Lýður, ekki tjá þig í fjölmiðlum, það borgar sig ekki!
26.8.2009 | 21:18
Lýður Guðmundsson kom nokkuð vel út úr Kastljósviðtalinu. Hann er skýr, skilmerkilegur og ákveðinn. Því miður virðist hann ekki hafa góða ráðgjafa og það segi ég vegna þess að þegar upp er staðið nægja þessi hæfileikar ekki til að breyta áliti almennings á honum, Existu, Kaupþingi og ástæðum fyrir efnahagshruninu. Allt er fyrirfram tapað, sannleikurinn skiptir minnst máli.
Þetta verður aldrei nógu mikið brýnt fyrir svokölluðum útrásarvíkingum, auðmönnum, bankastjórum, bankaráðsmönnum eða fyrrum stjórnmálamönnum. Þeir eiga ekki að fara í viðtöl eða tjá sig á einn eða annan hátt á þessu stigi málsins.
Allt er eftir og þá er betra að hafa þagað. Enn er sérstakur saksóknari að störfum, rannsóknir embættis hans eiga eftir að breyta miklu. Þann 1. nóvember verður upplýst um niðurstöður rannsóknanefndar um ástæður efnahagshrunsins. Enn eiga skilanefndir bankanna eftir að ganga frá sínum málum. Fjármálaeftirlitið á eftir að senda fjölda mála til rannsóknar. Og svo framvegis
Síðast en ekki síst þá eiga tugþúsundir Íslendinga í miklum vandræðum vegna hrunsins. Atvinnuleysi herjar á þjóðina, skuldir heimilanna hafa hraðvaxið, laun eru kerfisbundið lækkuð, húsnæðismarkaðurinn er hruninn, bílamarkaðurinn er ekki til, fjöldi fólks á eftir að hrekjast úr landi. Við hlustum ekki, við leitum að blórabögglum og við sjáum þá í mönnum eins og Lýð, þó hann hafi fullkomlega rétt fyrir sér.
Væri ég blaðafulltrúi eða almannatengill Lýðs Guðmundssonar eða annarra manna af hans tagi þá myndi ég ráðleggja þeim að tjá sig ekki í fjölmiðlum. Af hverju? Vegna þess að það skiptir engu máli hvað þeir segja núna, allt annað verður uppi á teningnum eftir 1. nóvember, eftir áramót eða 1. september á næsta ári. Þá fyrst byrja menn að ganga í gegnum hreinsunareld rökræðna og réttlætingar og víst er að margir munu sitja eftir í þeim eldi.
Vissi ekki um lán til Al-Thani | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er mikið rétt, stundum er best að þegja og það hefði passað honum vegna þess sem undan er gengið. Ég held að þjóðin trúi engum lengur.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 26.8.2009 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.