Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Akandi með síma í annarri og rjómaís í hinni

Var næstum því búinn að hlaupa á svartan Golf sem ók undurhægt yfir gangbraut á Skeiðarvogi við hringtorgið á Suðurlandsbraut. Ökumaðurinn, stúlka um tvítugt, gat nú varla ekið greiðar því í hægri hendi var hún með rjómaís og með vinstri hendi hélt hún síma við eyra sér. Hún hallaði sér fram á stýrið og stjórnaði því með olnboga vinstri handar og líklega hægri fæti en gætti þess vandlega að ekkert læki úr ísforminu.

Annan bíl sá ég, grár Landcruser 100. Ökumaðurinn, miðaldra karlmaður, var var svo upptekinn í símanum að hann mátti ekkert vera að því að fylgjast með umferðinni heldur ók á 30 km hrað á vinstri akgrein.

Fólk þarf að vera helv... klárt til að getað sinnt aukavinnu í akstri. 


mbl.is Ökumenn að tala í símann undir smásjánni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk er orðið þreytt á Orkuveitunni

Því miður hefur kvarnast verulega úr ímynd Orkuveitu Reykjavíkur á undanförnum árum. Hvort tveggja  er um að kenna; slæmri yfirstjórn og slæmri stjórn fyrirtækisins.

Eftirfarandi hefur meðal annars orðið til að stórskemma orðspor Orkuveitu Reykjavíkur. 

  1. Umhverfisspjöll OR á Kolviðarhóli, Hellisheiði, Hellisskarði, Skarðsmýrarfjalli. Slæmt fyrir ímyndina.
  2. Musterisbygginin í Árbæ sem fór milljörðum fram úr kostnaðaráætlun. Slæmt fyrir ímyndina.
  3. Bruðl í risarækjueldi og fleira. Slæmt fyrir ímyndina.
  4. Of há gjaldskrá, hagnaður ítrekað notaður í að fegra stöðu borgasjóðs. Slæmt fyrir ímyndina.
  5. Þegar hlýtt var í veðri langtímum saman árið 2006 ákvað stjórn OR að hækka heita vatnið  til að mæta samdrætti í sölu, en lét engu að síður líða að lækka gjöldin þegar heitavatnsnotkunin jókst umtalsvert vegna frostakaflans 2008. Afar slæmt fyrir ímyndina.
  6. Stjórnendur OR sömdu af sér vegna REI en fundu smugu til að hagnast persónulega. Reyndu að fela þetta fyrir borgarfulltrúum. Slæmt fyrir ímyndina.

Þetta er bara lítið brot að þeim axarsköftum sem Orkuveitan hefur smíðað undanfarin ár og jafnvel áratug. Það er því heldur seint í rassin gripið hjá stjórn Starfsmannafélags Orkuveitunnar að rísa núna loksins upp á afturlappirnar og mótmæla. Hvar var Starfsmannafélagið þegar OR réðst með offorsi á Hellisheiði, hvað sagði hún þegar musterið mikla fór milljarði fram úr áætlun, hvaða álit hafði stjórnin á risarækjueldinu, hvenær hefur Starfsmannafélagið haft áhyggjur af okurgjaldskrá OR?

Ég held að Orkuveitan eigi eftir að ganga í gegnum mikla umbrotatíma á næstu misserum. Margt er í ólagi með rekstur og stefnu fyrirtæksins eftir óráðsstjórn undanfarins áratugs. Og óvissan verður áfram mikil. Fólk er einfaldlega orðið þreytt á þessu risafyrirtæki. Sökina má rekja til stjórnenda og stjórnar sem hafa komið sér vel fyrir og gleymt því að fyrirtækið er ekkert annað en þjónustufyrirtæki.

 


mbl.is Orkuveitan á ekki að vera bitbein stjórnmálamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttur hinna landlausu landsmanna

Það er stórt nafn „Landsamtök landeigenda á Íslandi“ ... Hver á Ísland? spurði maður nokkur og annar svaraði að bragði: Bændur, og svo bætti hann við landeigendur.

Auðvitað á maðurinn hér aðeins við beinan eignarétt. Frá örófi alda hefur stærð jarða miðast fyrst og fremst við þau hagnýtu not sem hafa mátti af þeim og þá eingöngu til búskapar. Utan heimajarða hafa menn á ítök í skógum til eldviðar eða kolagerða, stærri svæða sem afrétta, en um eignir var aldrei um að ræða því hver hefði viljað eiga stærri lönd en hann réði við að annast og hver hefði getað selt slík lönd. Varla hefur nokkur maður átt heiðarnar, fjöllin, miðhálendið og jöklanna svo eitthvað sé nefnt.

Getur einhver haldið því fram að eigandi einfaldrar bújarðar eigi hreinlega fjallið fyrir ofan bæinn? Fjall sem er ekkert annað en fljúgandi björg og skriður þar sem varla sést stingandi strá né nokkur maður eða skepna hafi farið um.

Það er án efa ekkert annað en forn lygisaga að jörðin Reykjahlíð sé svo landmikil að hún eigi land allt suður að þeirri mörkum þeirrar bújarðar er áður var nefnd Skaftafell en er nú hluti af samnefndum þjóðgarði?

Gerir einhver kröfu til að eiga Kverkfjöll að hluta eða öllu leyti? Hver á Ódáðahraun eða Dyngjufjöll? Með hvaða rétti getur einhver talist eigandi Kaldbaks við Eyjafjörð eða Kinnarfjöll eða Víkurfjöll? Hvað þá með Kiðagil, Trölladyngju, Gæsavötn eða Urðarháls? Allir þessir staðir verða þjóðlenda gangi kröfur fjármálaráðherra fram.
„Fólkið fyrir norðan er ekki það eina sem hefur þurft að berjast gegn þessum yfirgangi ríkisvaldsins," segir í leiðara Fréttablaðsins 15. nóvember 2006 um kröfur fjármálaráðherra um þjóðlendur á austanverðu Norðurlandi. Skilningur leiðarahöfundar virðist ekki rista djúpt. Hann heldur að þjóðlenda merki land í eigu ríkisins en það er nú öðru nær.

Svo fremi sem meintir landeigendur kvarta þá virðist vera réttlætanlegt að taka undir kvein þeirra. Staðreyndin er hins vegar sú að liggi ekki skýr og lögmæt gögn um landamerki þá má draga stærð jarðar í efa. Svo einfalt er málið.

Menn hafa frá upphafi landnáms á Íslandi deilt um lönd og landamerki og það er ekki nýtt að landeigendur grípi til margvíslegra ráða til að „stækka" jarðir sínar. Ár, lækir og sprænur hafa breytt um farveg, jafnvel þornað upp. Jöklar hafa gengið fram og eyðilagt lönd og hundruðum ára síðar hörfað. Hver á nú það land sem áður var hulið jökli? Stækkar land aðliggjandi jarða við það eitt að jökullinn hörfar eða verður til eitthvert tómarúm?

Hvar er steinninn stóri sem áður markaði línu til austurs í fossinn og hvort á að miða við fossinn eða miðja ána en ekki þennan eða hinn bakkann? Jú, steinninn þekkist ekki lengur og fossinn og áin eru löngu horfin og til hvaða ráða má þá grípa ef upp sprettur deila?

Margir muna eftir röksemdum lögmanns Austur-Eyjafjallahrepps sem þá hét, er ráðist var með gjafsókn dómsmálaráðuneytisins að ferðafélaginu Útivist fyrir það eitt að endurbyggja ónýtan skála efst á Fimmvörðuhálsi, í 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Í málflutningi lögmannsins sem nú er umboðsmaður Alþingis var því haldið fram að skálinn stæði innan landamerkja tiltekinnar jarðar sem þó var eitt þúsund metrum neðar og í 18 km fjarlægð. Hvernig það gat gerst að jörð gæti átt „land" þar sem jökull hafði verið í hundruð ára fékkst aldrei útskýrt.

Landeigendur bera oft fyrir sig þinglýsingar á landamerkjum. Á móti má spyrja hversu góð og ábyggileg gögn þinglýsingar eru, sérstaklega þær sem eldri eru. Dæmi eru til að hér áður fyrr hafi verið þinglýst bréfum sem gamalt fólk hafði handskrifað um landamerki bújarða sinna, byggt á minni eða sögusögnum og yfirleitt óvottfest. Þannig gögn og fleiri af því tagi geta auðvitað ekki staðist og skiptir engu hversu gamlar þinglýsingarnar eru,

Menn hafa eðlilega leitað gagna í fornbréfasöfnum um landamerki en grunur leikur jafnvel á að þaðan hafi gögn verið numin á brott til þess eins að koma í veg fyrir að sönnunargögn finnist um deilumál.

Hugsanlega hefði fjármálaráðuneytið getað staðið öðru visi að kröfum sínum í þjóðlendumálunum, en það er fjarri öllu lagi, að ráðuneytið hefði átt að láta hagsmuni landeigenda ráða ferðinni. Það eru meiri hagsmunir í húfi en landeigenda, og því er sú krafa eðlileg, að landeigendur fari aðeins með það land, sem þeir geti fært sönnur á að þeir eigi, - á því byggist eignarétturinn. Það er ekki eignaréttur né heldur er það sanngjarnt að Alþingi samþykki viðbótarlandnám mörgum öldum eftir að landnámi lauk.

Ég tel það skipta miklu máli fyrir þjóðina að verkefni samkvæmt þjóðlendulögunum verði leyst og reynt verði sem kostur er að eyða allri óvissu um mörk eignarlanda. Nokkur árangur hefur náðst en þó vantar talsvert upp á að lögin taki á öllu því sem deilt er um. Breytingar á landnotkun hafa orðið gríðarlegar á undanförnum árum. Nám ýmiskonar er orðið mjög ábatasamt, virkjanir, ferðaþjónusta, vegalagning, uppgræðsla og fleira og fleira má upp telja. Í þessu sambandi man ég eftir óbilgjarnri kröfu meintra eigenda jarðarinnar Fells sem telja sig eiga Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul. Þeir gerðu einu sinni kröfu til þess að öllum myndatökum við Lónið væri hætt nema til kæmi greiðslur til þeirra!

Hver á Heimaklett í Vestmannaeyjum, Hamarinn í Vatnajökli eða Heljarkamb og Morinsheiði? Er til þinglýstur eigandi að Stapafelli undir Jökli, Sátu, Skyrtunnu og Kerlingunni í Kerlingarskarði. Hver á Tröllkallinn eða Böllinn við Ballarvað í Tungnaá? Og hver skyldi nú eiga Móskarðshnúka?

Þjóðlendulögin eru of mikilvæg til þess að þrýstihópur landeigenda megi fá nokkru ráðið um framgang þeirra.

Enn er óvissa um mörk eignarlanda á Íslandi ekki síður en árið 1998 þegar lög um þjóðlendur voru samþykkt af Alþingi. Vissulega hefur talsverðri óvissu verið eytt með því að úrskurðir hafa fengist um landamörk nokkuð víða.

Hins vegar skipir nú metu máli hver sé réttur okkar hinna, okkar landlausu landsmanna. Eigum við að láta hirða af okkur þau not sem landlausir hafa haft af Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar? Eigum við að sætta okkur við það að meintir landeigendur girði lönd sín rétt eins og gert er uppi á Hellisheiði þar sem girðing hefur verið reist yfir hia fornu þjóðleið.

Ég segi nei! 


mbl.is Fundað um þjóðlendumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég trúi Mogga, Belgingi og Einari ...

Faxaflói... en hins vegar er erfitt að líta framhjá spá Veðurstofunnar. Á hinum fallega vef vedur.is segir að veðrið á miðnætti verði bara nokkuð fínt, 11 m/s. Það er nú doldið meira en 20 til 28 m/s sem Mogginn er að hræða mann með.

Ekki er hægt annað en að verða sér út um annað áliti og því opnaði ég belging.is sem er afar góður og nákvæmur vefur. Honum ber nokkuð vel saman við frétt Moggans.

Einar vedurAllt er þegar þrennt er. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur er meðal þeirra fáu framsóknarmanna sem ég tek mark á og hann fullyrðir á bloggi sínu, http://esv.blog.is, að veðrið verði heldur slæmt um miðnætti.

Ég læt hér með sannfærast en eftir stendur þetta með vef Veðurstofu Íslands. Er umsjónarmaður vedur.is enn í kaffi eða veit hann meira en allir aðrir?

  


mbl.is Veðrið nær hámarki um miðnættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stendur hugsunin mín undir nafni?

Var að velta því fyrir mér hvenær uppreisn er uppreisn og hvort uppreisn sem tekst sé uppreisn eða bylting.

Einhvern tímann las ég eitthvað spaklegt um uppreisn en get ómögulega rifjað það upp. Þreytandi þegar biðtími vinnslu hugsana reynist lengri en þolinmæðin biðinnar. Væri heilinn tölva stæði henni til boða einhvers konar uppfærsla.

Frá því ég var lítill strákur hefur mér alltaf fundist gamlir menn og konur yfirskilvitlega gáfað og spakt. Hann Sigfinnur afi minn tautaði lífsspekina í bundnu máli og sagði svo jájá. Dóttir hans, hún Soffía, sem raunar var móðir mín kunni held ég allar vísur og ljóð sem ortar höfðu verið á íslenska tungu. „Þú kannt ekki þessa, Siggi minn,“ átti hún til að segja með röddu sem hljómaði þannig að ég hafði áreiðanlega valdi henni miklum vonbrigðum. Og mér fannst stórt gat verða í höfði mínu. Á efri árum hennar orti ég stundum vísur, þó meira af rembingi en andagift. „Þetta geturðu, strákur,“ sagði þá hún Soffía mamma mín og brosti svolítið óræðið en mér fannst dimma gatið í hausnum á mér dragast saman um örfá kílóbæt. Þá leið mér skár

Eftir að hún dó uppgötvaði ég að skáldskapargáfuna vantaði í hausinn á mér, en ég lét það ekki aftra mér heldur gerðist leirskáld og hef verið ansi afkastamikill sem slíkur. Aldrei get ég þó munað yrkingar mínar og mér skilst að það sé einkenni á leirskáldum. Ómar Ragnarsson, hinn eini og sanni er ekki höfuðskáld, hvorki af andagift né framsetningu. Engu að síður er hann skáld gott, góður vísnasmiður og getur þar að auki ort ljóð undir ýmsum bragarháttum. Hann man allt sem hann hefur ort. Einu sinni sat ég með honum kvöldstund á Blönduósi og hann dró þá upp ræsknislega kompu sem hann hafði stundum skrifað í vísur og ljóð og þá skemmti ég mér best er hann rifjaði upp kersknisvísur og brandaravísur undir ýmsum háttum, ferskeytlum, fimmskeytlum og öðrum heimatilbúnum vísnaháttum. Ómar er gott skáld en ég hallast að því að hann sé leir í stjórnmálum, en það eru víst flestir.

Einu sinni spurði ég hana Soffíu mömmu mína hvort hún hefði aldrei ort vísu eða ljóð. Ekki vildi hún fortaka fyrir það að einhvern tímann hefði hún dundað sér við þau slíkt. Svo sagði hún: „Það tíðkaðist aldrei í þá daga að konur væru að yrkja.“ Þetta var rétt hjá henni, en samt ortu margar konur í Dölunum en þær voru meðvitað eða ómeðvitað í uppreisn gegn tíðarandanum. Nú til dags yrkja eiginlega allir, konur og kallar eins og andinn blæs þeim í brjóst, sumir leira og aðrir hnoða eitthvað gáfulegt og svo yrkja sumir af skáldlegum innblæstri.

Ég er enn að bíða eftir þeirri stundu að ég verði svo gamall að allt spakt sem ég hef lesið dúkki upp í kollinum á mér og ég geti slegið um mig  og verið sagður vitur. Enn hefur það ekki gerst og þess vegna hef ég alltaf verið nauðbeygður til að reyna að hugsa gáfulega. Mér hefur tekist það afar vel, svo ég segi sjálfur frá, en skil þó ekkert því hvers vegna mér hefur aldrei verið hælt fyrir spaklega ummæli.

Þarf greinilega að endurskoða þetta líffæri, hugann og starfsemi hans. Getur verið að hugsun mín standi engan veginn undir nafni? ... nei, varla. Eða hvað ...?

Þetta minnir mig á þýskukunnáttu Þjóðverja. Finnst alltaf undarlegt hversu illa þeir skilja mig er ég mæli á þetta fornfræga og glæsilega tungumál þeirra. 

Ég hafði í lokin hugsað mér að skrásetja hér litla fallega vísu, en frekar reyndist hún illa ort, hrynjandin var röng, svo öll var hún hin versta sort og þess vegna hætti ég við allt saman. Hver veit nema þetta smelli allt saman hjá manni einn góðan veðurdag og þá rísi ég upp til hæða, hristi af mér leirinn svo eftir verði tekiið og taki að semja spakleg og gáfuleg ljóð eins og Einar Benediktsson sem mér finns doldið flottur. Fyrsta bindið á að heita Uppreisn leirskáldsins.

Þetta hugsaði ég í dag.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband