Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

Gróður þolir ekki beit á gosbeltum landsins, samt ...

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og fleiri aðila sýna að gróður var í talsvert mikilli framför víða á landinu á níunda áratugnum. Síðan hefur dregið úr þeirri framför og nú virðist vera stöðnun á öllum austurhelmingi landsins, þó að láglendið sé víðast hvar í gróðurfarslegri sókn. Á gosbeltum landsins eru flestir afréttir afskaplega illa farnir og auðnir víða ríkjandi. Sauðfé sækir í nýgræðinginn á auðnunum þegar líða tekur á sumarið en beit á auðnum getur aldrei orðið sjálfbær og þar er því ofbeit.

Þannig skrifar Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, í grein í Morgunblað dagsins. Hann ræðir þann mikla vanda sem steðjar að gróðurfari landsins og þá sérstaklega vegna sauðfjárbeitar. Staðreyndin er einföld að mati Sveins. Landið þolir ekki beit, sérstaklega á gosbeltum landsins. Henni þarf að hætta.

Vandinn er þessi, að mati Sveins:

Öll lagaumgjörð um stjórn beitar og landnýtingu er mjög gömul og hefur ekki fengist endurskoðuð, þrátt fyrir margítrekaðar óskir hlutaðeigandi stofnunar þar að lútandi. Lög um landgræðslu eru frá 1965 og núgildandi lagaákvæði um ítölu í beitilönd eru að stofni til frá 1969. Ákvæði þessara laga eru löngu úrelt og þarf að endurskoða með tilliti til nýrrar þekkingar á ástandi úthaga.

Það sýndi sig best þegar reynt var að koma í veg fyrir beit á auðnum Almenninga, þá var álit færustu sérfræðinga virt að vettugi. Það tefur fyrir umbótum að lög þessi heyra undir sitthvort ráðuneytið, annars vegar umhverfis- og auðlindaráðuneytið og hins vegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Eflaust kann það að vera að mörgum finnist landið fallegt svo gróðurlaust sem það er. Ástæðan fyrir gróðurleysinu er einfaldlega dvöl manna í landinu, sauðfjárbeit og útrýming skóga. Með nokkrum rökum má fullyrða að þjóðin hefði ekki þrifist í landinu nema að hafa gert það sem hún gerði. Látum það vera. Þá er verkefnið einfaldlega að bæta úr, græða landið, stunda öfluga skógrækt. Um leið þarf að takmarka sauðfjárbeit eins og Sveinn réttilega segir. Það gengur ekki að beita á gróðurlausum svæðum.

Fyrirmyndin á að vera sjávarútvegur landsins. Hvað er gert þar? Sveinn svarar því á þessa leið:

Enn einu sinni hefur ráðherra sjávarútvegsmála ákveðið að fara í einu og öllu eftir tillögum vísindamanna Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár. Það er mikil viðurkenning á störfum Hafrannsóknastofnunar, árangurinn lætur ekki á sér standa og flestir fiskistofnarnir eru í sókn. Það er ánægjuefni þegar svo vel tekst til með ráðgjöf og í kjölfarið nýtingu náttúruauðlinda með sjálfbærum hætti.

Þjóðin þarf að nýta landið með hliðsjón af ráðgjöf færustu vísindamanna. Ekki dugar að hagsmunaaðilar hafi einir aðkomu að mati á auðlindum landsins. Farið er eftir ráðgjöf vísindamann í veiðum úr nytjastofnum við Ísland. Þannig á það líka að vera er kemur að nýtingu landsins, gróðursins. 

Ofveiði tíðkast ekki lengur. Við búum að bitri reynslu hvað það varðar og með hana að leiðarljósi sækjum við hóflega í fiskistofnana. Sama á að gerast í landbúnaði. Ekki á að vera heimilt að ofbeita land. Ekki á að vera heimilt að reka fé í Almenninga norðan Þórsmerkur nema þeir þoli beit, sem þeir gera ekki. 

Í lok greinar sinnar segir Sveinn Runólfsson og tekið er hér undir honum:

Ráðgjöf vísindamanna sem sjá ekki auðlindir hafsins nema í mælitækjum og reikna út stofnstærðir með ýmis konar mælingum er sem betur fer ávallt tekin góð og gild nú á tímum. Nýting á auðlindum þurrlendisins þarf að verða með sama hætti, en því fer fjarri að svo sé í dag.

Búvörusamningar og lagaumgjörð um stjórn beitar og landnýtingu þarf að byggjast á því [að] hægt [sé] að byggja upp auðlindir gróðurs og jarðvegs og stuðla að sjálfbærum sauðfjárbúskap í landinu.

 

 


Kristján M. Baldursson

Kirstján 1Dánartilkynningar í dagblöðum eru jafnan svo látlausar og hógværar að við liggur að lesandinn fletti framhjá þeim. Dag einn greip þó augað mynd sem ég kannaðist við og mér til mikillar undrunar og sorgar var þar sagt frá því að gamall vinur, Kristján M. Baldurssonar hafi orðið bráðkvaddur.

Ég man ekki lengur hvenær við Kristján kynntumst en líklega hefur það verið í einhverjum ferðum með Ferðafélagi Íslands og Útivist. Síðar varð hann framkvæmdastjóri Útivistar. Sem slíkur hafði hann samband við mig eftir að ég kom frá námi í Noregi árið 1987 og bað mig um að taka að mér fararstjórn í nokkrum ferðum.

891027-20Þetta var upphafið af afar skemmtilegu tímabili í lífi mínu þar sem ég var fararstjóri í fjölda ferða víða um land. Kristján vissi svo sem ágætlega af því að starfið átti vel við mig og lét mig jafnvel taka að mér ferðir á staði sem ég þekkti lítið sem ekkert.

Kristján var rólegur maður og yfirvegaður, hófsamur í öllu en traustur og góður félagi. Hann var glæsilegur á velli, höfðinu hærri en flestir aðrir, grannur, spengilegur og bar sig vel. Um leið var hann ágætlega máli farinn, sannfærandi í samtölum og skrifaði góðar greinar, jafnan um ferðir og ferðalög. Og hafði gott skopskyn.

Gott var að umgangast Kristján. Hann var umtalsgóður, lagði aldrei illt til nokkurs manns hvorki í orði né æði. Þetta er engin fullyrðing heldur dagsatt og sannaðist heldur betur þegar hann hætti sem framkvæmdastjóri Útivistar árið 1990 til að taka við sömu stöðu hjá Ferðafélaginu.

Útivistarmenn kvöddu Kristján, vin sinn, og þeir hjá Ferðafélaginu fögnuðum góðum starfskrafti.

Hvergi örlaði á kala, allir voru sáttir og vináttuböndin héldu. Auðvitað fannst mörgum að það væri nú ekki gott að missa manninn yfir til „erkióvinarins“. Þeir sem höfðu skopskynið í lagi göntuðust og héldu því fram að þessi sending myndi ábyggilega ríða Ferðafélaginu að fullu en veltu því svo fyrir sér hvernig hefndin yrði ...

Auðvitað var Kristján ekkert annað en hvalreki fyrir Ferðafélagið og hann átti mikinn þátt í því að breyta félaginu úr staðnaðri og þunglyndislegri „stofnun“ í lifandi og þróttmikið félag eins og það er í dag.

Kristján þekkti vel til landsins, kunnugur ótrúlega fjölda staða og fór á marga þeirra sjálfur sem fararstjóri á vegum Útivistar og Ferðafélags Íslands, kynnti landið og sögu þess fyrir farþegum sínum. Hann átti sinn þátt í því að gera útiveru og ferðalög að eftirsóknarverðri afþreyingu fyrir þúsundum Íslendinga. 

Kristján var sannur útivistarmaður alla tíða, unni landi sínu og náttúru þess. Hans verður sárt saknað. Örlögin höguðu því þannig að þessi öndvegismaður varð bráðkvaddur, hneig niður í upphafi gönguferðar. Þar með var lífsgöngunni lokið, langt fyrir aldur fram. 

Ég sendi konu hans, Elínu Ýrr, börnum þeirra og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Kristján var auðugur maður. Átti góða konu, fjögur börn og fjögur barnabörn.

Minning góðs drengs mun sannarlega lifa og það er gott.

Útförin hans fór fram frá Bústaðarkirkju 1. júlí 2016 kl. 13. Athöfnin var afar falleg og kirkjan troðfull af fólki. Prestur var séra Pálmi Matthíasson, organisti Jónas Þórir, Ragnheiður Gröndal söng og Guðmundur Pétursson spilaði undir á gítar. Kammerkór Bústaðakirkju söng.

Myndir:

Efri myndin er tekin á tjaldsvæði í Núpsstaðaskógum í ágúst 1985. Kristján er standandi lengst til vinstri. Hægra megin við hann er Þorleifur Guðmundsson sem lengi var fararstjóri.

Fyrir neðan er mynd sem tekin var á Lýsuhóli, í haustferð Útivistar á Snæfellsnes í október 1989. Kristján situr í öndvegi og vinstra megin við hann sýnist mér að sé Elín sem síðar var konan hans. Hægra megin við hann er Jóhanna Boeskov, formaður Útivistar. Mig minnir að þetta hafi verið síðasta ferð Kristján með Útivist áður en hann gerðist framkvæmdastjóri Ferðafélagsins.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband