Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016
Dellumakerí Samfylkingarinnar
12.4.2016 | 15:41
Frumvarp Samfylkingarinnar til laga um tímabundið bann við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum er tóm della og tilgangurinn eingöngu áróðurslegur. Samfylkingin heldur því fram að allskyndilega geti ríkisstjórnin selt til dæmis Íslandsbanka. Það myndi aldrei ganga upp.
Þetta veit Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar enda er hann sjálfur í baráttu um að halda völdum innan flokksins og þar að auki er flokkurinn kominn að hálfu í kosningabaráttu.
Frumvarpið er eins og vantrauststillagan, dæmd til að falla, verði hún á annað borð tekin til umræðu.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hefur látið hafa það eftir sér að bankarnir verði ekki seldir á næstunni.
Dellan er í því fólgin að stjórnarandaðan er gjörsamlega stefnulaus. Flestir sem henni tilheyra eru á fallanda fæti miðað við skoðanakannanir. Einn flokkur þýtur upp á við en veit ekkert hvað hann á til bragðs að taka. Helst að Píratar grípi til frjálshyggjuúrræða í úrræðaleysi sínu.
Tímabundið bann við bankasölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enn saknar Ómar Ragnarsson SDG úr ekki-frelsisgöngunni
11.4.2016 | 00:31
Fyrir rúmu ári birtust þrjár stökur hér á síðunni um fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar þjóðarleiðtogar leiddust um eina af götu Parísar til að votta frönsku þjóðinni samúð og stuðning í kjölfar hryðjuverkanna þar.
Þetta segir Ómar Ragnarsson í pistli á bloggsíðu sinni. Hann trúir því enn að allir málsmetandi forsætisráðherrar og þjóðarleiðtogar hefðu raðað sér fremstir í göngu þúsunda til varnar tjáningarfrelsinu. Þar hafi bara einn vantað, forsætisráðherra Íslands, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Gangan var samt tómt rugl. Samstöðuganga fyrirfólksins í París var ekki eins og fjölmiðlar vildu telja okkur trú um. Við fengum myndina af samstöðunni eins og hún birtist hér hægra megin á síðunni og við, lesendur fjölmiðla, táruðumst yfir góðmennskunni. Sáum þó marga þjóðarleiðtoga sem hingað til hafa ekki verið þekktir sem ákafir stuðningsmenn tjáningarfrelsins í löndum sínum og jafnvel ekki annars staðar. Það vakti engar grunsemdir, ekki einu sinni hjá Ómari Ragnarssyni.
Ögmundur Jónasson, þingmaður, vakti athygli á heimasíðu sinni á vefsíðunni voltairenet.org. Þar kemur loksins fram að samstöðugangan var aðeins ómerkilegt PR trix. Hann segir á vefsíðu sinni:
Ég stóð í þeirri trú að leiðtogar rúmlega fimmtíu ríkja, auk fulltrúa einhverra ríkja til viðbótar, hefðu staðið í fararbroddi tveggja milljóna Frakka til stuðnings tjáningarfrelsinu eftir morðin í París í ársbyrjun.
Svo var ekki upplýsir vefsíðan voltairenet.org. Látið hafi verið líta útfyrir að forystufólkið hefði staðið í fararbroddi en veruleikinn hafi verið allt annar. Þessi mannskapur hafi mætt í hliðargötu til myndatöku en síðan ekki söguna meir.
Ef til vill skiptir ekki höfuðmáli hvort stjórnmálamennirnir voru aðeins á myndum sem teknar voru til hliðar því þeir voru þrátt fyrir allt mættir til að sjást og tengjast samstöðufundinum. En ef þetta er aukaatriði þá gildir það varla um þögn fjölmiðlanna og samvinnu (samsekt?) þeirra í að klippa saman í eitt, fjöldann og forystumennina, og láta líta svo út að þeir hafi staðið í farabroddi fólksfjöldans. Þetta virðist nefnilega hafa kallað á natni og yfirlegu að láta allt líta út öðru vísi en það var!
Undir þessi orð Ögmundur tek ég fullkomlega. Þetta er ein mesta fréttafölsun sem ég man eftir í seinni tíð.
Þeir íslenskir sem gagnrýndu forsætisráðherra vissu að sjálfsögðu ekki um þetta ómerkilega leikrit sem sett var á svið í hliðargötu í París fyrir ljósmyndara og kvikmyndatökumenn eina. Allra síst hann Ómar, sem áfellist enn SDG fyrir að hafa ekki mætti í ekki-gönguna.
Í ljósi þessa er kannski ástæða fyrir Ómar að yrka aðra vísur í stað þessara, sem vissulega eru nokkuð skondnar og þess vegna birti ég þær hér:
Forystu Íslands féllust hendur.
Til Frakklands var þess vegna enginn sendur.
Héðan fór enginn yfir hafið
því enginn er betri en Sigmundur Davíð.
Við endalok valda hans enginn er skaðinn?
Og enginn mun þá koma í staðinn?
Þá verður það yfir efa hafið
að enginn er betri en Sigmundur Davíð.
Nýju vísurnar mega gjarnan vera um þjóðarleiðtoga sem bókstaflega voru ekki allir sem þeir voru séðir. Og það skipti ekki nokkru máli þó SDG hafi ekki verið í París í ekki-göngunni, þetta var bara staða fyrir ljósmyndara, engin ganga, PR-stunt eins og það er kallað. Og síðan ekki söguna meir, eins og Ögmundur Jónasson orðaði það.
Er í lagi að aka á mótorhjólum upp á Vífilsfell?
9.4.2016 | 17:17
Nú er eiginlega nóg komið. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti mótorhjólamönnum, en þeir eiga að halda sig á vegum eða innan merktra svæða, ekki þar fyrir utan, ekki upp á fjöllum. Jafnvel þó þeir komist þangað.
Í glampandi sól og blíðu í dag gekk ég á Vífilsfell. Hafði með mér ísexi og brodda enda hart færi, líklega um ein stig frost. Sólin linaði dálítið skarann en í skugga var hann grjótharður erfitt að fóta sig. Ég komst þó upp.
Já, fallegur dagur. Hitti tvo göngumenn.
Uppi heyrðist skyndilega mikill hávaði. Fyrir neðan, vestan undir Vífilsfelli, voru tvö mótorhjól á ferð í snjónum. Spóluðu sig upp og niður og þvert á fjallshlíðar. Maður er svosem vanur þessum látum. Hafði orð á þessu við þann sem ég hitti uppi og hann sagði: Já, en einhvers staðar verða vondir að vera.
Má vera, en mótorhjólamenn spyrja ekki um leyfi. Þeim dugar ekki Bolaldan, búnir að marka ljóta slóða vestan undir Bláfjöllum, inn í Jósefsdal, um Sauðadalahnúkar og ábyggilega víðar. Þeir verða að fara eitthvað meira en þeim leyfist, helst upp á fjöllin. Svo ganga þeir á lagið.
Þegar ég gekk niður af toppnum og út á móbergshrygginn sá ég mér til mikillar undrunar að tvö mótorhjól voru komin upp á Sléttu, sem svo er kölluð, svæðið norðan við hrygginn.
Hjólamennirnir óku þvers og kruss um Sléttuna og annar þeirra lagði svo í hrygginn og gaf allt í botn. Hann komst um tæplega hálfa leið og þá gróf hann sig niður. Eftir það snér hann við og ók niður á Sléttu. Síðan hurfu þeir félagar hurfu mér sjónum niður gilið norðvestan við Sléttuna.
Ég hraðaði för minni niður en var ekki á broddunum. Snjórinn var harður á köflum og annars staðar brotnaði skarinn og ég sökk, stundum upp í kálfa. Þegar ég kom að norðvesturbrún Sléttu var þar meiri snjór en ég hafði séð áður. Mótorhjólamennirnir höfðu komst þarna upp, og niður aftur. Á sumardegi er þarna gil en núna fyllti snjórinn það.
Greinilegt var að ekki var auðvelt að komast þarna upp ef dæma mátti af förunum eftir hjólin. Sums staðar voru þau ansi djúp, næstum því upp í hné. Hjólin höfðu auðveldlega spólað sig niður úr þykkum skaranum sem þarna var víða og komist upp á brún á hraðanum. Greinilega snjallir gæjar þarna á ferð.
Ofan af Vífilsfelli hafði ég séð bíla við Arnarsetur en fáir leggja leið sína þangað. Þegar ég kom niður ók ég þangað og sá þar tvo sendibíla og nokkur mótorhjól við þá. Í mosanum lágu sjö hetjulegir ungir menn í fullum herklæðum mótorhjólista. Ég kastaði kveðju á það og spurði hvort einhverjir í þeirra hóp hefðu afrekað það að fara fyrstir manna á Vífilsfell. Þeir játuðu því og sögðust hafa ætlað í toppinn.
Nei, sagði ég. Þið munið aldrei komast á toppinn.
Jú, sagði einhver, ef snjórinn hefði verið harðari.
Nei, endurtók ég. Þið getið aldrei komist á toppinn.
Þá kveikti einhver á perunni og spurði hvort toppurinn væri klettar. Ég játti því og þannig skildist mér að þessir drengir hefðu aldrei komið á Vífilsfell.
Ég bað um að fá að taka mynd af hetjunum sem óku upp en fékk neitun. Bað þá um að fá að taka mynd af hjólunum, en aftur var mér neitað. Ég ók þá inn fyrir bílana og snéri við og á leiðinni til baka smellti ég myndum af tveimur hjólum. Ekki gat ég séð að þau væru á númerum. Hins vegar voru þetta tröllaukin tæki, á hrikalegum nöglum sem geta tætt sig niður úr snjó og skara og eflaust líka þannig að stórsjái á móbergi.
Nú kann einhver að spyrja hvort það sé ekki í lagi að frískir og hressir strákar spóli um fjöllin, skemmi ekkert nema róta upp snjónum.
Þessu skal ég svara í stuttu máli. Fyrir það fyrsta er akstur utan vega bannaður. Svo má nefna að þvílík mótorhjól sem þetta eru með risastörum nöglum á dekkjunum geta stórskaðað umhverfið. Að auki eiga mótorhjólamenn ekkert erindi upp á fjöllin. Jafnvel þó snjór sé ekki yfir held ég að mótorhjól eða fjórhjól komist auðveldlega langleiðina upp á Vífilsfell. Ég gæti nefnt nokkra staði en ætla ekki að auðvelda mönnum ferðir á þessum skrímslum.
Svo er það óumdeilanleg staðreynd að sé gefið eftir að þessu leyti bresta fljótlega aðrar varnir. Dæmi um það er Bolaalda sem svokallaðir krossarar fengu leyfi til að nota fyrir íþrótt sína. Það hefur ekki dugað þeim eins og áður sagði. Ég á fjölda mynda af mótorhjólamönnum undir Vífilsfelli, Bláfjöllum, Hengli og Hengladölum. Landskemmdir af mótorhjólum eru greinilegar.
Nú veit ég ekki hvort lög hafa verið brotin með akstri rúmlega hálfa leið upp á Vífilsfell. Skoða það síðar. Það er hins vegar leitt að göngumenn fái ekki að stunda áhugamál sitt, njóta náttúrunnar fyrir reykspúandi og hávaðasömum tækjum. Fyrir mitt leyti leggst ég gegn utanvegaakstri á fjöll. Ég vil frið á fjöllum. Vondir verða bara að vera þar sem þeir eiga heima.
Stefna Bernie Sanders og stefna Sjálfstæðisflokksins
8.4.2016 | 10:23
Dálítið forvitnilegt er að skoða stefnu Bernie Sanders, frambjóðanda í prófkjöri Demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Hann hefur verið nefndur sósíalisti í heimalandi sínu og margir hér á landi finna til samhygðar með honum út af þeim stimpmli.
Hins vegar virðast í fljótu bragði ansi mörg líkindi með stefnu Sanders og Sjálfstæðisflokknum. Vel má vera að Sjálfstæðisflokkurinn sé í augum margra orðinn sósíalískur. Held þó ekki, að minnsta kosti ekki í augum þeirra sem kjósa hann. Miklu líklegra er að Sanders sé hægri sinnaður miðað við evrópsk stjórnmál.
Skoðum nokkur dæmi um einstök líkindi með stefnu Sanders og ályktunum frá síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Heilbrigðismál:
Health care must be recognized as a right, not a privilege. Every man, woman and child in our country should be able to access the health care they need regardless of their income. The only long-term solution to America's health care crisis is a single-payer national health care program.
Markmið núgildandi laga um heilbrigðisþjónustu er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Sjálfstæðisflokkurinn vill að þetta markmið verði ávallt allt haft að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku varðandi heilbrigðiskerfið; bæði vegna einstaklinga sem og veitenda þjónustunnar.
Other countries have national health insurance plans that negotiate better prices for all of their residents. In this country, however, drug lobbyists have been able to block all of these common-sense solutions that we must work to pass into law. That is unacceptable and that has got to change.
Endurskoða þarf greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar með það að markmiði að setja þak á kostnað þeirra sem mest þurfa á þjónustunni að halda.
Jafnrétti kynja:
We are not going back to the days when it was legal for women to be paid less for doing the same work as men. [...] The right-wing in this country is waging a war against women and by working together, we will ensure that is a war they are going to lose.
Það er markmið Sjálfstæðisflokksins að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum einstaklinga óháð kynferði, aldri, trú, stöðu eða öðrum aðgreinandi þáttum. Með því að stuðla að jöfnum tækifærum er lagður grunnur að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélags. Mikilvægt er að hvetja báða foreldra til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs.
Launajafnrétti:
We are not going back to the days when it was legal for women to be paid less for doing the same work as men. [...] The right-wing in this country is waging a war against women and by working together, we will ensure that is a war they are going to lose.
Með því að stuðla að jafnrétti kynjanna er lagður grunnur að velferð einstaklingsins, fjölskyldunnar og atvinnulífsins og þar með samfélagsins alls. Markmiðið er að hvergi líðist óútskýrður launamunur kynjanna.
Hinsegin fólk:
Sen. Sanders is currently a cosponsor of the Equality Act, which would expand the Civil Rights Act of 1964 and other anti-discrimination laws to include protections for sexual orientation and gender identity. He has consistently supported legislation that would guarantee LGBT Americans [Lesbian, gay, bisexual, and transgender] would be treated as equal citizens, and has a lifetime perfect score from the Human Rights Campaign.
Taka þarf til endurskoðunar vinnubrögð og verkferla í málefnum trans- og intersex fólks í heilbrigðiskerfinu. Sérstaklega þarf að gera nauðsynlegar lagabreytingar sem endurspegla mannréttindi þessa hópa.
Mér líkar vel við Bernie Sanders. Hann fellur ekki að þessari sléttgreiddu ímyndarherferð bandarískrar framboðsbaráttu. Hann er enginn Kennedy í útliti, þvert á móti. Hann er nokkuð við aldur, er ekki beint fríður, ber sig ekkert sérstaklega vel og röddin gæti hentað teiknimyndapersónu í Disney-mynd.
Þrátt fyrir þetta allt sem PR lið myndi telja neikvætt sópar hann að sér fylgi. Hvers vegna? Jú, vegna þess sem hann segir og stendur fyrir. Staða hans í prófkjörsbaráttu Demókrataflokksins er aðdáunarverð.
Um leið og hann sópar að sér fylgi almennings styðja ótrúlega margir hann fjárhagslega á meðan að frú Clinton sækir mest allt sitt fé til stórfyrirtækja.
Svo virðist sem mörgum kjósendum telji stefnumál skipta meira máli en útlit frambjóðenda. Kjörþokki Sanders byggir á málefnalegri röksemdafærslu hans. Berum hann svo saman við auðjöfurinn Donald Trump. Þvílíkur munur á tveimur mönnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Greining á þeim sem mótmæltu á Austurvelli í gær
7.4.2016 | 10:59
Þriðji dagur mómæla á Austurvelli var í gær. Ég fór þangað ásamt vinstri sinnuðum vini mínum sem taldi sig endilega þurfa að sýna samstöðu. Mér fannst í lagi að fara með enda alltaf gaman að vera í mannfagnaði. Hins vegar var ég ekki að mótmæla. Forsætisráðherrann virtist vera farinn frá og ég var þokkalega sáttur.
Svo fór eins og mig grunaði að hópurinn á Austurvelli skiptist í þrennt. Stór hluti var að mótmæla ríkisstjórn sem hann hafði aldrei kosið, hafði aldrei líkað við og var alla tíð á móti. Til hans heyrir Illugi Jökulsson, rithöfundur og gamall kunningi. Hann barði af viti á álgrindurnar en ekki striti, afar taktfast og lét engan bilbug sjá á sér.
Svo voru það mótmælendurnir sem stóðu hjá, mótmæltu með viðveru sinni, kjöftuðu við vini og kunningja, hlógu og skemmtu sér hið besta. Einn af þeim sem ég kom auga á var Stefán Benediktsson, fyrrum kennari minn úr MR, og landvörður í Skaftafelli, eðalkrati. Hann hefur aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn, er andstæðingur ríkisstjórnarinnar og myndi ábyggilega aldrei viðurkenna að neitt gott gæti komið frá henni.
Svo var það þriðji hópurinn, svona lýður eins og ég. Þetta voru þeir sem komu af einskærri forvitni, vildu sjá mann og annan. Þarna sá ég nokkra íhaldsdurga og frjálshyggjumenn sem röltu á milli manna og skemmtu sér ábyggilega eins og vinstrisinnarnir. Gæti trúað að þetta hafi verið 5 til 10% af mannfjöldanum.
Ekki má gleyma útlendu ferðamönnunum. Þeir voru nokkrir þarna, sumir sátu fyrir utan veitingahús og sötruðu bjór, aðrir röltu með bjórinn sinn um forugan Austurvöll og veltu ábyggilega fyrir sér mannlegu eðli.
Loks má spyrja hverja vantaði á Austurvöll. Jú, alla þá almennu borgarar úr flestum ef ekki öllum flokkum sem þótti það nóg að forsætisráðherrann segði af sér. Í gær voru um tvö til þrjú þúsund manns sem iðkuðu mótmæli. Á mánudaginn voru á Austurvelli um 20.000 manns samkvæmt því sem lögreglan segir. Sé það rétt eru hugsanlega um 17.000 manns af þeim sem mótmæltu bara ágætlega sáttir við afsögn forsætisráðherra - eða nenntu ekki að koma.
Við félagarnir gengum um Austurvöll í tæpan klukkutíma. Loks samþykktum við einróma að nóg væri mótmælt, svona að meðaltali, fórum á veitingastaða og fengum okkur bjór. Það reyndist góð hugmynd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Áróður stjórnarandstöðunnar í beinni útsendingu, frjáls ræðutími
6.4.2016 | 21:02
Fyrir utan farsann með forsætisráðherrann hefur fólk líklega aldrei kynnst öðrum eins fíflagangi eins og einkenndi útsendingu Ríkisútvarpsins og Stöðvar2 meðan beðið var niðurstöðu um nýja ríkisstjórn. Þarna stóðu fréttamenn frá þessum fjölmiðlum og fimbulfömbuðu það sem þeir mundu um þróun stjórnmála síðustu daga.
Út af fyrir sig er það svo sem í lagi. Verra er misnotkun á tíma í beinni útsendingu þar sem stjórnarandstöðuþingmenn fá að tjá sig að vild, varpa út einhliða áróðri sínum og enginn er til andsvars. Ekki einu sinni svo að fréttamenn stöðvi þetta fólk í þvaðri sínu.
Með réttu hefði átt að halda áfram dagskrá þessara stöðva og síðan rjúfa hana ef eitthvað hefði verið að frétta.
Ég fullyrði að þetta er hrein misnotkun á aðstöðu. Stöðvarnar báðar skulu eiga skömm fyrir.
Þeir sem vilja geta horft á þingmennina vafra um meðal fjölmiðlamanna í þeirri von að einhver vilji tala við þá og þannig komast þeir í mynd. Svandís Svavarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólína Kjerúlf, Guðmundur Steingrímsson, Björn Valur, Árni Páll Árnason og fleiri og fleiri.
Þetta er eins og að sjá börn sem reyna að láta sjá sig þegar tekin eru viðtöl eftir fótboltaleik eða handboltaleik.
Skilur enginn á Stöð2 eða Ríkisútvarpinu þetta? Sér enginn ekki fíflalætin í þessu.
Sigurður Ingi næsti forsætisráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er stjórnarandstæðingu góður álitsgjafi um ríkisstjórnina?
6.4.2016 | 15:43
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, er grandvar og góður maður en sem álitsgjafi um ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er hann ekki góður. Hver vegna?
- Hann er stjórnarandstæðingur
- Hann er í framboði til formanns Samfylkingarinnar
Hvort tveggja gerir það að verkum að hann er síst af öllu diplómatískur, þvert á móti herskár og kjaftfor.
Helgi hefur aldrei stutt ríkisstjórnina og er þar af leiðandi ekki góður álitsgjafi um stöðu hennar. Aldrei myndi Helgi segja að nóg væri að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segði af sér embætti og annar tæki við. Til að afla sér atkvæða í formannskjörinu spinnur hann af öllum mætti upp ávirðingar á ríkisstjórnina og þá flokka sem að henni standa.
Svo er ekki úr vegi að nefna það að Helgi Hjörvar var einn af þeim sem vildi eftir hrun að teknar væru upp nýjar og kurteislegri orðræður í íslenskum stjórnmálum. Hann átti auðvitað við alla hina, ekki sig sjálfan.
Þessir snúningar eru hvergi nærri nóg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórn sem nýtur þriðjungs fylgis vegna ...
6.4.2016 | 15:22
Panamamálið tætir fylgið af stjórnarflokkunum: Ná ekki þriðjungi atkvæða
Þannig segir í frétt á vefmiðlinum pressan.is. Líklega er hún rétt.Þá flögrar hugurinn að síðustu ríkisstjórn. Hvað skyldi hafa tætt fylgið af henni?
Staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn hefur gert allt rétt, ekki misstigið sig í neinu máli. Auðvitað hefði hún mátt gera betur, til dæmis hækka eftirlaun, styðja betur við bakið á öryrkjum, stuðla að jafnara og betra húsnæðiskerfi og ekki síst afnema verðtryggingu lána og lækka vexti á húsnæðislánum.
Panamamálið hefur haft gríðarleg áhrif á stuðning við ríkisstjórnina og greinilegt er að hún kann ekki að koma því á framfæri sem vel er gert. Við öllum blasa persónuleg málefni forsætisráðherrans og konu hans. Og allt varð vitlaust.
Gott og vel. Rifjum upp árið 2012 en þá var fylgi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms komið niður fyrir þriðjunginn. Ástæðan var ekki neitt panama-mál, ekki slök almannatengsl, ekki einkamál ráðherra ... heldur allt hitt: Icesave, verðtryggingin, aldraðir, öryrkjar, heilbrigðismál, breyting á stjórnarráðinu, skattahækkanir og svo framvegis nær út í það óendanlega.
Já, þessi skrif eru einhvers konar réttlæting vegna þess að efnahagsleg staða landsins góð, það er staðreynd. Hún versnar ekki þó nýr forsætisráðherra setjist í stólinn við Lækjartorg. Hún myndi ekki einu sinni versna þó kosningar færu fram og nýr meirihluti tæki við stjórnartaumunum.
En drottinn minn dýri. Það yrði nú hrikalegt ef við fengjum aðra ríkisstjórn sem hefði það helsta vandamál að smala köttum eða kettlingum. Þá væri framtíðin dökk.
Lesandi gæti eflaust lesið sitthvað út úr meðfylgjandi línuriti sem ég hnuplaði af heimasíðu Gallup. Tel mig eiga það inni eftir að hafa verið í símasambandi og tölvusambandi við fyrirtækið síðustu vikur.
Jú, núverandi ríkisstjórn tapar greinilega fylgi. Ekki þó vegna skuldastöðu ríkissjóðs eða verðbólgu. Nei, vegna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, það er allt of sumt.
Byltingin er hafin, þa ebbara þannig ...
6.4.2016 | 14:06
Þa ebbarra auljost að byltingin er hafin ... þa ebbara þannig ... fólk er brjálað.
Þetta sagði greindarleg stúlka í beinni útsendingu í fréttatíma á Stöð2 klukkan 18:30 í gær. Hún var stödd í um eitthundrað manna hópi á Laugaveginum á leið upp að Háaleitisbraut 1, auljoslega í mikilli geðshræringu enda vitni að einstæðum atburði í sögu þjóðarinnar.
Hún er eins og maðurinn sem stóð dag eftir dag á torginu með stórt skilti og á því stóð HEIMSENDIR Á MORGUN. Bæði trúðu eigin orðum.
Heimsendir er ekki enn kominn og byltingin ekki heldur.
Mikið skelfingar ósköp hlýtur fréttabarninu hafa þótt gaman að koma í vinnuna í morgun. Allt með sömu kyrru kjörunum og í gær.
Góðir áhorfendur. Í gær var því haldið fram í fréttum okkar klukkan 18:30 að hafin væri bylting á Íslandi. Sú frétt reyndist ekki á rökum reist. Sigmundur Davíð fór með góðu, búið er að þvo eggin af veitingastaðnum Kryddlegnum hjörtum sem og af Alþingishúsinu. Við biðjum velvirðingar á fréttinni. Ætlum aldrei aftur að láta hljóðnema í hendur á fréttabörnum.
Þetta hefði verið almennileg leiðrétting á bullinu í gær.
Afsögn forsætisráðherra er ekki framhaldssaga
6.4.2016 | 11:36
Eftir æsilega atburði gærdagsins var manni nokkuð skemmt en ekki lengur. Hversu oft getur sami maður sagt af sér og stigið til hliðar. Ég veit ekki betur en að slíkt sé aðeins gert einu sinni, að minnsta kosti í einu.
Í sannleika sagt er kominn tími til þess að Sjálfstæðisflokkurinn stigi nú á bremsurnar og segi hingað og ekki lengra. Samskipti forsætisráðuneytisins við fjölmiðla eru orðin að aðhlátursefni út um allan heim og það gengur ekki lengur.
Eitt af þeim grundvallatriðum sem hafa ber í huga í starfsemi stjórnvalds eru samskipti við almenning og fjölmiðla. Þau þurfa að vera í föstum skorðum og með sama yfirbragði og ásýnd frá degi til dags.
Það er til dæmis ótrúlegt að forsætisráðherra geti þröngvað ráðuneytisstjóra og öðrum til að útbúa þingrofstilskipun og farið á Bessastaði og heimtað undirskrift forseta. Embættismenn ráðuneytisins eiga að vita betur, rétt eins og forsetinn, og fengið ráðherrann ofan af þessari ferð. Nei, þess í stað druslast þau með rétt eins og þau séu sammála ráðherranum í vitleysu sinni.
Nóg er að segja af sér embætti einu sinni. Tilgangurinn á að vera hinn sami hvort sem mælt er á íslensku eða öðrum tungumálum.
Nú er nóg komið. Afsögn forsætisráðherrans á ekki að vera framhaldssaga. Maðurinn á að vera farinn úr ráðuneytinu og annar tekinn við til bráðabirgða. Þegar forsætisráðherra fer til útlanda gegnir annar ráðherra störfum hans á meðan. Þetta er ekkert flóknara en það.
Fyrir alla muni, Bjarni Benediktsson, þessa vitleysu þarf að stöðva. Og þó fyrr hefði verið.