Hinn mikli vandi Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn á undir högg að sækja. Verulegrar óánægju gætir meðal stuðningsmanna hans og margir hafa horfið frá stuðningi sínum við flokkinn. Margt veldur. Atburðir síðustu tveggja vikna vega þungt en meira kemur til. Stærsti vandinn er sá að flokkurinn hefur látið undir höfuð leggjast að sinna kynningarmálum eins og vera skyldi.

Eftir afar gott gengi í tvennum kosningum voru andstæðingarnir ráðalausir, vissu lítt hvernig hægt væri að losa um þrásetu flokksins í ríkisstjórn. Á vegum Samfylkingarinnar var þá tekin sú ákvörðun að reyna nýja nálgun sem fólst í því að ráðst einfaldlega á garðinn þar sem hann er hæstur og berja þar linnulaust á. Með Borgarnesræðu formann Samfylkingarinnar hófust árásirnar á þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson sem staðið hafa linnulítið síðan. Um var að ræða skipulega ófrægingarherferð. Kunnir PR menn í flokknum hönnuðu atburðarás, nokkurs konar „herbalife-söluherferð“, þ.e. sjálfbær aðferð sem smitar út frá sér og smá saman hefur áróðurinn náð að síast til andstæðinga Sjálfstæðisflokksins og er á góðri leið með að kljúfa hóp samherja.

Þetta dugði. Davíð Oddsson er orðinn einn af vondu gæjunum. Nú er svo komið að vonlítið er að breyta stöðunni, hann fær ekki að njóta sannmælis svo hatrammur er áróðurinn orðinn. Allt vont stafar má eiginlega rekja til Davíðs. Í hugum margra er hann orðinn holdgerfingur alls þess sem mistekist hefur. Eiginlega má kenna honum um heimskreppuna alla og hlaupið í Skaftá. .

Þegar menn bera ekki hönd fyrir höfuð sér og mæta áróðri andstæðinga er ekki nema von að illa fari. Davíð er horfinn úr stjórnmálastarfi Sjálfstæðisflokksins en í augum andstæðinganna er hann þar ennþá og stjórnar öllu að tjaldabaki. Því er ekki mótmælt. Jafnvel heyrast þær raddir meðal Sjálfstæðismanna að fórna eigi Davíð, hvernig svo sem það er hægt.

Staða Sjálfstæðisflokksins er orðin afar slæm. Hann er í raun klofinn í fjölmörgum málum. Nefna má Evrumálið, aðild að Evrópusambandinu, landbúnaðarmál og fleira. Við meðaljónarir í flokkum stöndum ráðalausir og horfum á málsmetandi Sjálfstæðismenn færa rök fyrir ESB aðild og aðra ekki síður trausta mótmæla því. Sumir vilja evru, aðrir ekki, til eru þeir sem krefjast innflutningsfrelsis á landbúnaðarvörum, aðrir ekki.

Þingmenn flokksins þegja yfirleitt þunnu hljóði. Sumir segja þagnarbindindið sé fyrirskipun stjórnar þingflokksins. Aðrir segja þingmenn einfaldlega ráðþrota, málþrota. Fjölmargir mætir þingmenn hafa brugðist vonum kjósenda sinna. Virðast í besta falli vera samviskusamnir kontóristar í sölum Alþingis. Sama má segja með suma ráðherra sem virðast einfaldlega vera í gíslingu ráðuneyta sinna. Staðan er að minnsta kosti sú að þeir þegja þunnu hljóði og jafnt um stjórnmál sem hugsanleg afrek þeirra innan ráðuneyta. Þeir einu sem upp standa lenda í fárviðri ófrægingarherferða. Skiptir engu máli hversu frjóir og góðir þeir eru í starfi sínu, þeir fá sömu meðhöndlun og Davíð.

Hvað má verða til að breyta hinni ömurlegu stöðu Sjálfstæðisflokksins? Nýtt fólk, nýjar baráttuaðferðir, skara í glæður hugsjónanna ... Framar öllu efla alla kynningu. Skipa mönnum að tala.

Það hefur lengi verið regla innan Sjálfstæðisflokksins að efna ekki til óvinafagnaðar með opinberri gagnrýni á flokkinn og forystuna. Þetta er góð regla, en hún gildir ekki þegar vandamálin blasa við og lítið sem ekkert er gert til mótvægis. Að minnsta kosti er sá vinur sem til vamms segir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband