraut en varla ek ég „endurtekið“ um götuna, hvað þá „ítrekað“.

Af þessu má ráða að endurtekning er einu sinni nema því aðeins að annað sé sagt. Þá eru eitthvað gert aftur og aftur, oft, sí og æ, sífellt, allt eftir samhenginu. Sko ... samhengið skiptir öllu máli, á því klikka þeir sem hafa ekki þekkingu og nægilega fjölbreytilegan orðaforða.

Tillaga: Heimildir Verdens Gang herma að maðurinn hafi oftar en einu sinni verið þar í þinghúsinu sem hann átti ekkert erindi.

2.

Ey sjálf­gefið að sam­sett­ar fjöl­skyld­ur dafni.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Slæm villa hjá Mogganum. Fyrirsögnin er óskiljanleg nema því aðeins að atviksorðið eigi að vera ei og þá skilst hún. Klukkutíma eftir að villan birtist var ekki búið að leiðrétta hana. Síðar var þetta loks leiðrétt.

Á hinum ágæta vef malid.is segir atviksorðið ei sé hátíðlegt/skáldamál. Þar er þetta haft úr íslenskri orðsifjabók:

1 ei ao. † ‘ávallt, ætíð’, áherslulaus mynd af ey ‘alltaf’; sk. æ (2) og ævi.

Af þessu má ráða að orðið hafi einhvern tímann áður verið ritað ey. Má vera að lesendur viti meira um það.

Tillaga: Ekki sjálf­gefið að sam­sett­ar fjöl­skyld­ur dafni.

3.

Sex árum eftir ákæru svarar Jón Ásgeir fyrir sig enn einu sinni.“ 

Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Blaðamaður verður að huga að orðaröð í setningu. Ætti þessi setning að standa vantar eina kommu: Sex árum eftir ákæru svarar Jón Ásgeir fyrir sig, enn einu sinni. 

Til er betri og eðlilegri lausn, sjá tillöguna hér fyrir neðan.

Tillaga: Sex árum eftir ákæru svarar Jón Ásgeir enn einu sinni fyrir sig.

4.

Um helgina líður Pepsi-deildin í knattspyrnu undir lok þetta árið þegar síðasta umferðin hjá körlunum fer fram.“ 

Í dálki á bls. 42 í Morgunblaðinu 28. september 2018.       

Athugasemd: Í sjálfu sér er ekkert rangt við að orða það þannig að fótboltatímabil líði undir lok þegar síðustu leikirnir hafi verið spilaðir. Hins vegar er þetta afar stíllaust vegna þess að hægt er að segja að því ljúki.

Sumir blaðamenn skrifa tilgerðarlega sem er afar þreytandi. Þeir sem nota máltæki eða orðasambönd þurfa að þekkja þau og skilja, hafa þar að auki einhverja lágmarksþekkingu á stíl.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt má hæla blaðamanninum sem skrifar dálkinn fyrir niðurlagið:

Það gæti því orðið stutt á milli hláturs og gráts síðdegis á laugardag.

Margir beygja nafnorðið grátur rangt, reyna að láta það ríma við hlátur, en ekki blaðamaðurinn. Hann veit hvað hann er að gera og fyrir það fær hann rós í hnappagatið.

Tillaga: Síðustu leikirnir í Pepsí-deildarinnar í fótbolta verða um næstu helgi.

5.

Búið er að ná aðilanum úr Skjálfandafljóti og verið að flytja hann á Sjúkrahúsið á Akureyri.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Hvort féll karl eða kona í Skjálfandafljót. Það er ekki ljóst þegar fréttin var skrifuð og því er þrautaráðið að tala um „aðila“ sem auðvitað er tóm vitleysa. Maður féll í fljótið og það getur átt við bæði kynin. Verra hefði þó verið ef „aðilinn“ hefði verið „manneskja“.

Á malid.is segir:

Athuga að ofnota ekki orðið aðili. Fremur: tveir voru í bílnum, síður: „tveir aðilar voru í bílnum“. Fremur: sá sem rekur verslunina, síður: „rekstraraðili verslunarinnar“.

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili. T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en „ábyrgðaraðili“, „dreifingaraðili“, „eignaraðili“, „hönnunaraðili“, „innheimtuaðili“, „söluaðili“, „útgáfuaðili“.

Ég hef einu við þetta að bæta, ekki nota aðili þegar sá sem um er rætt er kona, karl eða barn, slíkt er algjörlega óþarfi, skýrir ekkert heldur flækir.

Margt vont er í fréttinni á Vísi. Störf björgunarsveita eru kölluð „aðkoma“. Hvað er það nú?

Svo segir í fréttinni:

Um var að ræða erlendan ferðamann sem var í hóp og voru ferðafélagar hans farnir að lengja eftir honum.

Réttara hefði verið að segja: Ferðamaðurinn var útlendur og ferðafélögum hans var farið að lengja eftir honum.

Algjör óþarfi að segja „um var að ræða“. Orðalagið er pyttur margir blaðmenn falla í, flokkast með orðalaginu „til staðar“ og álíka.

Fréttin er frekar flausturslega skrifuð. Hvað eru til dæmis „viðbragðsaðilar“? Hvers vegna var þyrla kölluð út? Fór hún með manninn á sjúkrahús? Orðið aðgerðir er í nástöðu.

Tillaga: Búið er að ná manninum úr Skjálfandafljóti og verið að flytja hann á Sjúkrahúsið á Akureyri.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband