Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Ónákvæmni í fréttaflutningi fjölmiðla af eldinum

onytt.jpg

Étur nú hver vitleysina upp eftir öðrum. Allt byrjaði þetta hjá Ríkisútvarpinu, fór þangað í Ríkissjónvarpið og nú í blessaðan Moggann.

Enginn mosi er á milli Helgafells og Valahnúka. Og varla logar í mold og melum.

Hins vegar eru mosabreiður norðan og suðaustan við Valahnúka og við Helgafell.

Rétt skal vera rétt. Ónákvæmni blaðamanna er allt of algeng og margir hafa hreinlega enga þekkingu á landinu. Út af fyrir sig er það allt í lagi en þá eiga þeir hinir sömu að vera nægilega skynsamir að afla sér upplýsinga og miðla þeim. Það er blaðamennska.

onytt2.jpg

Á meðfylgjandi korti má sjá afstöðuna. Loftmyndin sýnir einnig hvernig hraunið úr Grindaskörðum hefur lagst að hlíðum Helgafells og Valahnúka, runnið í kringum hæðir og loks náð að falla niður vestur fyrir Helgafell.

Dökki bletturinn vestan við Helgafell er ekki stöðuvatn heldur leir eða moldarflag.

Af lýsingu má gera ráð fyrir að eldurinn sé í mosanum einhvers staðar suðaustan við skarðið milli Helgafells og Valahúka. Kortið og mynd er frá já.is sem er afbragðs heimild fyrir þá sem vilja t.d. undirbúa gönguferðir.


mbl.is Slökkvistarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin láni ríkissjóði 100 milljarða fyrir Icesave

Stjórnvöld geta auðveldlega sótt um 100 milljarða lán frá íslensku þjóðinni.

Hugmyndin er sú að þjóðin láni ríkissjóði fé sem bundið verður til ákveðins tíma á hagstæðum vöxtum. Hugsanlega mætti hafa svipaða framkvæmd á þessu eins og þegar lok hringvegarins voru á sínum tíma fjármögnuð á svipaðan hátt.

Með þessu móti væri hægt að efla tryggan sparnað í þjóðfélaginu, greiða niður erlendar skuldir eða auka við framkvæmdir í vegakerfi og atvinnuuppbyggingu, draga úr þörf fyrir erlendar lántökur og ekki síst nýta þann kraft sem til er í þjóðfélaginu sem beinist gegn yfirþyrmandi og lamandi áhrifum Icesave lánsins.

Vandamál ríkisins verða í framtíðinni afborganir af erlendum lánum. Innlendar skuldir ríkisins eru allt annar handleggur og mun auðveldari viðureignar.

Gera má ráð fyrir að hægt verði að afla fimmtíu til eitthundrað milljarða króna í lánsfé innanlands sem þýðir að um það bil fimmtíu þúsund manns láni ríkinu eitthvað á bilinu ein til tvær milljónir króna. Meira er til, það veltur bara á markaðssetningunni.

Eigendur þessa fjárs eru þó afar illa brendir vegna bankahrunsins, handónýtra peningamarkaðssjóða gömlu bankanna og geldra nýrra banka. Spurningin er einingis þessi: Kann ríkissjóður að gera þessa hugmynd að aðlaðandi kosti fyrir þá sem vilja spara og hagnast um leið.

Eða er orðið hagnaður bannorð hjá vinstri stjórninni?


mbl.is Rússalán í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þráinn vaknar af löngum þingsvefni sínum og bullar

Þráin Bertilsson þarf að gæta að sóma sínum. Hann fer með staðlausa stafi rétt eins og hann væri enn að skrifa í Fréttablaðið. Í þokkabót er víða lítið vit í málflutningi þessa manns sem hingað til hefur sofið manna lengst á Alþingi en vaknar nú með andfælum og bullar tóma vitleysu.

Raunar ætti hann að beina spjótum sínum að eigin flokksmönnum í Borgarahreyfingunni. Var hann sofandi þegar þeir hikuðu við að taka afstöðu til mála og láta vaða í hrossakaup við ríkisstjórnina? Var Þráinn vaknaður þegar stjórnarþingmenn sökuðu Borgarahreyfinguna um að svíkjast um borgun?

Og er það ekki þingmaður þessarar makalausu hreyfingar sem skiptir um skoðun eftir því sem vindurinn blæs? Klauf Þráinn Borgarahreyfinguna sofandi, milli draums og vöku eða var hann með opin augun?

Hvers vegna má þjóðin ekki greiða um það atkvæði hvort sækja skuli um aðild að ESB? Það er engin ástæða til að fara í aðildarviðræður ef þjóðin leggst gegn þeim.

Vilji þjóðin ganga í ESB er nokkuð ljóst að pólitíkst umboð samninganefndafar öflugt.

Einföld samþykkt Alþings hefur ekkert pólitískt vægi vegna þess að einungis er ætlunin að „prófa“ og sjá hvaða árangur næst. Hugur fylgir ekki máli með vilji svo til að þingið samþykki sumsóknina. Það er hverjum manni ljóst og líka Evrópusambandinu.

Og þversögn Þráins er í því fólgin að hann vill ekki leita álits þjóðarinnar, kallar slíkt loddaraskap. Og til að réttlæta sofandahátt sinn lýgur hann því blákalt að þjóðinni að umræða um aðildina hafi:

„... nánast verið bönnuð áratugum saman og þöggun ríkjandi of lengi, alltof lengi, á langri, alltof langri, stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins.“

Maðurinn veit betur enda er ofangreind tilvitnun líkast því sem hann skrifaði í mörg ár á þjóhnapp Fréttablaðsins.

Þráinn hefur alllengi sofið á Alþingi. Honum færi best á að leggja sig aftur eða taka upp betri siði.


mbl.is Þráinn greiðir því atkvæði að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhættuleg gjaldþrotapólitík Árna Þórs Sigurðssonar og félaga

„Hann segir málið lykta af pólitík og veltir fyrir sér hvort viðkomandi séu enn í vinnu hjá fyrrverandi seðlabankastjóra.“

Æ fleiri átta sig á því að Icesave samningurinn er afar óhagstæður Íslendingum. Meðal þeirra sem eru á þessari skoðun er Davíð Oddsson og hann hefur ekki legið á skoðun sinni. Fleiri mætti til telja. Og nú virðist sem að lögfræðideild Seðlabankans sjá mjög alvarlega agnúa á samningnum.

Í stað þess að taka aðfinnslum og gagnrýni með jafnaðargeði lætur Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hafa sig út í pólitískar ávirðingar.

  • Icesave samningurinn er ekki pólitískur. Hann varðar framtíð þjóðarinnar og sjálfstæði hennar. Svo einfalt er það.
  • Icesave samningurinn er ekkert betri þótt svo vilji til að Davíð Oddsson sé efnislega á móti honum.
  • Icesave samningurinn skánar ekkert við pólitískt áraglamur Árna Þór Sigurðssonar.

Ríkisstjórnin þarf að átta sig á því að nauðsynlegt er að gera breytingar á Icesave samningnum. Verði hann samþykktur þá spái ég óeirðum á Íslandi.

Eiga Íslendingar að sætta sig við óbreyttan samning vegna óreiðumanna sem gjörbreytt hafa stöðu þjóðarinnar og sett ríkið því sem næst í gjaldþrot.

Nei. Við breytum samningnum þannig að hann verði þjóðinni þolanlegur. Geti formaður utanríkismálanefndar ekki skilið það á hann að segja af sér. Gjaldþrotapólitík Árna Þórs Sigurðssonar og samstarfsmanna hans er þjóðinni stórhættuleg. 


mbl.is Ekki formleg umsögn Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bull og þvæla í þessum Steingrími

Getur það verið að nafn nafn Steingríms J Sigfússonar muni standa fyrir mestu mistökum Íslandssögunnar, Icesave samningnum?

Hann getur allt eins haldið því fram að íslenskir bændur séu mesta skaðræði í íslensku þjóðfélagi vegna þess að þeir framleiða og selja vörur sem valdið geta hjartasjúkdómum.

Svona talsmáti er engum til gangs og allra síst íslenskum stjórnmálum.

Vissulega voru bankarnir seldir á sínum tíma. Ekki með nokkrum sanni er hægt að gagnrýna þann gjörning. Menn geta þó haft mismunandi skoðanir á því hvort bankarnir eigi að vera í einkaeigu eða opinberri, það er allt annað mál.

Salan á bönkunum sem slík hafði ekkert að gera með fall þeirra. Ekki frekar en að það sé sök Toyota að ökumaðurinn ók fullur og olli stórslysi.

Milljarðarnir ellefu sem fengust fyrir Landsbankan gamla á sínum tíma voru góð búbót. Ríkisendurskoðun kvittaði rækilega upp á viðskiptin og hafði nákvæmlega ekkert út á þau að setja.

Auðvitað hafa óvandaðir menn spunnið upp samsæriskenningar en enginn fótur er fyrir þeim. Staðreynd málsins er einfaldlega sú að eigendur bankanna klúðruðu málunum og við þurfum að borga.

Ef þessi Steingrímur vill halda áfram svona leik þá er alls ekki víst að neinn nenni að leika með honum. 


mbl.is Dýrustu milljarðar Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband