Málningarvinna fór fram, blómvöndur með blómum og Grenjaðarstaðir
4.3.2020 | 19:42
Orðlof
Nafnorðastíll
Nafnorðastíll lýsir sér í því að nafnorð eru fleiri en þörf krefur en textar sem einkennast af slíkum stíl eru oft erfiðir aflestrar.
Nafnorðastíll birtist m.a. í dæmum þar sem sögn og nafnorð eru notuð þar sem ein sögn ætti að nægja:
gera könnun > kanna
skila hagnaði > hagnast
framkvæma lendingu > lenda
Stundum er forsetning á eftir nafnorðinu og þá getur ein sögn komið í stað þriggja orða:
gera athugun á > athuga
leggja mat á > meta
taka ákvörðun um > ákveða
valda töfum á > tefja
Í sumum tilvikum þarf að umorða setninguna talsvert til að fækka nafnorðunum:
Það hafa verið fleiri komur skipa nú í sumar en oft áður.
> Fleiri skip hafa komið nú í sumar en oft áður.
Ýmsar leiðir eru færar til þess að stytta langar málsgreinar.
> Hægt er að stytta langar málsgreinar á ýmsan hátt.
Ótti við atvinnuleysi er til staðar hjá andstæðingum aðildar.
> Andstæðingar aðildar óttast atvinnuleysi.
Leiðbeiningavefur um ritun á háskólastigi.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
... að málningarvinna hafi farið fram innandyra aðfaranótt laugardags.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Var verið að mála eða fór fram málningarvinna? Takið eftir orðalaginu. Á undan er notuð einföld sögn en blaðamaðurinn er haldinn nafnorðasýkinni sem virðist vera að menga málið meir er margt annað.
Í heild er tilvitnunin svona:
Einn eigenda verslunarinnar, sem var á staðnum þarna um morguninn, segir við mbl.is að málningarvinna hafi farið fram innandyra aðfaranótt laugardags og þegar fólkið kom inn í búðina á laugardagsmorgun, um klukkan tíu eða hálfellefu, hafi menn enn verið að ganga frá.
Orðalagið fellur einkar vel að ensku máli:
One of the shop's owners, who was there in the morning, tells mbl.is that paint work has been done indoors.
Krakkarnir sem aldrei gátu lesið bækur eða annað sér til gagns alla sína skólatíð eru nú orðnir blaðamenn og skrifa enska íslensku.
Í fréttinni segir:
Við höfðum verið að mála þarna um nóttina og búðin var ekki tilbúin til að opna hana.
Átti búðin að opna sjálfa sig? Engin ástæða er að hafa illa ígrundað mál eftir viðmælanda. Betra er að segja frá því sem hann á við í óbeinni ræðu, til dæmis á þessa leið:
Eigandinn segir að hann og fleiri hafi verið að mála verslunina alla nóttina og því hafi ekki hægt að opna hana um morguninn.
Verkefni blaðamannsins er að veita upplýsingar á góðu máli. Illa skrifuð frétt er gagnslaus, skemmd.
Tillaga: Verið var að mála verslunina segir einn eigenda hennar.
2.
Mér fannst það skondið að við fengjum afhent þessi verðlaun sem blómabændur og fengjum svo blómvönd sem var fullur af innfluttum blómum.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Samkvæmt orðanna hljóðan getur vart verið annað í blómvendi en blóm, því ekki var verið að tala um sóp sem stundum er nefndur vöndur.
Auðvitað hefði mátt orða þetta á annan hátt til að forðast nástöðuna og kjánalega samsetningu.
Tillaga: Mér fannst það skondið að við blómabændur fengjum verðlaun og þeim fylgdi vöndur með innfluttum blómum.
3.
Vinna í kappi við tímann við söluhús.
Fyrirsögn á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 3.3.2020.
Athugasemd: Jafnvel skýrustu og reyndustu skrifurum getur orðið á rétt eins og okkur hinum.
Við þetta er það eitt að athuga að orðaröðin gæti verið betri. Blaðamaðurinn hefur getað skrifað: Vinna við söluhús í kappi við tímann. Ég kann þó betur við tillöguna hér fyrir neðan.
Tillaga: Smíða söluhús í kappi við tímann.
4.
... og hafa það ágætt á Grenjaðarstöðum.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn er ekki alveg viss og kallar bæinn ýmist Grenjaðarstað eða Grenjaðarstaði. Staðreyndin er þó sú að nafnið er aðeins til í eintölu samkvæmt því sem segir á málið.is. Er það rétt?
Bæru fleiri bæir með þetta nafn væri óhætt að tala um Grenjaðarstaði.
Ég var ekki viss og fletti upp í ritinu Grímnir sem gefið var út á meðan Þórhallur Vilmundarson var forstöðumaður Örnefnastofnunar. Minnti endilega að ég hafi lesið um bæjarnafnið þar. Og viti menn það var rétt.
Þórhallur vitnar í Landnámu á blaðsíðu nítíu og eitt í fyrsta hefti Grímnis:
Grenjaður hét maður Hrappsson, bróðir Geirleifs; hann nam Þegjandadal og Kraunaheiði ...
Þórhallur trúði ekki Landnámu því hann er höfundur náttúrnafnakenningarinnar sem í stuttu máli gerir ráð fyrir að mörg örnefni á Íslandi og einnig Noregi tengist staðháttum og umhverfi en ekki nöfnum landnámsmanna eða viðburðum. Í Grímni kemur glögglega fram að Grenjaðarstaður geti verið í fleirtölu. Þar segir (takið eftir að á eftir bókstafnum G eru sagnirnar í fleirtölu):
G. standa hjá Laxá skammt neðan við Laxárgljúfur, þar sem áin fellur í miklum og háværum fossum, sem nú hafa verið virkjaðir.
Líklegt má telja, að G. séu kenndir við Laxárfossa, sem þá hafi áður heitir Grenjaðr, fremur en Laxá.
Tvennt er enn þeirri skýringu til styrktar:
1) no. grenjaðr kemur fyrir í merkingunni Larmen af en Fos, það er fossdynur (Björn Halldórsson),
2) framan við G. er Þegjandadalur, en um hann fellur í Laxá Kálfalækur, sem sennilega hefur heitið upphaflega Þegjandi, og mæti þá líta á það sem andstæðunafn við Grenjað, sbr. Þegjandi - Beljandi á Kili.
Til hliðsjónar eru Dunkastaðir (-Dunkur) og Grenjá í Höfðahverfi.
Hitt er svo annað mál að blaðamaðurinn hafði rangt fyrir sér, skrifaði bæjarnafnið í fleirtölu sem ekki er rétt. Verra er að hann er tvístígandi, veit ekki hvort nafnið eigi að vera í eintölu eða fleirtölu.
Tillaga: ... og hafa það ágætt á Grenjaðarstað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.3.2020 kl. 13:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.