Askja opnar Honda, varðandi það hvernig og burning questions

Orðlof

Ágirndin

Ef blaðamaður segði sem svo: Ég fíla mig ekki afstressaðan eftir pásuna, mundi félagsfræðingur svara að bragði: Skammtímavirkni er ferli, sem felur í sér óhæfni til að verjast leiða.

Einhvern tíma í fyrndinni var göngumaður orðinn of þreyttur til að njóta hvíldar og stundi: Sá verður tvisvar feginn, sem á steininn sezt.

Nútímaspakmæli eru farin að birtast í blöðum. Eitt er svona: „Betri er lakkrísborði í vasanum en konfektkassi uppi í tré.“ 

Einhver hagyrðingur hefur þó ekki verið ánægður. Hann hafði ekki kynnst veiðiskógum. Svo hann orti:

Margur ágirnist meira en þarf.
Maður einn fór að elta skarf,
hafði fengið fjóra,
Elti þann fimmta - en í því hvarf
ofan fyrir bjargið stóra.

Þarna kom lífsspekin um ofurkapp ágirndarinnar til skila í dæmisögu úr raunveruleikanum. …

Hver hefur til síns ágætis nokkuð í orðavali á hverjum tíma: „Ég er með dellu fyrir Íslandi“, sagði kunnur skemmtilistamaður. Hann var að tjá ættjarðarást sína í útvarpsviðtali.

Annar skemmtimaður orðaði það svona á öldinni sem leið:

Móðurjörð, hvar maður fæðist,
Mun hún ekki flestum kær ...

Orðaleppar, Oddný Guðmundsdóttir, blaðsíða 36.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Frakkar mæta til leiks sem ríkjandi heimsmeistarar.“

Frétt kl. 19:20 í íþróttaþætti Ríkissjónvarpsins 19.11.2019.               

Athugasemd: Sá sem er „ríkjandi heimsmeistari“ er einfaldlega heimsmeistari. Lýsingarorðið „ríkjandi“ bætir engu við. Þvert á móti er þetta kjánaleg viðbót, málalenging.

Fréttin fjallar um heimsmeistaramótið í handbolta kvenna. Öll lið sem taka þátt „mæta til leiks“. Þarf að taka það fram? Nei, auðvitað ekki. Þetta er önnur tilgangslaus málalenging. 

Þegar hér er komið sögu er fátt eftir af ofangreindri tilvitnun, annað en sú staðreynd að að franska landsliðið tekur þátt. 

Frakkar geta ekki annað en tekið þátt í heimsmeistaramótinu sem heimsmeistarar. Hversu heimskuleg er þá ekki ofangreind tilvitnun?

Tillaga: Frakkar mæta.

2.

„Emergency - Pull the brake now.“

Kynningarspjald hjá áhorfendum í Kastljósþætti um loftslagsmál 19.11.2019.               

Athugasemd: Endalok íslenskunnar sem lifandi tungumáls felst í örsmáum skrefum. Af hverju getur ungt fólk sem hefur knýjandi boðskap í loftslagsmálum ekki tjáð sig á íslensku? Er miklu flottara að nota ensku? Verða áhrifin meiri en ef orðin eru á íslensku? Eða er þetta bara hugsunarleysi eða jafnvel heimska?

Tillaga: Neyðarástand - stígum strax á bremsurnar.

3.

„Taktu þetta með á koddann þinn í kvöld.“

Fyrirsögn á grein í dálknum Skoðun á visir.is.               

Athugasemd: Veit ekki alveg hvað þetta orðalag merkir. Má vera að höfundurinn leggi  til að lesandinn hugsi um efni greinarinnar, að minnsta kosti lokaorðin, þegar hann leggst til svefns að kvöldi dags. Þar segir hann:

Áætlað er að um 220 milljónir barna alist upp ein, hafi misst foreldra sína eða eigi á hættu að missa þá. Þetta er eitt af hverjum tíu börnum í heiminum. Tökum það með okkur á koddann á upphituðum heimilum okkar í kvöld.

Greinin er efnislega áhugaverð en að ósekju hefði höfundurinn þurft að lesa hana betur yfir fyrir birtingu og jafnvel fá einhvern annan til hjálpar. Hann segir til dæmis:

Börnin eru komin í skóla og farin að eignast vini þegar þær er skyndilega rifnar upp með rótum og vísað á brott út í óvissuna. 

Má vera að þarna vísi persónufornafnið í kvk þær til fjölskyldna í málsgreininni á undan. Lesandinn áttar sig ekki á því vegna þess að hann var að lesa um börnin og býst við að persónufornafnið sé í hvorugkyni.

Tillaga: Hugsun um þetta þegar við leggjumst til svefns í kvöld.

4.

„Elísabet II Bretlandsdrottning hefur samþykkt ósk Andrésar prins um að hann hætti að sinna opinberum skyldum sínum fyrir konungsfjölskylduna um ófyrirsjáanlega framtíð.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Er hér rétt farið með að prinsinn ætli sér ekki að sinna verkefnum sínum um alla framtíð?

Heimild fréttarinnar er vefur BBC og þar segir:

Prince Andrew, 59, said he had asked the Queen for permission to withdraw for the "foreseeable future“.

Foreseeable“ merkir það sem er fyrirsjáanlegt:

Able to be foreseen or predicted.

Breytist ekkert mun prinsinn ekki sinna opinberum skyldum sínum um nánustu framtíð.

„Unforeseeable“ merkir þá hið gagnstæða, það sem er ófyrirsjáanlegt.

Hvað er ófyrirsjáanleg framtíð? Á málið.is segir:

Ófyrirsjáanlegur; lýsingarorð: sem ekki er hægt að sjá fyrir
ófyrirsjáanlegar tafir urðu á öllu flugi í gær

Ófyrirsjáanleg framtíð er þá um alla framtíð, það er að öllu óbreyttu. Engu að síður lætur blaðamaðurinn sem svo að „foreseeable future“ sé „ófyrirsjáanleg framtíð“ en það er bara rangt vegna þess að þetta virðist vera hlé á störfum, ekki að maðurinn sé hreinlega hættur öllu þessu vafstri sem felst í því að vera prins.

Tillaga: Elísabet II Bretlandsdrottning hefur samþykkt ósk Andrésar prins að hann dragi sig í hlé konunglegum skyldum í nánustu framtíð.

5.

„Askja opnar Honda á Fosshálsi 1.“

Fyrirsögn í opnuauglýsingu á blaðsíðu sex og sjö í Morgunblaðinu 21.11.2019.              

Athugasemd: Askja er fyrirtæki sem flytur inn bíla. Það opnar ekki neitt, getur það ekki. Hús eða fyrirtæki opna ekkert, fólk gerir það.

Fyrirtækið á að opna bíl af tegundinni Honda, framdyr, afturdyr, bakhlera, glugga eða þaklúgu. Fyrirtæki opnar bíl. Þetta gengur ekki upp.

Askja er stórt og virðulegt fyrirtæki og auglýsingar og allt kynningarefni á því að vera á vandaðri íslensku. Annað er því ekki samboðið.

Tillaga: Askja fagnar komu Honda á Fosshálsi 1.

6.

„Völlurinn er mjög slæmur varðandi það hvernig hann er byggður upp, enda einn sá elsti sem alþjóðlegur fótbolti er spilaður á.“

Frétt á blaðsíðu 55 í Morgunblaðinu 21.11.2019.              

Athugasemd: Þetta er ekki góð málsgrein, illa orðuð. „Varðandi það hvernig …“ er afar klúðursleg orðalag. Ekki fer vel á því að tala um ólíka hluti í sömu málsgreininni. Betra er að skilja á milli og nota punkt.

Þó svo að ofangreint sé haft eftir viðmælanda blaðamannsins ber honum að lagfæra orðalagið. Viðmælendur tala stundum óvarlega og myndu örugglega endurskoða orðalag sitt fengju þeir umhugsunarfrest.

Í fréttinni segir:

Tæknin er þannig í dag að maður getur haldið fótboltaleiki hvar sem er og hvenær sem er …

Þarna hefði blaðamaðurinn átt að lagfæra ummælin, til dæmis svona:

Tæknin er þannig að nú er hægt að spila fótbolta hvar og hvenær sem er …

Viðtalið er áhugavert en blaðamaðurinn hefði mátt lesa það yfir fyrir birtingu eða fá einhvern annan til þess.

Tillaga: Völlurinn er mjög slæmur, illa uppbyggður. Hann einn sá elsti sem nýttur er fyrir alþjóðlegan fótbolta.

7.

„Pétur Jóhann var gestur Egils Ploder í Burning Questions hjá Áttan Miðlar.“

Frétt á blaðsíðu 55 í Morgunblaðinu 21.11.2019.              

Athugasemd: Áttan miðlar er „afþreyingarstöð á samfélagsmiðlunum“ eins og segir á Facebook síðu miðlanna. 

Líklega er svo komið að ungt fólk skilur ensku orðin „burning questions“ miklu betur en hallærislega íslensku. Svona er nú komið að virðingin fyrir henni þverr stöðugt.

Tillaga: Pétur Jóhann var gestur Egils Ploder í knýjandi spurningar hjá Áttan miðlar.

8.

„Virðingaleysi, rangt og óþakklátur.“

Frétt dv.is             

Athugasemd: Er ekki nóg komið? Þetta er ekki rangt en afar sjaldgæft. 

Hallgrímur Pétursson orti:

Upp á heimsins óþakklæti
er hér dæmi ljóst til sanns.
Margan læknaði son Guðs sæti
sjúkan meðal almúgans.

Nú er spurningin þessi: Gerði blaðamaðurinn þetta af ráðnum hug eða bjó hann til orðið?

Tillaga: Virðingaleysi, rangt og vanþakklátur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband