Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

Kúbu-Gylfi fær enn eina ráðninguna

Þannig liggur fyrir að Gylfi Magnússon, stjórnarmaður, vildi stefna að því að lágmarka skatta Orkuveitunnar með notkun aflandsfélags - þó Gylfi Magnússon, háskólakennari, finni aflandsfélögum allt til foráttu. Gylfi Magnússon, ráðherra, hafði ekki meira við aflandslögsögur að athuga en að hann ákvað að ráða guðföður aflandsfélaga Íslendinga, sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins!

Höfundur þessara orða er Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann ritar grein í Morgunblað dagsins og hirtir Gylfa Magnússon réttileg fyrir pólitískan vingulshátt og raunar rugl. Brynjar segir:

Í fjölmiðlum nýverið fór Gylfi Magnússon, fyrrum ráðherra og sérstakur stuðningsmaður Icesave-samninga, hörðum orðum um aflandsfélög. Þessi félög hefðu skapað helsjúkt samfélag og haft mjög vond áhrif á íslenskt efnahags- og viðskiptalíf. Þegar honum var bent á að hann sjálfur sem stjórnarmaður í Orkuveitunni hefði verið fylgjandi því að Orkuveitan stofnaði slíkt félag, sagði Gylfi að ekki væru öll aflandsfélög slæm. Svo væri ekki um það félag sem Orkuveitan hefði haft uppi hugmyndir um að setja á laggirnar. Þannig eru væntanlega öll aflandsfélög slæm nema þau sem Gylfi vildi stofna.

Líklega hefur Gylfi aldrei fengið aðra eins ráðningu eins og í þessari grein Brynjars.

Ríkisstjórnarseta Gylfa var ein sorgarsaga Hann æltaði að koma þjóðinni inn í ESB og hann hótaði þjóðinni vegna Icesavef. Þá fékk hann viðurnefnið Kúbu-Gylfi vegna þess að hann fullyrti, án nokkurs fyrirvara, að ef hún samþykkti ekki Icesave samninginn myndi Ísland einangrast efnahagslega og enda raunverulega eins og Kúba.

Skemmst er frá því að segja að Ísland gekk aldrei inn í ESB, Icesave samningunum var í tvígang hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu (þökk sé atbeina forseta Íslands) og enn erum við að bíta úr nálinni vegna embættisverka Gylfa viðskiptaráðherra og ríkisstjórnarinnar sem hann sat í. Flestir muna líklega eftir því að þessi ríkisstjórn einkavæddi tvo banka með því að gefa þá kröfuhöfum. Einnig ætti mönnum að vera kunnugt um afdrif Sparisjóðs Keflavíkur.

Þetta „litla“ dæmi um Gylfa er lýsandi um verk vinstri manna og sögulega fölsun. Í dag gengur starf þeirra út á að réttlæta mistökin í vinstri stjórninni. Sem betur fer er enn til fólk með óskert minni og getur hrakið orðavaðalinn.


Katrín Jakobsdóttir skrökvar upp á forseta Íslands

[...] af því að Pana­maskjöl­in og þær upp­lýs­ing­ar sem þar koma fram, nú síðast um for­seta lýðveld­is­ins en áður um ráðherra hæst­virta í rík­is­stjórn­inni og fleiri aðila, hafa auðvitað haft gríðarleg áhrif á orðspor Íslands úti í hinum stóra heimi en hafa líka grafið mjög und­an trausti hér í sam­fé­lag­inu [...]

Katrín Jakobsdóttir virðist vera nýgræðingur í stjórnmálum. Hún er fer ekki aðeins með hálfsannleik heldur skrökvar því upp á forseta Íslands að getið séð um hann í Panamaskjölunum.

Orð Katrínar eru engin gagnrýni, eins og hún sjálf segir enda hafa þeir starfhættir lengi tíðkast í Vinstri grænum að segja ekki rétt og skilmerkilega frá. Hálfsannleikurinn er flokksins ær og kýr. Trú þessari stefnu fer hún með staðlausa stafi.

Flestum er það hulin ráðgáta hvernig það á að snerta Ólaf Ragnar Grímsson að nafn tengdafjölskyldu hans séu í Panamaskjölunum. Sumum finnst nóg að ýja að því að ákveðnir einstaklingar séu í þessum skjölum til að þeir séu réttdræpir eða verðskuldi útlegð úr mannlegu samfélagi. Nú eiga tengdir og skyldleiki að hafa sömu áhrif.

Má bráðum búast við því að þeir sem hafi átt orðaskipti við þann sem er í Panamaskjölunum séu sekir um stórglæpi?

Tilgangur Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, er eingöngu sá að sverta nafn forsetans, hefnd fyrir afstöðu hans til Icesave og ESB. Orð hennar eru engin gagnrýni, hefnd er réttnefnið.


mbl.is Forseti rangtúlkar orð Katrínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt fyrirbrigði þessi hái snjór

Hár snjórNokkuð undarlega er tekið til orða í frétt mbl.is um fjallaskíðamót. Sagt er í fyrirsögn: „Fjallaskíðamót í meters háum snjó“.

Nokkuð hef ég stundað skíði um ævina, gengið þvers og kruss um landið á gönguskíðum, rennt mér á svigskíðum og jafnvel stundum dregið fram fjallaskíðin þegar mikið hefur legið við.

Hins vegar hef ég aldrei lent í „háum“ snjó en vissulega hefur hann oft verið djúpur. Held að vanir skíðamenn tali aldrei um háan snjó, jafnvel þó þeir standi neðarlega í hlíðum og horfi upp.

Snjórinn getur verið mikill eða lítill og mælikvarði á slíkt er dýptin. Skrifa þessi mismæli á reikning blaðamannsins. Viðmælendur hans hefðu aldrei talað um háan snjó.

Myndin er af Vífilsfelli, tekin í gær. Í fjallinu er nokkur snjór. Með skáldaleyfi má fullyrða að í fjöllum sé snjórinn „hár“ ... en slíkt flokkast frekar sem leirburður.


mbl.is Fjallaskíðamót í meters háum snjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óteljandi fyrirbrigði talin

Eru Breiðafjarðareyjar óteljandi? Hér áður fyrr var svo álitið. Rétt eins og með vötnin á Arnarvatnsheiði og hólana í Vatnsdal. Allt mjög skáldlegt og fallegt, næstum rómantískt. Svo eru alltaf einhverjir sem þurfa staðreyndir, ekki „eitthvað á að giska“.

Bergsveinn Skúlason segir í afar fróðlegri bók sinni „Hrannarek“ að eyjarnar séu milli 2850 og 3000, allt eftir því hvað skuli telja með, en hærra verði þó ekki komist.

Álitamálið er auðvitað hvað eigi að telja til eyju. Eyjunum skipta Breiðfirðingar samkvæmt gamalli venju í nokkra flokka eftir stærð: Eyjar, hólma, flögur, kletta og sker.  

Nú hefur Þorvaldur Þór Björnsson, starfsmaður Náttúrufræðistofnunar lagst í talningar og fundið út að eyjarnar eru rúmlega 3000 og er þær því fleiri en Bergsveinn áleit. Þess ber þó að geta að nútímatækni er mun öflugri en sá einfaldi kortagrunnur sem hann þurfti að styðjast við.

Listakonan Finna B. Steinson setti um 1995 eitt þúsund veifur á Vatnsdalshóla. Um var að ræða gjörning en líklega ekki talningu á hólunum. Gera má þá ráð fyrir að þeir séu fleiri en eitt þúsund.

Ekki er mér kunnugt um fjölda vatna á Arnarvatnsheiði enda ábyggilega vandinn sá að meta hvað er vatn, tjörn eða pollur. Vitað er að í þurrkatíð þorna sum vötnin upp. Viðbúið er að einhver forvitinn náungi er að telja vötnin.

Svona er þetta með allt. Ekkert fær að vera í friði, sem betur fer. Forvitni mannsins er engin takmörk sett. Allt það dularfulla sem við þekkjum fer fækkandi af því að við viljum vita fjöldann upp á hár.

Talandi um hár. Hverjum dettur í hug að telja höfuðhár. Það hefur þó verið gert. Á meðalmanni eru um 130.000 eintök, gæti verið plús eða mínus 20.000 eftir einstaklingum.

Hárin á höfði mínu eru 52.156 á höfði mínu samkvæmt síðustu talningu og er það talsvert undir meðaltali. Þeim fer fækkandi eins og öðrum undrum í náttúru Íslands, lundanum. Þetta er alvarleg höfuðhárfötlun en fyrir alla muni ekki segja að ég sé sköllóttur. Hárfötlun heitir það.

 

 


mbl.is Eyjarnar ekki lengur óteljandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef lærisveinar er réttlætanlegt hvað þá með lærimeyjar?

Einn af „lærisveinum“ ritstjóra Morgunblaðsins skrifar enn og aftur grein þar sem hann uppnefnir leikmenn í íþróttum lærisvein þjálfara. Þetta er auðvitað Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður/lærisveinn sem engu að síður er reyndur og góður blaðamaður.

Auðvitað er þetta tóm della hjá Gumma. Þjálfari eða stjórnandi Liverpool hefur aungva lærisveina í liði síni, ekki frekar en kollegar hans í öðrum liðum.

Þjálfari er ekki kennari þó svo að hann leggi upp leiki og setji fram leikkerfi, nema kannski í yngstu flokkunum.

Ef við leyfum okkur svona rökræðunnar vegna að segja að leikmenn séu lærisveinar þá kallar það á samræmi, konur þurfa að vera „lærimeyjar“ ... Það er hins vegar aldrei gert.

Og ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta á þeirri útlensku sem ég kann eitthvað hrafl í. Englendingar kalla ekki leikmenn Liverpool sem „Klopp's disciples“ svo reynt sé að þýða þennan óskapnað á ensku. Má vera að þjálfarar á Íslandi séu kennarar en í Englandi eru þeir yfirleitt „coaches“ en í stóru liðunum „football managers“.

Vissulega geta konur á Íslandi farið í sveinspróf og útskrifast sem sveinar í iðngrein en kyn þeirra breytist ekki enda er prófið í raun kynlaust. Það réttlætir ekki að kalla leikmenn landsliðs kvenna lærisveina þjálfarans. Þannig verður ekkert úr neinu samræmi enda tilraunin tóm vitleysa. 

Þó lærimeyjar sé alveg ónothæft orð gefur það stórskemmtilega möguleika á alls kyns útúrsnúningum. Bíð eftir einni tvíræðri frá Ómari Ragnarssyni um þjálfara og lærimeyjar.


mbl.is Lærisveinar Klopp eru tilbúnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkurborg boðar hryðjuverk

Runni í lúpínuReykjavíkurborg vill stemma stiga við þessu og kallar áhugasama borgarbúa með sér í lið. Stefnt er að því að verja nokkur viðkvæm holt sem eru staðsett inni í grónum hverfum fyrir frekari ágangi. Allir sem vilja hjálpa til eru boðnir velkomnir til að taka þátt á sérstökum átaksdögum. Gott er að koma með skóflur og plastpoka.

Þessi tilvitnun er úr herhvöt Reykjavíkurborgar sem boðar til hryðjuverka gegn gróðri.

Margir muna þá tíð er Reykjavík var svo til trjálaus. Öskjuhlíðin var berangursholt sem og Keldnaholt og svæðin fyrir ofan borgina. Árin hafa liðið og trjágróður gjörbreytt veðráttunni í borginni til hins betra.

Víða á höfuðborgarsvæðinu blómstrar lúpínan á sumrin og hún auðgar um leið jarðveginn með köfnunarefni og býr í haginn fyrir annan gróður. Staðreyndin er nefnilega sú að íslenskur jarðvegur þarf svo sárlega á köfnunarefni að halda svo fjölbreyttur gróður geti þrifist.

Vissulega er lúpínan ágeng en það er líka kostur hennar. Hins vegar er eðli hennar slíkt að hún hörfar þegar annar gróður bætist við og hann gerir það óhjákvæmilega vegna þess hversu stórfengleg köfnunarefnisverksmiðja lúpínan er. Vaxtarskilyrði gróðurs verða miklu betri þar sem lúpínan hefur numið land.

Lúpína ÚlfarsfellMargir sem þekkja ekki til halda að lúpínan sé til óþurftar og hún hörfi ekki. Lítum þá til Heiðmerkur, fyrir ofan byggðina á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafa rannsóknir sýnt að lúpínan hörfar og margvíslegur gróður vex og þrífst í staðinn.

Þeir sem ekki skilja hvernig gróðureyðing hefur farið með landið skilja ekki heldur lúpínuna. Þetta fólk vill verja grjót, mela, sanda, örfoka fjöll. Viðhalda því ástandi sem varð til vegna ofbeitar lands, skógarhöggs og annars mannlegs óáran allt frá upphafi landnáms. 

Þetta fólk stjórnar til dæmis Reykjavíkurborg eins og glöggt má lesa út tilvitnuninni hér að ofan sem fengin er af vefnum reykjavik.is. Þetta lið kallar sig „Grænu framvarðsveitina“ sem er auðvitað tóm della nema átt sé við að lúpínan sé blá og henni þurfi þess vegna að útrýma. Hryðjuverkamenn Reykjavíkurborgar segja meðal annars þetta:

Í grónum hverfum í Reykjavík má víða finna faldar perlur sem eru grýtt holt prýdd fjölbreyttum mólendisgróðri. Þessi holt eru leifar af því landslagi sem borgin byggðist á. Veðraðir grágrýtis-hnullungar vaxnir grænum mosa og litskrúðugum skófum einkenna þessi holt og allt um kring vaxa kunnuglegar plöntutegundir eins og beitilyng, birki, blóðberg, gullmura, holtasóley, krækiberjalyng, ljónslappi o. fl. Holtin eru líka heimkynni fyrir marga fugla og smádýr.

HeiðmörkVeistu ágæti lesandi hvers vegna íslensku holtin eru svo fábreytt í gróðurfari? Það er einfaldlega vegna þess að annar gróður hefur ekki áttuppdráttar. Þjóðin hefur markvisst stundað gróðureyðingu, höggið skóg, ofbeitt gróðurlendur. Afleiðingin er fátæklegt gróðursamfélag sem varla má við neinu.

Svo má spyrja hvað orðið holt þýðir. „Oft er í holti heyrandi nær“, er kunnuglegt orðtak.

Veistu ágæti lesandi hvaða vörn við eigum gegn lúpínunni, það er að segja ef við viljum losna við hana?

Jú, ræktum tré og þau spretta upp þar sem lúpínan hefur verið, mun hraðar en annars staðar, miklu hraðar. Allar rannsóknir sýna að lúpínan hörfar þegar tré vaxa vegna þess að henni líður ekkert sérstaklega vel í skugga.

Er þá ekki miklu betra og skynsamlegra að fara í holtin á höfuðborgarsvæðinu og gróðursetja tré frekar en að vopnast skóflum, hrífum og hökum?

Svo er það annað mál að „baráttan“ gegn lúpínu er gjörtöpuð. Hún lætur ekki rífa sig upp, heldur kemur aftur og aftur nema því aðeins að baráttan sé háð með ræktun trjáa. Og hvað er göfugra en að rækta nýjan skóg ...? Hryðjuverk Reykjavíkurborgar er ekkert annað en sýndarmennska fólks sem þykist.

Myndirnar

Efsta myndin er af lúpínubreiðu og upp í gegnum hana birtist trjágróðurinn.

Miðmyndin er tekin í Úlfarsfelli. Værum við einhverju bættari án lúpínunnar?

Neðsta myndin er tekin á holti í Heiðmörk sem eitt sinn var nær gróðurlaust. Hvort eigum við að útrýma lúpínunni þarna með skóflum og hrífum eða gróðursetja tré?


Bjarni Benediktsson á móti línulögnum yfir Sprengisand

En ég hverf ekki frá þeirri skoðun minni að mér líkar illa og finnst hugmyndin raunar alveg ómöguleg. Ég get ekki séð það fyrir mér í framkvæmd, hugmyndin um háspennulínur yfir miðhálendið.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsmálaráðherra á Alþingi í dag samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins.

Yfirlýsingin er afar ánægjuleg og kætir marga. Hún mun ábyggilega hafa taksverðar breytingar í för með sér í stefnu Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og náttúruverndarmálum.

Margir kunna að segja að háspennulínur yfir Sprengisand sé frekar ómerkilegt en svo er hins vegar ekki. Línulögnin er stórmál, svo stórt að verði skoðun Bjarna ofan á í Sjálfstæðisflokknum mun hún hafa miklar og jákvæðar afleiðingar fyrir umhverfis- og náttúruvernd í landinu.

Landsvirkjun og Landsnet munu einfaldlega þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en þau leggja fram tillögur um virkjanir eða línulagnir.

Þessi skoðun Bjarna verður ekki til af ástæðulausu. Staðreyndin er einfaldlega sú að yngri kynslóðir hafa kynnst landinu á allt annan hátt en þær eldri. Þær meta land ekki eftir því hversu það hentar til sauðfjárbúskapar heldur hvernig það er af náttúrunnar hendi og hversu vel það hentar til útiveru. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.

Eldra fólk naut síður útiverunnar, það var alið upp við mikla vinnu og lítinn frítíma. Frítíminn er nú miklu meiri og fjárhagsleg geta til ferðalaga er mikil og fólk nýtur þess.

Bjarni Benediktsson er hluti af þessum kynslóðum sem líta ekki á landið með gagnaugunum einum saman heldur hvernig má njóta þess.

Háspennulínur eru vissulega ekki varanlegar en þær eru mikið lýti á landi og síst af öllu til að fegra það. Ætlum við að njóta landsins án þeirra þurfum við að kosta talsverðu til. Og þá gerum við það.

Eftir þessi orð formanns Sjálfstæðisflokksins verður forvitnilegt að fylgjast með þróun mála. Ég mun örugglega standa þétt við bak formannsins í þessu máli eins og flestum öðrum.


Misnotkun viðtengingarháttar í fyrirsögn

Er ekki kominn tími til að blaðamenn Morgunblaðsins læri að nota viðtengingarhátt rétt? Donald Trump var, samkvæmt fréttinni, ekki að hvetja Kínverja til að „nauðga“ Bandaríkjunum heldur fullyrðir að það sé reyndin. Hér er vissulega alhæft um alla blaðamenn Moggans en auðvitað á þetta aðeins við örfáa þeirra.

Þar af leiðandi á ekki að nota viðtengingarhátt í fyrirsögninni heldur framsöguhátt. Rétt væri fyrirsögnin svona: Kínverjar „nauðga“ Bandaríkjunum.

Misnotkun viðtengingaháttar er svo algeng að hún vekur furðu. Svo virðist að hún hafi smitast til allra fjölmiðla landsins. Gæti verið að hér sé um að ræða yngri blaðamenn og sökin sé fyrst og fremst menntun þeirra sem hafi veið ónóg eða menntunarleysi. Hvort tveggja er nóg til að vekja upp ágengar spurningar.

Svo er það hin efnislega athugasemd við orð Donalds Trumps. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að þessi maður verði forseti Bandaríkjanna. Hann er eins og margir aðrir í mannkynssögunni sem sækja sér skýringar eftir hentugleikum, býr til blóraböggla.


mbl.is Kínverjar „nauðga“ Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesti ógæfumaður Íslandssögunnar síðan Axlar-Björn lifði

Hvað hafa stjórnmálafræðingar fram að færa sem öðru fólki er hulið? Verum sanngjörn, hugsum málið og leggjum svo svarið fram.

Sko, lögfræðingar túlka lögin, guðfræðingar véla um trúmál, veðurfræðingar rannsaka veðurfar, hagfræðingar ... tja þeir fjalla um efnahagsmál (held ég), kennarar huga að menntun unga fólksins, læknar sinna sjúkum og svo má lengi telja upp gagnlegar menntastéttir.

Ég fæ hins vegar ekki séð að stjórnmálafræðingar viti eitthvað meira en við hin. Hitt er þó alveg víst að margir þeirra kunna að klæða skoðanir sínar í ansi ásjálegan búning, eru ábúðafullir eins og veðurfræðingur fyrir framan veðurkortið, og eru þar með afar sennilegir - svona við fyrstu sýn (eða áheyrn).

Ekki vil ég gera lítið úr sagnfræðilegri þekkingu stjórnmálafræðinga eða skilningi þeirra á pólitík. Stundum virka þeir bara afar áheyrilegir í sjónvarpinu eða útvarpinu, þangað til að málin eru krufin aðeins meir. Hins vegar þarf oft mikla þekkingu til að sjá í gegnum sennilegheitin.

Ólafur Harðarson kemur til dæmis iðulega í kosningasjónvarpið og í fréttatíma til hans Boga vinar síns og þá kemur saman mikið vit. Svo mikil skemmtan er að hlusta á þá félaga að mann langar jafnvel til að hitta þá og sötra á koníaki og skiptast á skoðunum fram eftir kvöldi og nóttu.

Óli er hins vegar gamall Allaballi og Samfylkingarmaður og það litar flest af því sem hann segir. Þannig er vissara að draga upp fyrirvarann þegar hann messar, en það getur stundum verið fjári erfitt því hann er svo fjári sennilegur.

Fleiri álitsgjafa í stjórnmálafræðinni mætti nefna. Margir þeirra hafa í lengri eða skemmri tíma dvalið á stoppistöð flokka sem síðar hafa gengið í gegnum endurnýjaða lífdaga, málað yfir nafn og númer og þeir orðið eins og nýir.

Hiklaust koma þessir stjórnmálafræðingar svo fram í fjölmiðli ríkisins og segja okkur sauðsvörtum í nafni fræða sinna hvað sé og hvað ekki, gera það með sama sjálfsörygginu eins aðrir fræðingar spá rigningu á suðvesturlandi og slyddu fyrir norðan eða að stýrivextir þurfi að hækka eða lækka.

Af stjórnmálafræðingum held ég að Ólafur Harðarson, prófessor í Háskóla Íslands sé mesti óþurftarmaður Íslandssögunnar, Axlar-Björn „included“ ...

Af hverju ...? Jú, Óli vegur að mannorði fólks sér til vegsauka en hinn myrti fólk til fjár. Báðir hlutu frægð fyrir.

Þannig er þetta nú. Stjórnmálafræðingar segja svo sem ekki neitt, veltast frá einu í annað án þess að leggja nokkuð merkilegt fram umfram það sem við hin sjáum og vitum - nema auðvitað að þeir séu þátttakendur í pólitíkinni. Þá vantar nú ekki skoðanirnar, sleggjudómanna og jafnvel rökleiðslurnar - og þá hallar jafnan á pólitíska andstæðinga.

Ljósi punkturinn er hins vegar sá að allflestir eru þeir barngóðir, berja ekki konuna sína, halda með Liferpúl eða Júnætit í enska boltanum og sumir fara meira að segja í kirkju á sunnudögum. En það gerði nú Axlar-Björn líka og mörg átti hann börnin ...


Óheimilt að hindra ferð manna um fjörur

Óheimilt er að setja niður girðingu á vatns-, ár- eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Ef mannvirki hindrar för um bakka skal sem kostur er séð fyrir göngustíg kringum mannvirkið og að bakkanum aftur. Þegar girða þarf yfir forna þjóðleið eða skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg skal sá sem girðir hafa þar hlið á girðingu. Heimilt er að hafa göngustiga í stað hliðs þegar girt er yfir skipulagðan göngustíg.

Ef ekki verður barist gegn þessum yfirgangi landeigenda verður gjörbreyting á för gangandi fólks um landið. Ómar Antonsson, erfði landið að Horni, og nýtir það núna sem féþúfu. Hann hefur ekki lagt krónu í vegagerð á svæðinu né annað.

Eins og segir í ofangreindri tilvitnun í náttúruverndarlög er óheimilt að hindra för gangandi manna um fjörur. Það gerir Ómar alveg hiklaust og á þessu þarf að taka.


mbl.is Deilt um aðgang að Stokknesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband