Playlisti, vesturströnd Íslands og búbblubað kvenna
27.8.2019 | 10:42
Orðlof
Velkomin
Þegar almennt er verið að bjóða fólk velkomið fer betur að segja: velkomin (hk. ft.), heldur en að nota eintöluna í karlkyni velkominn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Föstudagsplaylisti Bjarna Ben í Hausum
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Hvað ertu að setja út á svona smáatriði, sagði vinur minn þegar ég hafði orð á þessari fyrirsögn í Vísi. Ég benti honum að smáatriðin geta haft gríðarleg áhrif: Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi, er stundum sagt.
Ertu með þetta lag á playlistanum þínum, spyrja krakkarnir hverjir aðra og jafnvel fullorðnir orða þetta svona.
Á ensku er lagalisti á tölvu eða snjalltækjum nefndur playlist. Orðið listi rímar algjörlega við enska orðið list og því verður til blendingurinn playlisti.
Svona samsuða á íslensku og ensku orði getur varla verið góð. Þetta er bara kæruleysi og afleiðing af slíku þekkist í öðrum tungumálum. Í dönsku eru ensk áhrif mjög mikil.
Í fréttum frá upphafi þessa árs segir að í dönsku séu um 12.000 tökuorð úr ensku, sem er um 10% af orðaforðanum. Í sömu fréttum segir til dæmis:
Mere irritation vækker det, når der i it eller erhvervslivet bruges oversmarte engelske udtryk, eller når man siger ´rolig nu´ som er overtaget fra det engelske ´easy now´, i stedet for ´tag det roligt´, forklarer Henrik Gottlieb. nyheder.tv.dk.
Gera má ráð fyrir að íslensk orð séu ekki færri en dönsk. Íslenskan stefnir í sömu átt og danskan.
Ábyrgð fjölmiðla er mikil. Margir blaðamenn freistast til að færa kæruleysislegt talmál yfir í fjölmiðla. Þannig verða enskar slettur samþykktar með þögninni, enginn mótmælir, blaðamenn halda að þetta sé í lagi og almenningur tileinkar sér þær rétt eins og margir Danir hafa gert.
Spyrja má hvort að svona orðalag úr frétt á Vísi sé það sem koma skal:
Bæði er ég enn mjög hæpaður og Lífið er mjög erfitt þessa stundina og ég gæfi allt til að geta púllað smá Costanza. Fokking opin vinnurými.
Vissulega á fjöldi íslenskra orða á sér rætur í öðrum tungumálum eins og segir á Vísindavefnum:
Tökuorð er orð, sem fengið er að láni úr öðru máli en hefur lagað sig að hljóð- og beygingarkerfi viðtökumálsins. Slík orð eru fjölmörg í íslensku. Orðin kirkja, prestur, djákni, altari eru til dæmis öll gömul tökuorð. Meðal yngri tökuorða eru til dæmis dúkka, vaskur, kústur, skrúbba, viskustykki og fjölmörg fleiri sem komin eru úr dönsku, og einnig gír í bíl, jeppi, sjoppa sem sem öll eiga rætur at rekja til ensku.
Munum samt að orðin sem þarna eru nefnd blönduðust inn í íslenskuna á löngum tíma, og þá voru engar tölvur. Nú hverfist allt um tölvur. Við fréttum, sjáum og heyrum flest allt sem fréttnæmt er í heiminum örfáum augnablikum síðar. Allt gerist mjög hratt, krafist er enn meiri hraða.
Í öllum þessum látum gleymist fjölmargt, annað tapast og týnist. Skyndibitinn vomir yfir, meltingin fer úr lagi, fólk vekist vegna formeltrar fæðu sem fer oft illa í maga og líðanin er almennt slæm. Illa gefið fólk andskotast í athugasemdadálkum fjölmiðla á torlæsilegu máli og skilur ekkert eftir nema vanlíða þeirra sem asnast til að lesa. Ekki er furða þó kröfur komi upp um rólegra líf, hægeldaðan mat, ljúfari stundir, bækur og innilegri samræður og góðan félagsskap.
Margt bendir til þess að daginn sem Jökullinn hverfur af Snjófelli verði íslenskan horfin úr daglegu lífi afkomenda okkar.
Tillaga: Föstudagslagalisti Bjarna Ben í Hausum.
2.
Svikalogn á vesturströndinni á morgun.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Vesturströnd Íslands er ekki til. Ekki heldur norður- eða austurströnd landsins. Almennt er að talað um fjórðungana, og þá er oftast Vestfjörðum bætt við. Eina landshlutaströndin er Suðurströndin.
Þetta eiga blaðamenn að vita. Enginn fullyrðir að Akranes, Stykkishólmur eða Búðardalur séu bæir á vesturströnd landsins.
Tillaga: Svikalogn á vesturlandi á morgun.
3.
Hvað er eiginlega málið með búbblubað kvenna?
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hægt er að kaup sápur sem settar eru í baðker og freyða þær mikið, börnum á öllum aldri til ómældrar gleði. Á einhvern óskiljanlegan hátt virðast konur einstaklega hrifnar af slíkum böðum. Í vefútgáfu Moggans er svona kallað búbblubað.
Þroski fólks er mismunandi. Þegar bílar rekast á er segja sum börn að þeir klessi á. Þegar dyrabjallan hringir er einhver að dingla og litlar sápukúlur í baðinu eru kallaðar búbblur. Í stað þess að spyrja af hverju eða hvers vegna segja börnin: Hvað er málið með hitt eða þetta
Í sjálfu sér er ekkert að þessu, verra ef blaðamaðurinn þekkir ekkert annað. Stíllinn er óðum að fletjast út, verður ómerkilegri með hverju árinu. Hversu margir vita hvað stíll er? Ýmsir vita þó um lyf með þessu nafni og er troðið á ónefndan stað, raunar þangað sem tungumálið virðist þegar komið.
Tillaga: Hver vegna vill kvenfólk fara í freyðibað?
4.
BBC segir brasilíska ráðamenn ekki hafa gefið neina skýringu á að hafna fjárgjöfinni
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Orðalagið er óvenjulegt og getur varla verið eðlilegt, virðist vera slök þýðing úr ensku. Á vef BBC segir:
Brazilian officials gave no reason for turning down the money.
Þetta er greinilega heimildin og engin ástæða til annars en að þýða þetta eins og segir í tilögunni hér fyrir neðan.
Í fréttinni segir ennfremur:
Fullyrðir varnarmálaráðherra Brasilíu, Fernando Azevedo e Silva, að eldarnir séu ekki stjórnlausir
Hvers vegna byrjar blaðamaðurinn málsgreinina á sagnorði? Fyrir vikið verður hún stirðbusaleg, jafnvel tilgerðarleg. Miklu betur fer á þessu:
Varnarmálaráðherra Brasilíu, Fernando Azevedo e Silva, fullyrðir að eldarnir séu ekki stjórnlausir
Fleiri athugasemdir mætti gera við orðalag í fréttinni. Blaðamaðurinn hefði að ósekju átt að lesa hana yfir nokkrum sinnum með gagnrýnu hugarfari.
Tillaga: BBC segir brasilíska ráðamenn ekki hafa gefið neina skýringu á því hvers vegna fjárgjöfinni var hafnað
5.
Er kostnaðarsamt að kaupa kylfur fyrir unga iðkendur?
Fyrirsögn á blaðsíðu 4 í golfblaði Morgunblaðsins 27.8.2019
Athugasemd: Hérna er bókstaflega farið yfir lækinn til að sækja vatn. Þarna er í stuttu máli verið að spyrja hvort kylfur séu dýrar? Sé svo af hverju að nota lýsingarorðið kostnaðarsamur?
Tillaga: Er dýrt að kaupa kylfur fyrir unga iðkendur?
6.
Hver er kostnaðurinn við æfingagjöld?
Fyrirsögn á blaðsíðu 16 í golfblaði Morgunblaðsins 27.8.2019
Athugasemd: Þetta er ein furðulegasta setning sem lengi hefur sést í fjölmiðli. Hver er kostnaðurinn við 46.200 króna æfingagjald? Jú, 46.200 krónur.
Golfblaðið virðist við fyrstu sýn vera ágætt en við nánari athugun hefði mátt lesa texta yfir fyrir birtingu.
Á forsíðunni stendur:
Golf, góður valkostur fyrir börn og unglinga.
Hvað þýðir orðið valkostur? Varla hefði það kostað miklar þjáningar að skrifa setninguna svona:
Golf, góður kostur fyrir börn og unglinga.
Hér er fyrirsögn sem hefði mátt orða betur:
Eigum að skila ánægðum kylfingum frá okkur.
Skila hvert? Þetta er endaleysa. Á ensku gæti þetta hljóðað svona:
We should deliver happy golfers from us.
Á íslensku gengur þetta alls ekki vegna þess að við skilum ekki fólki eins og pökkum í pósti jafnvel þó enskmælandi geti það með orðinu to deliver.
Hvernig er best fyrir krakka að stíga fyrstu skrefin í golfíþróttinni?
Af hverju spyr blaðamaðurinn ekki hvernig best sé að byrja í golfi. Er fallegra mál að nota hjáyrði í stað þess að orða spurninguna á einfaldan hátt.
Nafnorðafíknin hrjáir blaðamenn. Á baðsíðu átta er þessi fyrirsögn:
Mikil fjölgun iðkenda á Akureyri.
Af hverju ekki:
Golfurum fjölgar á Akureyri.
Hægt er að gera athugasemdir við ótalmargt í viðbót. Blaðið er ekki beinlínis illa skrifað en greinilegt er að á Morgunblaðinu er enginn sem les yfir greinar og bendir blaðamönnum á það sem betur megi fara. Hvernig geta menn þá lært og þroskað hæfileika sína?
Tillaga: Hvað kosta æfingarnar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.