Þegar ferðamönnum fjölgar er sparað í landkynningu
29.1.2009 | 15:29
Fjölgun ferðamanna er árangur ágætrar vinnu fjölmargra aðila, Icelandair, Ferðamálastofu og fleiri. Nú bregður svo við að þegar svona fréttir berast þá hefur Ferðamálastofa ákveðið að leggja niður skrifstofur sínar í Kaupmannahöfn og Frankfurt.
Auðvitað þarf að spara núna á þessum síðustu og verstu ...
Einhvern tímann var það haft eftir hinu stóra Kókakóla að þegar vel gengi væri mikilvægt að auglýsa en þegar illa gengi væri hins vegar brýnt að auglýsa. Kannski er þetta skýringin á velgengni fyrirtækisins.
Þetta flaug svona í gegnum hugann þegar ég las fréttina um hálfa milljón útlenda ferðamenn hér á landi. Ég man eftir því þegar ég gaf út tímaritið Áfangar fyrir margt löngu - líklega rúmum tuttugu árum, að ég skrifaði um fjölda útlenda ferðamenn á Íslandi. Ég taldi ólíklegt að fjöldi þeirra yrði meiri en eitt hundrað þúsund. Tíminn hefur leitt í ljós að ég hafði rangt fyrir mér.
Fjölgun útlendra ferðamanna er verðmætasköpun. Hugsanlega getur þeim nú fækkað vegna hallæris af völdum misvirtra embættismanna. Út frá markaðslegum forsendum getur verið afar seinlegt að ná aftur upp dampi þegar viðskiptavinum fækkar á annað borð. Ég er ansi hræddur um að ferðamálastjóri og ráðherra ferðamála þurfi að endurskoða þennan sparnað nema því aðeins að þeir hafi einhver spil uppi í erminni sem við almenningur vitum ekki um.
Yfir hálf milljón útlendinga til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Held að málið sé ekki að um sparnað sé að ræða heldur tilfærslu fjármuna. Vona það alla veganna
Sú þróun hefur átt sér stað að nú koma um 80% hingað á eigin vegum og verða sér út um upplýsingar gegnum net og bæklinga.
Norðurlandabúar hafa um skeið staðið í stað og spurning hvort ekki sé hægt að ná til þeirra með öðrum ráðum en með skrifstofu.
Hreyfanleiki getur verið gott markaðsafl og fjölgun ferða á kaupstefnur til kynninga geta skilað meiri árangri en staðbundin skrifstofa.
Þá eru vegir netheima órannsakanlegir en ná má ágætis árangri þar líka.
Kristján Logason, 29.1.2009 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.