Til minningar um yndislegt fólk
23.12.2008 | 02:11
Þessu ber að fagna. Hér er um að ræða göfugt verkefni sem gefandanum er til mikils sóma og mun án efa halda á lofti nöfnum þeirra ágætu hjóna Björgu Magnúsdóttur og Magnúsar Jónassonar sem jafnan hafa verið kenndi við bæinn Túngarð í Dölum.
Dætur Magnúsar Friðrikssonar og Soffíu Gestsdóttur á Staðarfelli á Fellsströnd í Dölum, hétu Björg, sem áður er getið, og Þuríður, sem var amma mín í móðurætt.
Bróðir þeirra var Gestur. Hann drukknaði 2. október 1920 er bátur sem hann var á hvolfdi og fórust með honum Þorleifur Guðmundsson, vinnumaður á Staðarfelli og vinnukona sem hét Sigríður en því miður man ég ekki föðurnafn hennar.
Þetta hræðilega slys gekk afar nærri þeim hjónum. Þau hættu búskap og fluttu til Stykkishólms. Jörðina gáfu þau til ríkisins með því fororði að þar væri stofnaður og rekinn húsmæðraskóli. Það var gert en tímar hafa breyst og nú er á Staðarfelli rekin meðferðarstofnun á vegum SÁÁ.
Dætur þeirra Magnús og Soffíu giftust snemma. Þuríður amma mín giftist Sigfinni Sigtryggsyni frá Sólheimum og áttu þau eitt barn, Soffíu sem síðar giftist Sigurði Skúlasyni.
Björg giftist Magnúsi Jónassyni frá Túngarði. Þau áttu tvö börn, Soffíu og Gest. Björg menntaði sig og varð ljósmóðir og reyndist afar farsæl.
Minningar mínar um þetta frændfólk mitt eru mér enn ljóslifandi. Björg frænka var eins og Þuríður amma, systir hennar, ákaflega blíðlynd kona. Hún var barngóð með afbrigðum. Þau hjónin fluttust til Reykjavíkur og bjuggu alla tíð í Drápuhlíð. Fjölskylda mín fluttist löngu síðar á mölina og fyrir tilviljun keyptu foreldrar mínir íbúð í Barmahlíð, aðeins steinsnar í burtu.
Björg frænka, Magnús, Soffía og Gestur voru alltaf hluti af nánustu tilveru minni og raunar allra systkina minna. Einn atburður öðrum fremur er þó greyptur í barnsminni mitt. Þannig var að eftir heimsóknir til Bjargar og Magnúsar var litli snáðinn alltaf leystur út með nokkrum brjóstsykursmolum sem bornir voru fyrir hann á undirskál og mátti hann velja. Auðvitað fór ekki hjá því að strákurinn legði saman tvo og tvo og fengi út fjóra. Hann gerði sér því oft erindi til Bjargar frænku og það þurfti hvorki að vera langt eða merkileg, alltaf fékk hann brjóstsykurinn. Stundum kom hann með einn og einn vin með sér en það skipti engu máli. Nammið skilaði sér.
Svo var það einu sinni að við komum fjölmargir félagar í Drápuhlíðina og hringdum á dyrabjöllunni. En þá brá svo við að Björg frænka kom ekki til dyra heldur Magnús bóndi með sitt mikla yfirvaraskegg og sínar þungar brýr til dyra. Honum fannst þetta krakkastóð vera bara til að sníkja, sem auðvitað var hárrétt, og bandaði því burtu. Vonsvikin héldum við heim á leið en vorum varla hálfnuð yfir í Barmahlíð þegar Soffía frænka náði okkur. Hún hafði séð til okkar og vissi hvað klukkan sló og hljóp á eftir okkur með brjóstsykurinn og allir fengu mola. Þessi frænka þín er alveg svakalega góð, sögðu strákarnir.
Ég hef oft hugsað það hversu yndislegt þetta frændfólk mitt var. Í því var svo mikil hlýja og manngæska og þannig var hún amma mín líka og ekki síður móðir mín. Skil bara ekkert í því hvers vegna ég erfði ekkert af þessum kærleika og mannúð. En það er nú allt önnur saga.
Soffía frænka mín Magnúsdóttir var mikil öðlingskona. Hún var skarpgreind en jafnfram afar hlý en það var lenska í þessu fólki að trana sér aldrei fram. En þegar hún mælti þá var hlustað. Hún var fróð og kunni vel þá list að segja frá. Og ekki var hann síðri hann Gestur bróðir hennar.
Einu sinni fórum ég með foreldrum mínum og þeim systkinum vestur að Staðafelli þeirra erinda að gefa kirkjunni Guðbrandsbiblíu. Ég var áreiðanlega langt innan við tíu ára. Á leiðinni var mikið spjallað og margt frá að segja og maður hlustaði agndofa á þessa andans spekinga, að manni fannst, tala. Man ég þó að hafa fengið að skjóta inn orði og orði. Þegar við nálguðumst Staðarfell þá voru umræðurnar orðnar afar heimspekilegar og skildi ég lítið en náði þó að varpa fram spurningu sem allir götuðu á. Hafði ég líklega engan skilning hvort spurningin passaði inn í umræðurnar en Gestur frændi hafði orð á því að strákurinn væri bara nokkuð snjall. Ég varð auðvitað afar upp með mér þó spurningin væri einfaldur orðaleikur: Hvað er á milli himins og jarðar. Það var hvorki loft, ský, flugvélar eða nokkuð annað heldur aðeins samtengingin og. Var þetta lengi í minnum haft en markaði ekki neitt upphaf að frekari heimspekilegum tilburðum af minni hálfu.
Þetta er nú orðinn dágóður pistill um dánargjöf Soffíu frænku minnar Magnúsdóttur. Ég veit svo vel að allir í fjölskyldu minni minnast hennar af miklum hlýleika. Hún var skírð í höfuðið á ömmu sinni, móðir mín fékk sama nafn og eftir því sem ég get næst komist þá eiga þær systradætur fjórar nöfnur í stórfjölskyldunni og þar af er ein Soffía Magnúsdóttir sem að vísu ber millinafnið Guðrún.
Gleði min er einlæg. Það er bara eitt sem mér gremst af eigingirni minni en það er að hafa ekki vitað fyrirfram um stofnun styrktarsjóðsins og því ekki getað verið viðstaddur stofnun hans. Ég dreg stórlega í efa að neitt af systkinum mínum eða börnum þeirra hafi vitað af þessum merka atburði. Við hefðum örugglega öll fjölmennt vegna þess að minning Soffíu Magnúsdóttur er okkur afar kær. Það er nú bara svoleiðis að ættingjar Soffíu Magnúsdóttur, og núlifandi niðjar Magnúsar og Soffíu frá Staðrfelli, eru hátt í eitt hundrað.
Meðfylgjandi myndir eru úr fjölskyldualbúminu. Efsta myndin er af þeim systkinum Soffíu og Gesti Magnúsarbörnum.
Næsta mynd er af fjölskyldunni að Staðarfelli, hjónunum Soffíu Gestsdóttur og Magnúsi Friðrikssyni og börnum þeirra, Björgu, Gesti og Þuríði.
Þriðja myndin er tekin fyrir utan kirkjuna á Staðarfelli þann 2. júlí 2006. Stórfjölskyldan kom saman eina helgi í Stykkishólmi gerði sér ferð inn í Dali til að skoða aðstæður á Staðarfelli, Hofakur og minjasafnið á Laugum. Staðreyndin er nefnilega sú að við eigum ættir okkar að rekja annars vegar í Stykkishólm og Fagurey og hins vegar í Dali. Og við erum öll ákaflega stolt af uppruna okkar.
Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar styrktir til framhaldsnáms | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.