Af hverju ekki tvö Laugavegshlaup?

Alveg stórundarlegt að skipuleggjendur Laugavegsmaraþons kunni ekki bregðast við svona mikilli þátttöku með því að fjölga hlaupunum.

Af þeirri einföldu ástæðu að ég fylgist grant með fréttum þá rakst ég á tilkynningu um að opnað hefði verið fyrir skráningu á Laugaveginn og mér tókst að skrá mig. Aðrir voru ekki eins heppnir.

Furðulegt að menn þurfi að vera heppnir til að geta skráð sig í maraþon. Skipuleggjendur hafa ekki fyrir því að tilkynna þeim sem tóku þátt í fyrra um að skráning hafi verið opnuð. Hafa þeir þó öll tækifæri til þess, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og netfang.

Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að bæta við eins og einu hlaupi? Það getur varla verið mikið mál. Þátttakendur greiða 19.900 krónur fyrir að fá að vera með. Tekjurnar af einu hlaupi eru því nærri átta milljónir króna.

Setjum sem svo að skipuleggjendur Maraþonsins telji þetta hlaup of erfitt og nenni ekki að standa í því. Af hverju eru þá Útivist eða Ferðafélagið ekki beðin um að sjá um það, sem verktakar eða eiginlegir skipuleggjendur. Ég þekki nægilega til í þessum félögum að ég geti fullyrt að þau geti tekið þetta að sér. Félögin hafa yfir þúsundum reyndra ferðamenna að ráða og geta reitt fram hundruð sjálfboðaliða auk þess að eiga björgunarsveitirnar að. Þetta gæti kannski komið í veg fyrir meinlegar villur í leiðarlýsingum sem manni eru afhentar fyrir hlaup og eru vönum ferðamönnum á þessum slóðum aðhlátursefni.

Með tveimur hlaupum væri án efa hægt að fullnægja eftirspurn. Því til viðbótar má skipuleggja hlaupin þannig að þau fari eftir getu. Í fyrra hlaupi hlaupi til dæmis sá helmingur sem ætlar sér að hlaupa undir 6,5 klst en í því síðara verðum við sem erum slappari, jafnvel þau okkar sem þurfa nærri því dagatal til tímatöku.

Væri nú þannig hlaup ekki skemmtilegri heldur en þar sem starfsmenn eru taugastrektir og komnir á þá skoðun að þeir séu að gera hlaupurunum greiða með því að standa í þessum ósköpum ...

Af þessu má nú skila að ég er ekkert sérstaklega hrifinn af skipuleggjendum þó svo að ég hafi hlaupið tvisvar. Hef ótal dæmi um óliðlegheit og vitleysur sem félög eins og Útivist og Ferðafélag Íslands myndu aldrei láta henda sig.

En batnandi fólki er best að lifa. Það má þó hrósa skipuleggjendum Maraþonsins fyrir að láta það yfir sig ganga að samþykkja 400 þátttakendur, sem er met. Óskaplega sem maður er þeim þakklátur fyrir ómakið - og fá að borga 19.900 krónur.


mbl.is 400 hlaupa Laugaveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Ég get ekki að því gert, Sigurður, en mér finnst tónninn í þessari færslu frekar neikvæður.

1. Fyrst Útivist eða Ferðafélagið eru svona vel í stakk búin til að halda hlaup á Laugaveginum, af hverju gera þau það ekki??

2. Þátttökugjöld eru alls tæpar 8 milljónir. Heldurðu að þetta séu hreinar tekjur? Enginn kostnaður??

3. Ég hef ekki rekist á svo miklar villur í leiðarlýsingum að það hafi háð mér í hlaupinu. Svona fullyrðingar krefjast dæma og rökstuðnings.

4. Ótal dæmi um óliðlegheit og vitleysur krefjast einnig frekari skýringa. Annars eru þetta hreinar dylgjur.

5.Mig furðar einna mest á því eftir þennan lestur að þú skulir yfirhöfuð vera skráður í hlaupið.

Hlauparakveðjur

Gísli

Gísli Ásgeirsson, 4.2.2009 kl. 09:09

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Að sjálfsögðu er ég neikvæður gagnvart skipuleggjendum. Ég hef mínar ástæður fyrir því, lestu bara pistilinn betur því þú kommenterar ekkert á aðalatriðin. Bullar bara eins og ég sé einhver málsvari ferðafélaga þó ég hafi stungið upp á samstarfi við þau, raunar að þeim forspurðum. Annar liðurinn er ekki svaraverður. Sá þriðji bendir bara til þess að þú sért frekar ókunnur á Laugaveginum en hitt er þó staðreynd að menn hlaupa ekki með leiðarlýsinguna í höndunum. Meintar dylgjur mínar eiga við bæði hlaupin sem ég hef tekið þátt.

Af hverju skyldi þér þyka furðulegt að ég skuli vilja taka þátt í hlaupinu þó svo að ég beri ekki neina elsku til skipuleggjenda eins og þú sem grípur umsvifalaust til varna?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.2.2009 kl. 09:47

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Annars er það skemmtileg tilviljun að ég sem les nú ekki mörg blogg daglega skuli hafa sett Gísla Ásgeirsson á þann lista sem ég les hvenær sem RSS veitan lætur mig vita. Mæli því mjög með bloggi Gísla, málbeinid.com. Hann orti til dæmis um Halldór Ásgrímsson sem sýndi batamerki á sjúkrahúsi:

Andar sjálfur enn á ný

aukin von um borgun

heyrðist meira en hrygla í

Halldóri í morgun.

Ekki fallega sagt en ég hló rosalega og skammaðist mín svo ...

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.2.2009 kl. 10:00

4 Smámynd: Vigdís

Ég hefði haldið að það væri kannski verið að reyna að halda umhverfisspjöllum í lágmarki.

Fyrir nokkrum árum gekk ég Laugaveginn nokkrum dögum eftir Laugavegshlaupið og sáust ummerki um það mjög vel.

Vigdís, 4.2.2009 kl. 10:16

5 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Svona, svona, Sigurður. Við skulum anda með nefinu. Mér fannst vanta dæmin í færsluna og auglýsi enn eftir þeim. Ég held að aðalatriðin hafi ekki farið fram hjá mér.

Ég veit að þú ert hundkunnugur á þessum slóðum.  Rétt er að halda því til haga að ég hef lokið 8 Laugavegshlaupum, orðið að hætta einu sinni og gengið leiðina þar fyrir utan mér til skemmtunar. Aðspurt segir fólk sem hleypur í fyrsta sinn að ekki sé erfitt að rata og raunar man ég aðeins eftir einu dæmi um villur vega en það var árið sem þokan var yfir Hrafntinnuskeri.

Ég hef gagnrýnt skipuleggjendur Laugavegshlaupsins harðlega á þessum rúmu tíu árum sem liðin eru frá fyrsta hlaupinu. Mistök hafa oft verið slæm en það sem upp úr hefur staðið undanfarin ár er einlægur vilji starfsmanna til að gera betur og þjóna hlaupurum. Þess vegna var fjölgað um 100 í fyrra og 150 í viðbót í ár. 400 keppendur hefðu þótt óhugsandi fyrir 3 árum.

 Ég efast um að vilji sé meðal hlaupara að skipta í tvo hópa. 

Þakka þér svo fyrir að tilfæra dæmi um mitt skítlega eðli og litla hrifningu á framasóknarmönnum. Slóðin á síðuna er ekki malbeinid.com, heldur malbein.net. Þar má finna margt álíka kvikindislegt.

 Gangi þér annars vel í hlaupinu í sumar. Þetta verður stemmning. 

Gísli Ásgeirsson, 4.2.2009 kl. 10:28

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, það er rétt að anda með nefinu og lesa yfir það sem maður skrifar áður en maður sendir það. Gerði það ekki í þetta sinn og bið þá afsökunar sem ég hef sært.

Hins vegar líkar mér miklu betur við þig og þitt „skítlega“ eðli eftir að ég fattaði að þú ert þessi hagmælti Gísli.

Hins vegar er ég ekki sammála þér varðandi tvo hópa. Við þessir seinlegu værum örugglega til í að hlaupa í sér hlaupi. Nauðsyn brýtur lög er sagt. Ég skil hreinlega ekki hvers vegna það er ekki hægt að bjóða upp á tvö hlaup og mæta þannig aukinni eftirspurn. Hlaupið er fyrir hlaupara, munum það. Ég myndi líklega vilja taka þátt í að búa til annað hlaup ef yfirlýsing kæmi frá Reykjavíkurmaraþoni um að þeir nenni ekki að standa í þessu.

Vigdís, þakka þér fyrir innleggið.

Ástandið á gönguleiðinni þá er það ekki aðeins hlaupurum að kenna. Gönguleiðin hefur látið mikið á sjá á undanförnum tíu árum. Það er eðlilegt því öll umferð slítur. Fleiri gönguleiðir hafa látið á sjá. Sjáðu bara gönguleiðina upp á Þverfellshorn á Esju, yfir Fimmvörðuháls og fleiri og fleiri staði. Svo segja sumir, td. Ómar Ragnarsson að það sé einhver lausn fyrir þjóðina að fá milljónir ferðamanna hingað til lands!

Svo er það hitt, hver á að halda við gönguleiðum, bæta og laga. er það eiginlega hægt?

Ég hef skrifað svolítið um þetta á heimasíðunni minni vegna þess að ég sé ekki hvernig við komumst hjá öðru en að eyðileggja landið með fjölgum ferðamanna. Það virðist til dæmis enginn áhugi vera fyrir því að byggja upp gönguleiðir til að lágmarka skaðann. Hver á til dæmis að borga fyrir slíkt? Hver á að framkvæmda? En þetta er nú allt annað mál og flóknara en að skipuleggja eitt Laugavegshlaup.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.2.2009 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband