Hræddir ráðherra, forystulaus flokkur
22.1.2009 | 10:56
Kratar hafa aldrei kært sig kollótta um formenn sína. Varla er að vegna þess að undirferli sé svo algengt meðal þeirra. Hins vegar vitnar sagan um hrikalega meðferð á formönnum jafnaðarmanna. Nefna má Benedikt Gröndal, Kjartan Jóhannsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Öllum var kastað löngu fyrir síðasta söludag.
Og núna, meðan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er fjarverandi vegna veikinda, finnst jafnaðarmönnum í Reykjavík það sæma kippa undan henni fótunum og krefjast stjórnarslita.
Stjórnleysið innan Samfylkingarinnar er ótrúlegt og þá ekki síður stjórnarandstaðan innan flokksins sem nær allt til varaformannsins sem með sanni getur hrósað sigri og telur það nú líklega fullhefnt að hafa ekki fengið ráðherraembættið í upphafi sem hann þó krafðist.
Að ráðum almannatengslaráðgjafa síns heldur Össur Skarphéðinsson sér til hlés. Það er eflaust hið besta ráð sem hann hefur nokkurn tímann fengið persónulega en sé litið á það frá öðru sjónarmiði þá virðist sem Össur annað hvort þori ekki að tjá sig eða geti það ekki. Ættu þessir sömu atburðir sér stað í örðum flokkum myndi hann ekki hika við að tjá sig í ræðu og riti.
Raunar þegja allir ráðherrar Samfylkingarinnar þunnu hljóði eða ætti maður að segja að þögn þeirra sé ærandi. Þeir skipta sér hreinlega ekki af atburðarásinni. Það minnir óneitanlega á kratana í Hafnarfirði þegar þeir þorðu ekki að taka afstöðu til stækkunar álversins í Straumsvík. Kannski er forysta Samfylkingarinnar ákvarðanafælin í eðli sínu.
Meðan landið logar í mótmælum heyrist ekkert í ráðherrum Samfylkingarinnar. Þeir þora ekki að taka afstöðu, eru hræddir við mótmælin og bíða þess sem verða vill undir borðum sínum í ráðuneytunum.
Ekki er furða þó æ fleiri Sjálfstæðismenn telji það betri kost að efna til kosninga heldur en að eiga í samstarfi við svona flokk.
Samþykktu ályktun um stjórnarslit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.