Úrtöluraddir þeirra sem ekki þekkja jöklanna

Það væsir ekkert um þessa ferðamenn á Vatnajökli. Þeir eru að vísu á slæmum stað, hátt uppi og hvergi skjól fyrir hvassri norðaustanáttinni. Hópurinn er hins vegar afar vel búinn enda á vegum þrautreyndra ferðamanna Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Vandinn er sá að þeir þurfa að bíða eftir hjálp eða þreyja þorrann og bíða eftir betra veðri. Það fyrrnefnda er skynsamlegra.

Vandinn er hins vegar úrtöluraddirnar. Lið sem aldrei hefur tekist á við náttúru landsins en lætur sér sæma að geipa um málið eins og telur sig vera sérfræðinga. Þannig er Ómar Ragnarsson á bloggsíðu sinni, hnýtir eins og vanalega í ferðamenn og þykist allt vita betur en þeir um veður og veðurspár.

Með fréttaflutningi sínum af ferðum fólks um hálendi Íslands hefur þessi maður verið til hins mesta ógagns sem hugsast getur fyrir ferðalög á hálendinu.

Leiða má að því líkum að eftirá vísdómur mannsins hafi nærri því kostað mannslíf og það fleiri en eitt.

Fréttaflutningur hans hefur verið þannig í gegnum tíðina að fjöldi manns hefur það fyrir reglu að láta ekki vita af sér þegar þeir eiga í vanda á fjöllum. Í augum þeirra er það hin mesta niðurlægin sem hugsast getur að láta björgunarsveitir sækja sig. Þannig er Ómar búinn að baktala ferðamenn sem hafa lent í vanda á fjöllum.

Stórum hluta lífs míns hef ég hef ég „eytt“ meira eða minna í ferðalög á tveimur jafnfljótum, sumar og vetur. Af reynslu minni skil ég ekki þessa fullyrðingu á bloggsíðu Ómars „Ísland er eitthvert mesta rokrassgat heims meiri hluta ársins.

Þetta er bara bull manns sem hefur það eitt sem mottó, að sé ekki hægt að aka á einhvern stað er hann ekki þess verður að skoða.

Á öllum mínum ferðum hefur það sárasjaldan gerst að ég og félagar mínir höfum þurft að láta fyrir berast í tjöldum meðan veður gengur yfir. Ég get kannski talið upp þrjú eða fjögur skipti á þrjátíu árum. Í eitt skipti kölluðum við á aðstoð hjálparsveita og þá vantaði ekki að Ómar var kominn upp á dekk með vandlætingar sínar.

Fólk á að reyna sig við fjöllin. Með góðum undirbúningi og skynsamlegum ferðaháttum getur ekkert orðið fólki að fjörtjóni. 


mbl.is Vélsleðum snúið við á Vatnajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er skammarlegur málflutningur.

Aftur og aftur gerist það að ferðamenn hunsa veðurspár og leita svo á náðir björgunarsveita, hvort sem er á fjöllum eða vegum landsins. Með slíku skeytingarleysi stofna viðkomandi sjálfboðaliðum og samborgurum sínum í hættu. Það er ekkert sjálfsagt að björgunarsveitir leggi sig í hættu við slíkar aðgerðir, en óbilgirni og dugnaður þess fólks sem leggur vinnu og líf sitt undir er í raun einstakur.

Vont veður getur hins vegar skollið á á jöklum þrátt fyrir góða spá, þá verða þeir sem á ferð eru að vera svo vel búnir að skjól og vistir endist í nokkra daga umfram fyrirhugaðan ferðatíma. Ekkert er að því að leita skjóls í tjaldi eða snjóhúsi ef illviðri skellur á, en til þess þurfa ferðamenn að vera viðbúnir hinu versta. 

Fullyrðing þín "Með góðum undirbúningi og skynsamlegum ferðaháttum getur ekkert orðið fólki að fjörtjóni" er barnaleg. Þaulvanir fjallamenn með besta búnað og vandaða ferðaáætlun hafa tínt lífi sínu þegar náttúruöflin tefla fram óvæntum leikjum. Eftir því sem djarfar er teflt aukast líkur á tapi.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 01:42

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Ætlaði nú að fara að skrifa færslu hér, en sé að vinur minn Jóhann er búinn að dissa þig soldið.   Minn tilgangur var auk þess að taka undir "eitt" sem þú segir Sigurður en setja spurningarmerki við annað. (alltaf jákvæð )

Tek undir: 

1) Auðvitað er skynsemi, góður undirbúningur, þekking og reynsla  grunnskilyrði til jöklaferða. 

2)  Fólk á að reyna sig við fjöllin.

Það er  óþolandi að í kjölfar arfaslæmrar veðurspár, skuli fólk ana út, á jökulbreiðuna, í stað þess að sitja í kósí skála á Grímsfjalli með Valdabotnagufu og huggulegheit.  Fullkomið ábyrgðarleysi, og auðvitað eiga hjálparsveitir að rukka viðkomandi tryggingafélög þessa fólks, ef að forsendur eru fyrir hendi.

Set spurningarmerki við:

"Leiða má að því líkum að eftirá vísdómur mannsins hafi nærri því kostað mannslíf og það fleiri en eitt."

Vona að þú skýrir þetta nánar, annars fer þetta bara í "dylgjupokann". 

Það skiptir ekki máli hvort ást á jöklum er fullnaegt á fjórhjóli, sleða, jeppa eða tveimur jafnfljótum.  Það er hrokafullt að halda öðru fram.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.5.2009 kl. 03:51

3 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Ég get ekki á mér setið og tek heilshugar undir það sem Jóhann segir. Mér finnst svona málflutningur bæði sýna ákveðinn hroka og  ábyrgðarleysi. Minnir í mörgu á viðhorf ungs fólks sem keyrir of hratt af því að það trúir ekki að neitt geti komið fyrir það.

Og hvað varðar ummæli þín um Ómar Ragnarsson þá finnst mér þau jaðra við meiðyrði þar sem þú lætur að því liggja að hann hafi því sem næst orðið til þess að menn misstu lífið. Þvílíkur málflutningur!!!

Mér finnst svona besservisserar eins og þú greinilega ert mega aðeins stilla sig.

Guðrún Olga Clausen, 9.5.2009 kl. 08:25

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Mér finnst að fólk ætti nú að draga andann og skilja það sem um er rætt.

Því hefur verið komið inn hjá almenningi að það sé skammarlegt að njóta aðstoðar björgunarsveitar. Eitthvað hljóti að vera áfátt við ferðamennsku þeirra, undirbúning eða útbúnað þeirra sem stranda á fjöllum. Það getur svo sem verið í einhverjum tilfellum, en í heildina er þetta rangt. Flestir þeirra sem fara á fjöll standa sig vel þrátt fyrir að þeir NJÓTI aðstoðar björgunarsveita.

Svo er nauðsynlegt að það komi skýrt fram að björgunarsveitir landsins hvetja ferðamenn til að kalla á aðstoð, dragi það ekki.

Hins vegar geta ófyrirséð vandamál komið upp í öllum ferðum. Þá er ágætt að geta kallað á björgunarsveit, rétt eins og sjómenn eiga þess kost að fá aðstoð eða þeir sem lenda í óhöppum á vegum. Eðlismunurinn er í raun enginn.

Hvernig ætli sjómönnum myndi líða ef fréttaflutningur af aðstoð við þá væri þannig að þeim væri undantekningalaust kennt um aðstæður og tilgangur þeirra á sjó fyrirfram dregin í efa?

Þannig hefur þetta verið í gegnum árinu með þá sem björgunarsveitir hafa aðstoðað. Fréttaflutningurinn hefur verið svo makalaus að margir veigra sér við því að kalla á aðstoð og dæmi eru um að frestun á slíku hafi getað valdið bæði ferðamönnunum og björgunarsveitunum stórkostlegri hættu. Man í því sambandi eftir björgunaraðgerðum í Öræfajökli fyrir nokkrum árum þegar björgunarmenn voru í hættu vegna vaxandi líkum á snjóflóðum eftir því sem veðrið breyttist.

Margir kalla hreinlega ekki á aðstoð og reyna með miklum erfiðleikum að bjarga sér sjálfir vegna þess að þeir vilja ekki lenda í klóm þeirra þessara sjálfskipuðu sérfræðinga sem telja sig vita allt mun betur og skrifa um það „fréttir“.

Fólk sem vanara er sófanum heima getur aldrei sett sig í spor fjallamanna og telur umsvifalaust að þeir séu að ana út í óvissu. Þannig er það sjaldnast og þó aðstæður geti verið hættulegar séðar frá sófanum heima þá er það sjaldnast svo.

Upphrópanir þremenninganna hér að ofan eru gjörsamlega út í hött. Hér er ekki um skammarlegan málflutning að ræða, dylgjur eða orð besserwissers. Orð mín eiga við það sem gerst hefur og orsakað mikið vandamál sem er einfaldlega þetta:

Margir kalla ekki á björgunarsveitir í neyð vegna ósæmilegs fréttaflutnings og í honum átti Ómar Ragnarsson stóran þátt.

Hef skrifað nóg um þetta áður og bendi til nánari skýringar á eftirfarandi grein sem ég vona að þremenniningarnir hér að ofan lesi og haldi áfram værukærum hneykslunarskrifum sínum:

http://web.mac.com/sigurdursig/sigurdursig/Reynslusögur/Entries/2007/12/31_Þegar_ég_kem_dauður_heim.html

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.5.2009 kl. 09:37

5 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Áfram heldur sá sem best veit.

Þetta með sófasetuna eru fullyrðingar sem eru án þinnar vitneskju um stöðu mína eða áhugamál t.d.

Það vita allir sem fylgjast með fréttum að of oft leggja menn upp í ferðir sem snúast upp í hættuspil. Um það eru ótal dæmi þó ég geri mér grein fyrir að flestir komast klakklaust á leiðarenda.

Ég þekki persónulega nokkurra ára gamalt dæmi um "þaulvanan" leiðsögumann sem kaus að fara á jökul með hóp manna þrátt fyrir að veðurspá hinnar íslensku veðurstofu væri á þá leið að maðurinn hefði átt að fresta ferð. Hann nýtti sér upplýsingar af netinu frá erlendri veðurstofu sem ekki er alltaf talin trúverðug. Þessi maður (nefni engin nöfn) var búinn að fara með marga hópa í mörg ár á jökul. Eftir þessa fyrrnefndu ferð sem næstum kostaði hóp manns lífið hætti þessi ágæti maður og sneri sér að öðru.

Það er út í loftið að kenna þeim um sem vara fólk við að fara í svona ferðir nema vera með aðstæður og veðurspá á hreinu. Og mér finnst persónulega að orð þín um Ómar séu á mörkunum og  læðist að mér sá grunur  að um geti verið að ræða mismunandi pólitíska afstöðu til umhverfismála, kannski vegna stóriðju/virkjanamála???? Þessar hugleiðingar mínar eru bara svona settar fram í ljósi þess hversu örugglega þú vilt að vitum pólitíska afstöðu þína. Tek fram að  þetta er ekki sagt með dónaskap í huga heldur aðeins vangaveltur um mismunandi skoðanir manna.

Guðrún Olga Clausen, 9.5.2009 kl. 10:32

6 identicon

Sigurður.

Skil svo sem hvert þú ert að fara með þessu bloggi, - fjölmiðlar nýta sér neyð fólks til að búa til neikvæðar fréttir, það eru jú þær sem seljast best!

Ég þarf hins vegar ekkert að setja mig í spor fjallamanna, hef stundað ferðir um fjöll og jökla í yfir 30 ár. Lýsing þín á einhverri skömm sem almenningur telji fylgja útkalli björgunarsveitar er að mínu mati röng. Allir þeir sem gera ábyrga ferðaáætlun tilkynna um ferðir sínar og treysta á björgunaraðila ef eitthvað bregður útaf. Þetta á við jafnt um fjallamenn, flugmenn sem sjómenn.

Það sem Ómar og fleiri eru að reyna að benda á er að ákafi manna til að njóta útiveru og náttúru má ekki verða varkárni og skynsemi yfirsterkari. Endurtekin tilvik þar sem veðurspá er hunsuð eru sannarlega gagnrýnisverð. Skipulögð ferð á ákveðnum degi, henni er betur hætt ef veður stefnir í óefni, hvort sem um er að ræða sófahóp eða fjallamenn á leiðsögulaunum.

Það hefur engan tilgang að skjóta boðberann, betra er að læra af eigin mistökum og annarra.   

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 10:54

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Guðrún: Það sem þú ert að nefna um pólitísk hitamál er „án þinnar vitneskju um stöðu mína eða áhugamál“ svo ég grípi til þinna eigin orða.

„Læðist að mér grunur ...“ Þetta innlegg þitt er þér alls ekki til sóma.

Ég skil ekkert í þér Jóhann. Þú prédikar um hluti sem ég hef ekkert rætt um og er fjarri því ósammála. Hins vegar hef ég nóga gagnrýni á Ómar Ragnarson. Hann var ekki boðberi heldur gagnrýnandi. Á því tvennu er mikill munur. Og hann er ekki hættur þó kominn sé úr fréttamennskunni. Staðreyndin er bara sú að Ómar gerði lítið úr ferðalöngum sem heimtir voru úr helju með aðstoð björgunarsveita, ósjaldan hélt hann því fram að ferðamenn hefði staðið illa að ferðaskipulagi sínu og ekki síst valdið björgunarsveitum fjárhagslegum skaða.

Ómar hefur oft lent í óhöppum á sínum ferli. Einu sinni lenti hann á Esjunni og skemmdi flugvélina sína. Landhelgisgæslan þurfti að flytja hana niður. Ekki flögraði að nokkrum manni að atyrða Ómar. Hann slapp lifandi og vélinni var bjargað, það var ánægjulegur endir.

Bátur fær net í skrúfuna. Enginn heldur því fram að áhöfnin hafi gert eitthvað rangt. Kannski var þetta óhapp - ef til vill handvöm. Enginn atyrðir sjómennina, telja bara gott að þeir hafi notið aðstoðar björgunarsveitar eða Landhelgisgæslu.

Ferðamönnum á Vatnajökli var bjargað niður í nótt. Má vera að hann hafi gert allt rétt, þó er hugsanlegt að þeir hafi misreiknað verðið eða jafnvel látið undir höfuð leggjast að kanna veðurspánna.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Ómar er ekki boðberi, hann er sjálfskipaður gagnrýnandi og hefur ekki alltaf rétt fyrir sér. Ég veit ekki til þess að maðurinn hafi komið neinu góðu til leiðar í öryggismálum í ferðalögum hér á landi hins vegar hefur hann valdið því að margir vilja ekki nýta sér aðstoð björgunarsveitar.

Þú getur ekki neitað þessu, Jóhann einfaldlega vegna þess að þér er greinilega ekki kunnugt um þetta.

Fyrir mörgum árum hitti ég Ómar á Hornafirði og við ræddum þessi mál þegar ég ók með hann upp á Skálafellsjökul til að skoða íshelli.

Þessi umræða kom honum greinilega mikið á óvart. Ég rakti dæmi. Hann mundi eðilega ekki eftir öllum aðstæðum en hafði ekki heyrt af því að fólk veigraði sér við því að kalla á aðstpð björgunarsveita vegna fréttaflutnings. Það fannst honum „leitt“.

Síðan hef ég hitt Ómar. Hann er vandaður maður, frábær baráttumaður fyrir náttúru landsins og ég virði hann sem slíkan. Hann hefur þó gert alvarleg mistök og það er efni þessa bloggs að sá fréttaflutningur sem Ómar stóð fyrir, meira en aðrir, hefur valdið vandamálum.

Það að „búa til fréttir“ er vitleysa, hlutverk fjölmiðla er að flytja fréttir, upplýsa.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.5.2009 kl. 13:03

8 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Veist þú hvað Ómar var að gera þegar hann brotlenti á Esjunni?? Hvers vegna hann var á ferðinni??? Ég veit það.

Guðrún Olga Clausen, 9.5.2009 kl. 21:27

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Fyrir alla muni hættu, Guðrún Olga Clausen.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.5.2009 kl. 21:55

10 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Takk fyrir skoðanaskiptin og "spjallið".

Guðrún Olga Clausen, 10.5.2009 kl. 07:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband