Kjölur og Kjalvegur, einhverjir og nokkrir
15.7.2019 | 14:09
Orðlof og annað
Eitt eða tvö ´n´
Ég hef tekið eftir því að stundum er eins og ákveðin orð eða orðasambönd komist í tísku, þau tröllríða þá fjölmiðlum í skamman tíma en síðan dregur úr notkun. Ég minnist þess að fyrir einum 17-20 árum þótti mér ýmiss konar pakkatal ofnotað og svo er enn, sbr.:
- bjóða upp á allan pakkann bjóða upp á alhliða þjónust;
- pakkaferð ferð, allt innifalið í verði;
- Valur hafi ekki treyst sér í launapakkann [um kaup á leikmanni] (17.7.08);
- þetta verður erfiður pakki [Ólymp.l. í Peking] (17.7.08);
- samþykkja þennan pakka [yfirráð ESB yfir orku fallvatna] (15.8.18, 8);
- Við Íslendingar höfum .... nákvæmlega enga þörf fyrir hinn þriðja evrópska orkupakka (3.9.18, 17 (SighvBj));
- Rökin gegn innleiðingu orkupakkans, sem höggvin eru í stein og rakin hafa verið hér, eru nægileg ... (3.9.18, 17);
- tveggja ára þjónustupakki fylgir með Taris (22.9.18, 3).
Þetta mun eiga rætur sínar í ensku: package deal; package tour; package holiday o.fl.
Vel má vera að einhverjum kunni að þykja pakkatal fagurt, um smekk manna verður ekki deilt, en það hlýtur að blasa við flestum að merking pakkanna er í flestum tilvikum óskýr, ef ekki loðin og teygjanleg.
Málfarsbankinn, 256. pistill, Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Lögreglan stöðvaði bifreið sem var á ferð um Mosfellsbæ rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi, en ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna eða lyfja. Í bifreiðinni voru auk ökumanns þrjú börn
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nástaðan er hér eins og lúsmý og fréttin er orðin nær blóðlaus, vart meira nema upptugga sömu orða. Komi fréttin frá lögreglunni er það á ábyrgð fjölmiðilsins að lagfæra orðalag.
Síðar segir:
Tilkynnt var um umferðarslys í Höfðahverfi í Reykjavík um klukkan hálf níu en þá hafði maður ekið út af vegi á vespu og endað á staur, með áverka á höfði. Var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild en er grunaður um að hafa verið ölvaður á meðan akstrinum stóð.
Takið eftir orðalaginu, hnoðinu. Maðurinn ók út af vegi, lenti á vespu og endaði á staur sem er með áverka á höfði. Hverjum bregður ekki við að sjá staur með áverka á höfði? Svo er sagt að aumingjans maðurinn hafi verðið ölvaður meðan á akstrinum stóð. Líklega hefur snarrunnið af manninum er hann fór frá stýrinu.
Stundum er verið að lýsa aðstæðum í alltof miklum smáatriðum og hnoðað saman alls kyns lýsingum sem lengja málsgreinar. Útkoman er svona rugl sem er ekkert annað en hnoð, leirburður. Löggan verður að ráða til sín skriffært fólk. Þangað til verða fjölmiðlar að umskrifa það sem frá henni kemur.
Þetta telst vera stórskemmd frétt.
Tillaga: Lögreglan stöðvaði bifreið í Mosfellsbæ rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi, en ökumaðurinn var með þrjú börn á ferð. Hann er talinn hafa ekið undir áhrifum vímuefna eða lyfja.
2.
Hjónin sem leitað var að á Kjalvegi fundin heil á húfi.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hjónin týndust ekki á Kjalvegi. Ekki var leitað að þeim á Kjalvegi. Þau fundust ekki á Kjalvegi.
Auðvelt er að leita á Kjalvegi en mun flóknara að leita á Kili.
Tillaga: Hjónin sem leitað var að á Kili fundin heil á húfi.
3.
Búist er við því að hlaupið í Múlakvísl verði það stærsta í átta ár en þó ekki stærra en hlaupið sem varð árið 2011 og hreif með sér brúnna yfir Þjóðveg 1.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Brú beygist svo í eintölu með greini:
Brúin, brúna, brúnni, brúarinnar.
Af þessu leiðir að orðið er rangt skrifað í tilvitnuninni.
Þjóðvegur 1 er ekki til þó margir telji svo vera. Vegagerðin nefnir hann hringveg, með litlum staf. Hins vegar skilst þetta hjá blaðamanninum. Betra hefði þó verið að skrifa þjóðvegur 1, það er með litlu þorni. Aðeins ein brú er á Múlakvísl.
Eflaust hefur blaðamaðurinn tekið upp viðtalið við lögregluna:
Það eru svona svæðin sem við erum að horfa á, segir Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi.
Blaðamaðurinn hefði mátt sleppa feitletruðu orðunum og skrifað í staðinn: Þetta eru svæðin Auðvelt er að gera orð viðmælandans skýrari með því að lagfæra þau. Það var hins vegar ekki hægt í sjónvarpsfréttum Stöðvar2, þar gildir talmálið.
Síðar í fréttinni talar viðmælandinn um gríðarlega mikinn massa ferðamanna. Réttara er að tala um fjölda ferðamanna.
Tillaga: Búist er við því að hlaupið í Múlakvísl verði það stærsta í átta ár, þó ekki stærra en hlaupið sem varð árið 2011 og hreif með sér brúna.
4.
Kaupendurnir sett sig í samband við einhverja af lykilstarfsmönnum WOW air.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Mjög oft kemur fyrir að í fréttum er talað um einhverja í merkingunni nokkra.
Í Málfarsbankanum eru ágætar leiðbeiningar:
Í staðinn fyrir orðið einhver fer oft betur t.d. á orðunum nokkur og fáeinir. Hann var í burtu í fáeina daga. (Síður: hann var í burtu í einhverja daga.) Þetta kostar nokkrar milljónir. Kostnaðurinn skipti milljónum. (Síður: þetta kostaði einhverjar milljónir.)
Einhver og nokkur eru bæði óákveðin fornöfn en talsverður munur er samt á merkingu þeirra eins og ofangreind dæmi sýna.
Tillaga: Kaupendurnir sett sig í samband við nokkra af lykilstarfsmönnum WOW Air.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.