Á pilsfaldi spákonunnar
19.10.2008 | 01:14
Haustið er komið, því verður víst ekki á móti mælt. Treglega verð ég að viðurkenna það. Jörð var nefnilega grá er ég gekk út í morgun og upp með hlíðum Spákonufells, um pislfald spákonunnar, ef svo má segja. Snjórinn var þó ekki mikill, eiginlega ekkert nema ... grámi. Oft veit snjór á haust, jafnvel veturkomu.
Dagurinn var fallegur. Gola af norðaustan og inn í Húnaflóa sigldu af og til éljaklakkar. Þeir komu fyrir Skaga og liðu yfir miðjan Flóann og kannski inn í Hrútafjörð eða yfir á Strandir. Dularfullir skýjabakkar sem sigldu móti skammdegissól, svo hægt að varla mátti greina. Skagafjöllin voru greinilega fyrirstaða fyrir vindinn og hann þurfti að krækja framhjá þeim. Samt sáldraðist mjöllin stundum niður hlémegin við Spákonufell þar sem ég kjagaði uppávið.
Skýjafarið lék sér með sólargeislanna. Stundum var skjannabjart á efri hluta fjallsins, Spákonufellsborgina, og þess á milli var sem hún nær myrkvaðist.
Ég gekk ekki alla leiðina upp. Nennti því ekki í þetta sinn. Lék mér að því að taka myndir og njóta kuldans. Já, það er stundum alvega einstaklega gott að vera úti í frosti. Engum verður meint af því, aðal atriðið er að klæða sig vel og hreyfa sig. Ég tók myndir, þóttist taka góðar myndir, en þær er ekki eins góðar og ég hélt, bara svona miðlungs.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.