Faglegur eða ófaglegur bæjarstjóri
16.5.2022 | 10:20
Þá segir Sandra Sigurðardóttir, oddviti OH, það vera forgangsmál að nýr bæjarstjóri verði ráðinn til starfa á faglegum grunni ...
Svo segir stjórnmálamaður í Hveragerði sem fagnar sigri í kosningunum í viðtali við Morgunblað dagsins á blaðsíðu tíu.
Hvað er eiginlega átt við með orðalaginu faglegur bæjarstjóri. Má vera að með því sé átti við að bæjarstjórinn sé ekki stjórnmálamaður, kemur ekki af listum þeirra sem ætla að mynda meirihluta.
Ef til vill er þetta sé mælt af einlægni og sé stefnt gegn því að ráða pólitískan stjórnanda sem hljóti að vera voðalega slæmt. Svona tal gengur hins vegar ekki upp því stjórnmálamaður getur verið ágætur stjórnandi rétt eins og sá faglegi geti verið alveg ómögulegur - og öfugt. Eftir sveitastjórnarkosningarnar 14. maí 2022 er ljóst að fult af ófaglegum og faglegum bæjar- og sveitastjórum verði ráðnir til starfa. Hér eru örfá dæmi:
Í Ísafjarðarbæ verður kona ófaglegur bæjarstjóri, það er stjórnmálamaður sem var í framboði.
Á Akranesi verður bæjarstjórinn faglegur, hann var ekki í framboði og hefur verið bæjarstjóri í rúmt eitt kjörtímabil.
Á Akureyri mun bæjarstjórinn líklega gegna embættinu áfram. Hann er faglegur þó flokksbundinn sé, en hann var ekki í framboði.
Í Vestmannaeyjum verður líklega sami bæjarstjóri áfram. Hann er ófaglegur, var í framboði.
Endalaust má velta þessu fyrir sér en líklega komast margir í klípu vegna orðalagsins faglegur bæjarstjóri af þeirri einföldu ástæðu að sami flokkur eða aðrir í stjórnmálum sjá ekkert athugavert við ófaglegan bæjarstjóra. Varla er merking orðalagsins faglegur bæjarstjóri valkvætt.
Jú, faglegur er ábyggilega fínt orð þegar nýr meirihluti getur ekki komið sér saman hver í honum eigi að fá embættið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.