Á þetta fólk að ritskoða efni fjölmiðla?
14.1.2009 | 09:25
Mótmælendur telja sig þess umkomna að geta stöðvað starfsemi fjölmiðils að því að hann er að senda út sjónvarpsþátt sem þeir telja froðukenndan skemmtiþátt.
Já góðan daginn. Forræðishyggja þessa fólks er slík að það telur í lagi að koma í veg fyrir útsendingu vegna þess að ég og aðrir áhorfendur hafi einfaldlega ekkert gagn af þættinum.
Bestu þakkir fyrir hugulsemina. Hins vegar er ég í miklu betra standi til að velja mér sjónvarpsefni en þetta fólk og ég frábið mér alla forsjá í þessum efnum. Að mínu mati á þetta fólk ekkert með að ritskoða efni fjölmiðla?
Svo er það hinn alvarlegi hluti mótmælanna, undirtónninn, sem æ betur er að koma í ljós. Mótmælendur eru ekki endilega að mæla gegn meintri spillingu, skorti á lýðræði og kröfu um meiri upplýsingu. Þeir eru með áróðri sínum að þröngva eigin pólitík upp á landsmenn. Við eigum að trúa því að hér séu á ferð heiðarlegir krossfarar en þess í stað er um að ræða lið sem vinnu gegn lýðræðinu og vill stjórna skoðanamyndun almennings.
Svo slæmt sem bankahrunið og alþjóðleg efnahagskreppa er fyrir þjóðina þá er enn verra þegar upp úr skúmaskotum birtist fólk sem í verki stundar skoðanakúgun og þessir örfáu einstaklingar nýta sér bylgju almennra mótmæl en verða svo beint og óbeint til að draga úr slagkrafti þeirra með öfgum sínum.
Bjóðast til að greiða skaða Stöðvar 2 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Svona ástand eins og núna er virðist vera gróðastía fyrir aðila sem almennt liggja undir steini með sín öfgaviðhorf. Núna vaka skyndilega upp einhverjar gamlar sellur sem telja það heilaga skyldu sína að stýra umræðunni og beina athyglinni að sýnum hugðarefnum með góðu eða illu.
Stormskerið summerar þetta vel á blogginu sínu...
LM, 14.1.2009 kl. 10:03
Það eru prinsippin (eða málefnin) frekar en persónurnar sem menn þurfa að einblína á. Svo áhrifamikil sem þau Geir Haarde, Ingibjörg Sólrún og Davíð Oddson eru, þá eru það ekki þau persónulega, heldur tilteknar vondar kringumstæður eða ástand sem við er að eiga. Verði mótmælendum að ósk sinni og ofangreindir aðildar "dregnir út á hárinu" mun því fylgja stundarfróun, en hið slæma ástanda vara.
(Það er svo umhugsunarefni að maður veit miklu meira um orðræðu og skoðanir hinna háværustu mótmælenda en fyrirætlanir stjórnvalda!)
Flosi Kristjánsson, 14.1.2009 kl. 10:30
Ég var sáttur við mótmælin fyrir utan Borgina en er sammála því að það hafi ekki verið neitt gott takmark í sjálfu sér að slíta útsendingunni. Það var afar afhjúpandi að sjá hina meintu leiðtoga þjóðarinnar sitja og reyna að sannfæra sjálfa sig um að ekkert hefði breytst. Enn væri eðlilegt að sitja að snæðingi á flottum veitingarstað í boði Baugs og Rio Tinto. Að valdamenn hér á landi skulu ennþá ekki vera vandari að virðingu sinni er sorglegt, en engu að síður sorgleg staðreynd sem þjóðin átti að fá að sjá.
Héðinn Björnsson, 14.1.2009 kl. 11:37
Sigurður - þú talsmaður hins frjálsa markaðar - veist jafnvel og við hin að við einfaldlega hættum að versla við fyrirtækið og við getum líka hætt að versla við þau fyrirtæki sem auglýsa hjá þeim aðilum sem því miður fara með ósannindi.
Svo einfalt er það - Hinn margrómaði markaður ræður þar för.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 14.1.2009 kl. 15:26
Rétt hjá þér Alma upp að vissu marki. Ef mér líkar ekki efnisval á Stöð2 þá segi ég einfaldlega áskriftinni upp. Við það þarf ég enga hjálp. Ég vil bara fá að njóta þess sem sjónvarpsstöðin býður upp á án afskipta annarra.
Hins vegar er mér ómögulegt að segja upp áskriftinni að RÚV, henni þröngvað upp á mig, áður með skylduáskrift og nú með sköttum.
Þú mátt kenna þetta við frjálshyggu eða hvað sem er en mér er illa við þvinganir. Á ég til dæmis að sætta mig við það að sú þjónusta sem ég hafði þegar keypt sé rýrð af einhverju fólki út í bæ?
Værir þú sátt við að hafa keypt mjólk og svo kæmi einhver askvaðandi og tæki hana af þér með þeim skýringum að mjólk væri þér óholl?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.1.2009 kl. 15:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.