Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Ramblað á Römblunni

dsc_0132b.jpgRamblan stendur ekki undir nafni. Hún er miklu meira en uppþornaður árfarvegur eins og upprunalegt nafn hennar gefur til kynna. Hún er iðandi mannlíf, straumur lífs og þjóða.

Á staldri finnur maður og heyrir fjölbreytileikann. Í boðaföllum þessarar mannlegu elfar heyrist þó fátt nema gleði og fjör.

Sagt er að Barcelona sé sú borg á Spáni sem sé minnst spænsk. Um það veit ég manna minnst, fyrir mér er hún ekki svo ýkja framandi. Hún er alþjóðleg eins og La Rambla, hinn breiða gata sem liggur ofan úr borg og niður að höfn, lífsins leið. Þar leika buskarar listir sínar, tónlistin ómar, stuttir og langir leikþættir verða til, mannlegar myndastyttur eru hreyfingalausar á götuhornum og skyndlega vilja einhverjar bregða við og af barnslegri einlægni hrekkur maður í kút.

Stórkostlegt að finna hversu ótrúlegir tekjumöguleikar eru til á ekki stærra svæði. Afþreying, þjónusta, skemmtun og menning.

Skopið er sjaldnast langt undan. Hvítmálaður maður situr á klóseti á palli og þykist lesa bók. Einhver kastar hálfri evru í kopp og sá hvítklæddi lítur upp og brosir. En brosið segir ekki alla söguna því um leið þykist hann prumpa. Fretið heyrist hátt og snjallt, ef svo má að orði komast, og hann fitjar upp á trýnið og finnst eflaust fnykurinn slæmur. Áhorfendur skellihlæja og fleiri evrur rata í koppinn og aftur heyrist prump og nýjir áhorfendur hlæja.

Enginn dagur er öðrum líkur á ramblinu á Römblunni. Þar er aldrei sama fólkið, allt tekur örum breytingu, alltaf má sjá eitthvað nýtt og skemmtilegt ... Ósjálfrátt laðast maður að þessum straumi, maður kastar sér útí'ann og verður áreiðanlega ekki verri fyrir vikið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband