Orkuveitan hyggst reisa fjölda vindmylla örskammt frá Reykjavík
29.6.2023 | 16:27
Orkuveita Reykjavíkur hefur áhuga á að reisa vindmyllur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Áformin vekja furðu. Vindgarðar er svo óskaplega vinalegt orð og sagðar muni verða í nágrenni Hellisheiðar. Allt svo sætt.
Hvers vegna fer Orkuveitan með rangt mál og notar villandi orðalag um vindmyllurnar?
Hér er mynd sem Orkuveitan lét gera og hefur verið birt í fjölmiðlum og á vefsíðu fyrirtækisins. Ég hef leyft mér að merkja Hellisheiði með rauðu inn á myndina, svona í stórum dráttum. Þess má geta að Hellisheiðarvirkjun er ekki á Hellisheiði, hún er vestan undir henni.
Á kortið hefur Orkuveitan merkt þrjá staði sem áhugi er fyrir að reisa vindmyllur og þeir eru allir fjarri Hellisheiði. Fullyrðingar um annað eru ósannindi.
Lyklafell
Orkuveitan hefur hugmyndir um að reisa vindmyllur við Lyklafell sem er skammt frá Suðurlandsvegi, til móts við Sandskeið. Fellið er um tíu km frá Hellisheiði og um ellefu km frá austustu byggð í Reykjavík. Sem sagt; miðja vegu milli byggðar í Reykjavík og Hellisheiðar.
Hvers vegna er Lyklafell sagt í nágrenni Hellisheiðar? Hið fyrsta sem manni dettur í hug er að verið sé að reyna að villa um fyrir almenningi, afvegaleiða hugsanlega umræðu.
Hvað er að því að segja að Orkuveitan vilji að reisa vindmyllur í nágrenni Reykjavíkur? Ástæðan er einföld. Fólk myndi leggjast hatrammlega gegn áformunum. Þeir hjá Orkuveitunni vita að ekki er sama hvernig málið er kynnt. Vandamálið er greinilega ekki léleg landfræðiþekking starfsmanna hennar heldur allt annað. Áróður?
Dyravegur
Fyrir bílaöld lá þjóðleið frá Elliðakoti (Helliskoti) að Lyklafelli. Þaðan voru tvær leiðir, yfir Hellisheiði og yfir Dyrafjöll. Síðarnefnda leiðin er nefnd Dyravegur og er friðaður eins og allar fornar leiðir. Hann er merktur á Herforingjaráðskort Dana og einnig á Atlaskort Landmælinga.
Nálægt Hengli, einhvers staðar milli Nesjavallavegar og Dyravegar hefur Orkuveitan áhuga á að reisa vindmyllur. Staðurinn er fjarri Hellisheiði. Þar munar um átta til tíu km eftir því hvar borið er niður. Hann er á Mosfellsheiði en starfsmenn Orkuveitunnar reyna að fela þá staðreynd og masa um Hellisheiði.
Sandfell er lítið fell sunnan við Þrengsli, rétt við þjóðveginn. Það hefur verið notað sem malarnámur og vont fólk hyggst nú moka því í burtu og selja til Þýskalands. Á rústunum er líklega ætlunin að reisa vindmyllur.
Sandfell er ekki í nágrenni við Hellisheiði. Tæpir átta km eru þangað í beinni loftlínu. Segja má fyrirhugaðar vindmyllur séu í nágrenni Þorlákshafnar því þangað eru tólf km.
Vindmyllur
Líklega má segja að vindmyllur geti verið þarfaþing. Þær eru hins vegar ekki alltaf nauðsynleg viðbót við orkukerfi landsins því framleiðsla þeirra er ekki endilega í beinum tengslum við eftirspurn, hún getur verið minni eða meiri, allt eftir því hvernig vindurinn blæs. Bókstaflega.
Þær eru hins vegar hrikalega áberandi hvar sem er. Aðskotahlutir sem raska landslagi og eyðileggja tilfinningu fyrir víðernum.
Á svokölluðu Hafi fyrir ofan Búrfell standa tvær vindmyllur. Þegar armarnir eru í efstu stöðu eru þær hærri en Hallgrímskirkjuturn.
Hér fyrir ofan er ljósmynd af Þrengslum og Sandfelli (lengst til hægri). Vindmyllurnar yrðu á svipaðri hæð og fellið en þær yrðu varla tvær, líklega tíu hið minnsta.
Þeir hjá Orkuveitunni passa sig á því að nefna ekki fjölda vindmylla, það gæti skemmt fyrir þeim. Lúmskir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:32 | Facebook
Athugasemdir
Eg lagði mig eitt sinn fram um að blogga um gallana á þessum blessuðu vindmyllum.
Svo virðist vera, að þegar eitthvað er stórgallað og vitavonlaust, þá fer það í loftið.
Sérstaklega ef það eyðileggur framtíð íslands með einum eða öðrum hætti.
Loncexter, 29.6.2023 kl. 16:59
Gæta þarf jafnvægis í öllu.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.6.2023 kl. 17:38
Þá er framlegð þeirra samanborið við framleiðslukostnað, förgun og framleiðini mjög vafasöm, að ekki sé rætt um að förgun hefur leitt í ljós að t.d. spaðana er ekki hægt að endurvinna.
Þá er ætíð ýtt til hliðar skaðsemi vindmylla fyrir fuglalíf, en á síðustu árum hefur komið sífellt betur í ljós að þær valda þar stórkostlegu tjóni með ófyrirsjáanlegum afleiðngum - en umræðu um það er ávallt slengt út af borðinu með loftslagsbreytingafrösum.
Loks held ég að ein ástæða þess sem hér er gagnrýnt, sé ekki fyrirsláttur heldur greindarleti (Intellectual sloppiness) sem er samfara þeim öfgakommúnisma sem smitað hefur hugarfar vesturlanda síðustu tvo áratugi - og í veldisvaxandi mæli - að tilfinning fólks fyrir árvekni í merkingu hugtaka og vægi vandaðrar málnotkunar fer þverrandi, svo og áhugii fólks fyrir faglegri ábyrgð og vandvirkni.
Góðar stundir.
Guðjón E. Hreinberg, 30.6.2023 kl. 13:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.