Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Gagnrýnislaus skýrsla um seðlabankastjórann

Eftir að Morgunblaðið hafði birt fréttir sínar og bankaráð bankans hafði sannreynt að þær voru réttar óskaði það eftir áliti Ríkisendurskoðunar á málinu. Endurskoðun tók sér langan tíma til vinnslu þess álits og því vakti það mikla undrun hversu veikt og vandræðalegt það var, er það loks barst. Skýrslan virðist leggja framburð fyrrverandi formanns bankaráðsins til grundvallar gagnrýnislítið og án frambærilegrar skoðunar og þar er dregin upp sú mynd að bankastjórinn
sjálfur hafi ekki haft neitt með þessar greiðslur til sjálfs sín að gera og varla haft vitneskju um þær! Þessir örlætisgerningar hafi allir verið gerðir að frumkvæði og á ábyrgð formanns bankaráðsins og hann hafi ekki rætt þær við nokkurn mann. Seðlabankastjórinn vissi og veit fullvel að bankaráðsformaður hefur ekkert stöðulegt umboð til slíkra verka frekar en einstaklingur úti í bæ. Hafi þessar miklu summur borist óvænt inn á bankareikninga hans, eins og Íslenskar getraunir hefðu sent þær, hlaut hann að rannsaka málið.

Þannig segir núna í Reykjavíkurbréfi sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um mál Seðlabankastjóra og varpar án efa óþægilegu ljósti á málarekstur sem verið hefur til mikilla vandræða í stjórnsýslu og stjórnmálum undanfarin misseri.
 
Már Guðmundsson er án efa góður hagfræðingur og hefur eflaust staðið sig nokkuð vel sem seðlabankastjóri. Launadeila hans við bankans og raunar fyrrverandi ríkisstjórn skyggir þó dálítið á. Ljóst er að fyrrverandi forsætisráðherra lofaði Má miklu hærri launum en hann fékk, launum sem væntanlega eru við hæfi hjá stórþjóðum en ekki hér á landi. Síðan gerist það að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna setur reglur um að laun á vegum hins opinbera megi ekki vera hærri en nemur launum forsætisráðherra. Má þótti þetta ekki gott og heimtaði að fá umsamin laun og ræddi lengi við fyrrum forsætisráðherra en gekk þar bónleiður til búðar. Þegar launin lækkuðu svo með reglugerð varð Már verulega ósáttur og fór í mál við launagreiðanda sinn, Seðlabankann sem hann veitir forstöðu. Hann tapaði málinu. Þá gerast þau ósköp að Seðlabankinn greiðir málskostnað Más, og að sjálfsögðu sinn eigin. Bankinn greiðir því allan kostnað vegna málareksturs Seðlabankastjóra við Seðlabankann.
 
Allt þetta er hið furðulegasta dæmi. Víst má vera að stjórn einkafyrirtækis myndi aldrei sætta sig við að framkvæmdastjórinn færi fram með þessum hætti. Hann yrði rekinn, bótalaust.
 
Mogginn fletti ofan af málinu og í kjölfarið var embætti ríkisendurskoðanda látið rannsaka málið. Út kom skýrsla sem virðist hvorki fugl né fiskur. Rannsóknin er einungis til málamynda og gerð til að koma þeirri hugmynd inn að fyrrum formaður bankaráðsins hafi upp á sitt eindæmi látið bankann borga málskostnaðinn og það án vitundar bankastjórans. Um þetta segir í Reykjavíkurbréfinu:
 
Ef um löglega greiðslu til bankastjórans er að ræða hafa þeir sem sjá um greiðslur fyrir bankann fulla heimild til að afgreiða þær og/eða gera athugasemdir og óska eftir skýringum. Annars væri ekki hægt að greiða bankastjóranum laun eða aðrar greiðslur um hver mánaðamót. Embættismennirnir hafa bæði rétt og skyldu til að kanna, þegar mál er óvenjulegt, hvort formskilyrði, eins og samþykkt bankaráðsins, liggi fyrir. Fletta hefði mátt staðfestum fundargerðum bankaráðsins, sem allmargir embættismenn bankans hafa aðgang að. Eins hefði mátt spyrja annan hvorn, bankastjórann eða aðstoðarbankastjórann, hvort greiðslan væri lögmæt.
 
Auðvitað er þetta rétt hjá höfundi Reykjavíkurbréfsins enda benda líkur til að hann þekki eitthvað til innanstokks í Seðlabankanum og viti þar af leiðandi fullvel hvað hann er að tala um. En svo bæti hann um betur og segir þetta:
 
Það er ekki annað að sjá en að þau pólitísku skoðanasystkin Már Guðmundsson og Lára Júlíusdóttir hafi verið mánuðum saman að bralla með þessar greiðslur til Más og farið vitandi vits framhjá bankaráðinu, eina aðilanum sem hugsanlega hefði mátt taka slíka ákvörðun. Margir fundir eru haldnir í bankaráðinu, þar sem þau sitja bæði, og hvorugt þeirra upplýsir um málið. Bæði hafa þó augljósa upplýsingaskyldu. Brotaviljinn er því einarður. Án Morgunblaðsins væri málið enn í þagnargildi. Æpandi þögn.
 
Ekki nóg með að höfundurinn dragi þessa ályktun sem hlýtur að rökrétt, hann bendir til viðbótar, mjög kurteislega á eftirfarandi staðreyndir (greinaskil eru mín):
 
Það sem vekur mesta athygli, en er ekki minnst á í skýrslu Ríkisendurskoðunar, er það að innri endurskoðandi bankans kemur aldrei auga á hin augljósu misferli, þótt þau standi yfir svona lengi.
 
Ekki verður séð að bankastjórinn, aðstoðarbankastjórinn, formaður bankaráðsins eða rekstrarstjórinn, sem innir greiðslurnar af hendi án þess að samþykkja þær, hafi nokkru sinni leitað til innri endurskoðandans um álit á málinu. Vafalítið hlýtur að vera að innri endurskoðandi hefði tekið í taumana hefði hann vitað hvað var um að vera, og væntanlega kallað til lögreglu.
 
Ekki verður séð af skýrslu Ríkisendurskoðunar að við yfirferð málsins hafi nokkru sinni verið rætt við innri endurskoðandann um það hvernig þetta mál mætti hafa farið framhjá því embætti. Nú hefði það átt að vera hægðarleikur, þar sem innri endurskoðandi bankans, sá aðili sem hefði átt að setja puttann á þá brotastarfsemi sem þarna átti sér stað, er systir ríkisendurskoðanda.
 
Er það með miklum ólíkindum að ríkisendurskoðun, sem túlkar vanhæfisreglur um starfsmenn Seðlabankans svo vítt, eins og gert er í álitinu, skuli ekki hafa séð að Ríkisendurskoðandi var vita vanhæfur til að fara með mál af þessu tagi og raunar aðallögfræðingur og staðgengill hans einnig, þegar af þeirri ástæðu og vegna annarra tengsla sem eru þýðingarmikil í málinu.
 
Enginn innan Seðlabankans sagði eitt aukatekið orð um greiðslur á málskostnaðnum, áttu þó fjölmargir hlut að máli, samkvæmt Reykjavíkurbréfinu. Gerðu embættismenn aðeins það sem fyrir þá var lagt og hver stýrði þar málum, formaður bankaráðsins sem ekkert boðvald hefur, eða var það seðlabankastjóri sjálfur?
 
Ljóst má vera að sumir eru á þeirri skoðun að Már Guðmundsson sé góður kostur sem Seðlabankastjóri. Hins vegar hefur hann gert alvarleg stjórnunarleg mistök sem benda til þess að hugsanlega þurfi að líta til annarra umsækjenda.
 
Í upphafi var afar undarlega staðið að ráðningu Más og bendir flest til þess að enn sé talsvert ósagt um þau efni. Blandast þar óhjákvæmilega inn í málið fyrrum forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar og fyrrum allsherjarmálaráðherra og formaður Vinstri grænna.
 
Getur til dæmis verið að þau Jóhanna og Steingrímur hafi lofa Má Guðmundssyni hærri launum og hlunnindum sem ekki var unnt að standa við vegna pólitísks vandræðagangs í stjórnsýslu síðustu ríkisstjórnar?
 
Í það minnsta er þarf að rannsaka málið mun ítarlegar og betur en embætti Ríkisendurskoðanda gerði. Hins vegar verður að segjast eins og er að Ríkisendurskoðandi ollu verulegum vonbrigðum með skýrslu sinni.

Arfur frá blýsetningu texta og ritvélum

Enn skal brýnt fyrir þeim sem hlut eiga að máli að málið er samskiptatæki. Misskilningur er nógur þótt menn finni ekki upp skammstafanir sér til hægðarauka en öðrum til bölvunar. „Sökina eiga fjölmiðlar e.ö.h. Netið“: þ.e. „eða öllu heldur“.

Þetta er einn stysti dálkur sem ég þekki í prentuðum fjölmiðlum en hann nefnist Málið og birtist daglega í Morgunblaðinu. Í einfaldleika sínum er Málið er góður stuðningur þeirra sem vilja framar öllu tala og rita rétt mál. Það er þó ekki öllum gefið og því betra að fylgjast með, læra.

Ég er sammála höfundi ofangreindrar tilvitnunar. Skammstafanir held ég að eigi rót sína að rekja til blýsetningar í prentiðnaði. Meðan hún tíðkaðist voru þær til að spara pláss. Á tölvuöld er nóg af plássi og því eru skammstafanir gjörsamlega óþarfar og eiginlega hundleiðinlegar svo ekki sé talað um hversu óskiljanlegar þær geta verið. Þær virðast þó vera að ryðja sér til rúms aftur í smáskilaboðum í handsímum. Margir nenna ekki að tifa um smágerð lyklaborð þeirra og niðurstaðan verður runa af skammstöfunum.

Arfur blýsetningar og ritvéla er mikill. Ofnotkun á hástöfum og undirstrikunum er eitt af því hvimleiðasta sem um getur. Meðan ritvélar voru notaðar var erfitt að leggja áherslu á orð eða setningar. Þá var gripið til þess ráðs að nota HÁSTAFI eða undirstrika orð, jafnvel hvort TVEGGJA í einu. Þá var vissara að taka vel eftir. Þetta þarf ekki lengur að gera. Um marga og betri kosti er að velja, til dæmis feitletrun, skáletrun og jafnvel lit

Dæmi er um að þessu sé öllu blandað saman, texti allur feitletraður í hástöfum og fjölmörgum litum eytt út um allt skjal og í þokkabót fjölmargar leturtegundir notaðar. Lesendur hafa ábyggilega séð slíkt. 

Hóf er þó best á öllu, einfaldleikinn farsælastur. 


Er eitthvað rotið hjá sérstökum saksóknara og FME?

Þáverandi forstjóri FME taldi það meginmarkmið sitt að kæra sem flest mál án tillits til gæða rannsóknar. Þessi einstaklingur var einnig tilbúinn að brjóta lög til þess að koma höggi á þingmann sem honum var í nöp við. Afleiðingin er sú að hátt í 400 manns hafa fengið réttarstöðu grunaðs manns. Að minnsta kosti helmingur mála sem FME hefur kært til sérstaks saksóknara er tilefnislaus. Fyrir liggur dómur um að FME svipti saklausan mann starfi sínu og veittist að æru hans á heimasíðu sinni. Umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafa gert athugasemdir við fjölda mála hjá FME, s.s. nafnalista yfir óæskilegt fólk, ólögmæta gjaldtöku og ólögmætar sektir.
 
Þannig ritar Helgi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður, í grein í Morgunblaði dagsins. Hún er mjög beinskeytt gagnrýni á störf embættis sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitsins og Helgi er ekki sá eini sem hefur áhyggjur af þróun mála. Aðrir lögmenn og einnig leikmenn hafa gagnrýnt framgöngu þessara embætta og sérstaklega fjölda mála sem reynst hafa tilefnislaus og litlu skipt í uppgjöri hrunsins.
 
Að sjálfsögðu þurfa stjórnvöld að ganga hægt en yfirvegað fram. Ákæra er í sjálfu sér mikið áfall fyrir þann sem fyrir verður og ekki síst ef hún hefur ekki neina stoð í raunveruleikanum. Greinarhöfundur rekur mál gegn skjólstæðingi sínum. Til skýringar segir hann:
 
Þetta er sambærilegt við að líta svo á að einstaklingur sem framlengir eins milljón króna yfirdrátt mánaðarlega hafi á einu ári fengið 12 milljóna króna lán. Þessi einfalda skekkja fór framhjá Fjármálaeftirlitinu, sem er sérhæft stjórnvald á þessu sviði, sérstökum saksóknara, sem á að hafa sérstaka þekkingu á efnahagsbrotum, og dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Afleiðingarnar urðu umfangsmiklar lögregluaðgerðir á hendur fjölda manns og atvinnumissir auk ýmissa annarra skerðinga á grundvallarmannréttindum. 
 
Mann rekur hreinlega í rogastans við lesturinn og veltir fyrir sér hvernig svona mistök geti átt sér stað í þeim stofnunum þjóðarinnar sem hvað mikilvægastar eru.
 
Hitt er svo annað að embætti sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitið eiga án efa eftir að gera athugasemdir við grein Helga Sigurðssonar. Það er hins vegar góð regla fyrir þá sem fylgjast með í stjórnmálum og atvinnulífi landsmanna að hlusta á sjónarmið sem fram eru lögð, sérstaklega þegar þau eru rökstudd jafn vel og Helgi gerir. Þetta þarf embætti sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitið líka að gera því það væri ótækt ef þessar stofnanir vísa allri gagnrýni á bug eða láta sem ekkert sé og halda áfram fyrri iðju.
 
Við, almenningur, ætlumst til að réttlæti sé framfylgt en ekki sé gengið fram til að efna til ofsókna gegn hundruðum eða þúsundum í þeirri von að einn og einn þrælsekur hljóti að vera í hópnum og fái þannig sína refsingu.
 

Danskur prófessor skilur ekki Jón og Gunnu

„Dönsku húsnæðislánafélögin hafa aldrei í 200 ára sögu kerfisins farið í gjaldþrot. Hér á Íslandi lækkuðu stjórnvöld nýverið skuldir heimila. Þið verðið að sannfæra fjárfesta um að það muni aldrei gerast aftur,“ sagði Rangvid á morgunverðarfundi Dansk-íslenska viðskiptaráðsins á Grand Hótel í gær.

Þetta er úr frétt í Morgunblaði dagsins af fundi, sem ég hélt fyrirfram að yrði afar merkilegur, en miðað við þessi orð prófessors Jesper Rangvid, veit hann ekkert hvað gerðist hér á landi í kjölfar hrunsins. Hann lætur sem að lækkun á skuldum heimilanna hafi verið einhver léttúðugur leikur stjórnvalda. Það var nú langt í frá þannig.

Vandinn við marga af innfluttum og jafnvel innlendum spekimönnum sem höndlað hafa veraldarviskuna er sá að þeir vita ekki um daglegt líf almennings, aðeins sýndarheim tilbúinna markaða og fá laun sín ómælt úr þeirri hít. Skiljanlega vita þeir lítið um annað.

Árið 2008 varð mikið efnahagskreppa í heiminum með alvarlegum afleiðingum. Hér á landi varð bankahrun og við lá þjóðargjaldþroti. Með réttu hefði prófessorinn á að segja að hið síðarnefnda mætti aldrei gerast aftur og sannfæra þyrfti fjárfesta um það.

Flestum er ... tja, andskotans sama, ... ef ég má gerast svo djarfur að orða það þannig, um markaði, fjárfestingu og annað álíka þegar skuldir þeirra rjúka upp en eignir falla í verði. Þetta skildi ekki ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms en sögðust þó ætla að slá skjaldborg um almenning en studdu hins vegar bankanna með ráðum og dáð. Núverandi ríkisstjórn stóð hins vegar í lappirnar og gerði það sem átti að gerast í upphafi stjórnartímabils áðurnefndra skötuhjúa.

Vandinn er hins vegar sá að fjármagnið í stórum kippum er mun áhugaverðara og skemmtilegra viðfangsefni en hin þunna budda Jón og Gunnu. Sem betur fer hafa þau kosningarétt sem gerir vægi þeirra meira.

Vörum okkur hins vegar á ráðgjöfum sem bera ekki skynbragð á efnahagslegar þarfir Jóns og Gunnu. 


Fjölmiðlar magna upp veðurhræðslu

Rétt fyrir klukkan átta lagði ég af stað í vinnuna, - á hjólinu eins og venjulega. Við morgunverðarborðið hlustaði ég á tuðið barna sem stjórna morgunútvarpi Ríkisútvarpsins og voru þau á einu málum að að veðrið væri alveg hræðilegt og spáin enn verri. Á fréttavefsíðunum var aðalfréttin ekki um gróandann í gúrkuræktun heldur veðrið.

Manni bregður óneitanlega við þegar fjölmiðlar landsins sameinast um að vara mann við þessum ósköpum að fara út undir bert loft. Veðurhræðsla virðist vera að magnast hér á landi og virðist landinn vera orðinn þannig að ekki megi hvessa aðeins og rigna örlítið þá verði fjölmiðlar landsins sem stjórnlaust rekald í tölvuheimi. Eitt ágætt dæmi er svokallað „gluggaveður“ sem einhver gáfumaðurinn fann upp sem hvatningu til að halda sig innandyra og horfa þaðan í „öryggi“ á „vont veður“.

Jæja, ég ákvað að láta ekki aðra en mig stjórna gjörðum mínum og hjólaði mína leið eins og ég geri á hverjum morgni. Skemmst er frá því að segja að ég komst klakklaust á leiðarenda og var bara frekar þurr, þó ég hafi svitnað meir en endranær vegna þess að ég var í regnheldum fötum. Rigningin varð mér ekki nein fyrirstaða og ekki þessi gjóla. Mér sýndist líka að þeir sem ég mætti væru svona frekar í góðu standi miðað við veðurspár.

Auðvitað var blautt á og pollar víða. Það minnir mann nú bara á manninn sem sagði eftir vatnssopann: Alltaf er blessað vatnið gott þó það hafi nú orðið mörgum að fjörtjóni.

Ekki veit ég hvernig veðrið verður að loknum vinnudegi, það kemur bara í ljós. Mikið má þó ganga á áður en ég fer á annan hátt heim heldur en á hjólinu. Svona kokhreysti minnir auðvitað á hinn manninn sem sagðist mundi koma um kvöldið til að hita elskuna sína, jafnvel þó heimsendir stæði yfir, en bætti svo við eftir andartaks umhugsun: „En ef rignir kem ég bara á morgun.“

Hér er ekki verið að gera lítið úr réttmætum viðvörunum veðurfræðinga. Staðreyndin er þó sú að fjölmiðlar gelta oftar en ekki um úlfinn og afleiðingin er einfaldlega sú að þegar hann loksins lætur sjá sig eru þeir fjölmargir sem ekki tóku mark á viðvörunum. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband