Sýna frammistöðu, virkja neyðarstig og enn eru hlaup hlaupin
13.7.2019 | 22:39
Orðlof og annað
Fallbeygingin
[U]m helmingur allra skordýrategunda fer hnignandi. Ekki er það rétt. Þ.e.a.s.: náttúrufræðina vefengjum við ekki, en málvenja ræður því hvernig frá er sagt.
Um helmingi ... fer hnignandi. Mér, þér, ykkur, okkur, skordýrum, tegundum, siðferðinu eða veröldinni, eftir atvikum, fer hnignandi.
Málið á blaðsíðu 43 í Morgunblaðinu 13.7.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Námslán hjá Framtíðinni heyra fortíðinni til.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Mjög góð fyrirsögn. Leikur með orð. Fyrirtæki sem heitir Framtíðin er hætt að bjóða upp á námslán. Skemmtilega grípandi fyrirsögn.
Fréttinni fylgir mynd af Valgerði sem er í meginmáli fréttarinnar sögð heita Vala. Bæði orðin eru kvennöfn. Hið síðara getur þó verið stytting af hinu. Þetta getur valdið ruglingi. Betra að halda sig við annað hvort. Á vefsíðu fyrirtækisins er konan sögð heita Valgerður.
Í fréttinni er sagt að Framtíðin leggi áherslu á húsnæðislán og brúarlán. Engin skýring er gefin á því síðarnefnda. Gera má ráð fyrir að fyrirtækið láni til brúarsmíða og þá einkum Vegagerðinni.
Sagt er að húsnæðislán séu náttúrlega lán með veði Óvíst er hvað ónáttúruleg lán eru, giska á að það séu öll önnur lán en veðlán. Þó held ég að þetta náttúrulega sé uppfyllingarorð, hikorð. Þeim hefði blaðamaðurinn hiklaust átt að sleppa. Orðið náttúrulega hefur ekkert gildi í samhenginu.
Oftast tala viðmælendur blaðamanns í belg og biðu. Verkefnið er þá að koma orðunum í eðlilegt samhengi, ekki skrifa tafs og rugl sem veltur úr þeim.
Dæmi um talmál er þegar viðmælandinn segir
Við erum búin að bæta við nýjum
Eðlilegra er að skrifa Við höfum bætt við nýjum
Tillaga: Engin tillaga
2.
Hverfult jökullón í Kverkfjöllum horfið aftur.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Hvað þýðir lýsingarorðið hverfull? Jú, samkvæmt orðabókinni merkir það brigðull eða fallvaltur. Það merkir varla þann sem á það til að hverfa.
Orðið er einkum notað um mannfólk. Því er dálítið erfitt að tala um hverfult lón um leið og sagt er að ónefndur maður er hverfull, ekki alltaf á hann að treysta, hann getur brugðist enda brigðull.
Þó er oft sagt um snjóalög í fjallshlíðum að þau geti verið svikul, láti undan, skríði, þegar minnst varir. Jafnvel snjóbrýr geta svikið, látið undan, brostið. Af hverju er þá ekki hægt að segja að jökullónið sé hverfult?
Í fréttinni er rætt um svokallað Galtárlón í Efri-Hveradal í Kverfjöllum. Ég kannast ekki við nafnið, hlýtur að vera nýlegt. Að minnsta kosti skilaði leit á netinu fyrir árið 2000 engum árangri. Fyrsta sinn sem nafnið birtist er í skýrslu Rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar árið 2009.
Tómas Guðbjartsson, læknir og ferðamaður, sendi mér línu á Facebook og sagði:
Nú skortir mig upplýsingar. En nafnið er á ýmsum kortum af svæðinu, og hefur verið notað af jarðfræðingum og ferðafólki það best ég veit.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, sendir mér líka línu á Fb og segir:
Man þetta ekki vel og er erlendis og ekki heimildir við hendina en kollurinn austan við lónið var nefndur Göltur og lónið eftir honum. Þetta nafn er allavega komið í skýrslur Helga Helgi Torfasonar o.fl. um jarðhitann í Kverkfjöllum um síðustu aldamót.
Af orðum Magnúsar Tuma er líklegra að lónið heiti Galtarlón og samsinnti hann því. Ánægjulegt að geta leitað til vanra ferðamanna um svona álitamál.
Austan við Galtarlón, í sömu hæð, er annað lón sem oft hefur verið nefnt Gengissig og er á korti skráð í 1611 m hæð yfir sjávarmáli. Minnir að nafnið komi frá Ómari Ragnarssyni sem var einhvern tímann þarna þegar gengi krónunnar rokkaði upp og niður og vatnsborðið hagaði sér á sama hátt.
Tillaga: Engin tillaga
3.
Þar hafði par verið að hjóla er þau duttu bæði af hjólum sínum og kenndi konan eymsla í öxl eftir fallið.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Par dettur, það datt af hjólunum. Parið duttu ekki. Par er eintöluorð og sögnin að detta fylgir því og er þarna í framsöguhætti, eintölu í þátíð.
Sé hins vegar vikið að þeim sem voru á hjólunum horfir þetta öðru vísi við. Strákurinn og stelpan, karlinn og konan, duttu af hjólunum.
Síðar í fréttinni segir:
en þeir voru grunaðir um þjófnað eða hnupl.
Flestir hafa muninn á þjófnaði og hnupli á tilfinningunni
Á malid.is segir:
þjófur k. sá sem stelur, hnuplari, hvinn
Og:
Af þjófur er leidd so. þjófa ´stela, þjófkenna´, lo. þjófóttur og þjófskur, sbr. fær. tjóvskur, og no. þjófnaður k.
Samkvæmt sömu orðabók er hnupl smáþjófnaður.
Áhugavert er að rifja upp hvinn en margir kannast við nafnorðið sem leitt er af því, hvinnskur.
Á malid.is er þessi skemmtilegi fróðleikur:
hvinn h. (k.) ´hnuplari, þjófur; óþokki, svíðingur, nirfill´; hvinn h. ´þjófnaður, hnupl´; hvinnir k. ´hnuplari, þjófur; úlfsheiti´; hvinnskur l. ´ófrómur, þjófgefinn´; hvinnska kv. ´hnupl, stelvísi´; hvinnska s. ´hnupla, stela´.
Þessi orð eru við það að hverfa, fáir nota þau. Einna helst má sjá þau í gömlum bókum. Í æsku minni var stundum sagt að einhver væri hvinnskur og fékk maður það á tilfinninguna að það væri ekki eins slæmt og vera þjófóttur sem hugsanlega er rétt.
Tillaga: Engin tillaga
4.
Ég kem inn í strætóinn minn frekar snemma á leiðinni, þannig að yfirleitt eru nokkur auð sæti við hliðina á auðum sætum og venjulega sest ég þar.
Pistill á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 14.7.2019.
Athugasemd: Já, mikilvægt er að setjast í autt sæti, annað gengur varla upp. Sjá hér á eftir.
Ég þurfti að lesa pistilinn tvisvar. Skil ekki enn ofangreinda tilvitnun. Held að höfundurinn hefði mátt sleppa henni og jafnvel fleiru.
Stíllinn er skrýtinn, slakur. Höfundur ritar pistilinn sinn í fyrstu persónu eintölu enda er hann að lýsa upplifun sinni. Skyndilega fer hann að blanda mér í umræðuna eða lesandanum, skrifar í annarri persónu eintölu:
Þó er eitt sem ég á erfitt með; sætisvalið. Ef þú ætlar að aka í vinnuna getur þú aðeins valið eitt sæti bílstjórasætið.
Slæmt. Höfundurinn áttar sig ekki á nástöðu:
Ég er bjartsýnismanneskja. Þótt möguleikinn á að plássfrek manneskja
Höfundur fullyrðir að allir séu manneskjur sem er út af fyrir sig í lagi en er dálítið einhæft.
Svo er það þessi ágæta regla að setjast aðeins í autt sæti. Hún minnir á söguna um unga manninn sem sá meira en við hin, gat séð látið fólk var ófreskur, skyggn. Að því kom að kærastan bauð honum heim til að hitta fjölskyldu hennar. Honum var vel tekið og vísað til stofu en heimilisfólk var eitthvað að bauka í eldhúsinu. Í stofunni sá hann sér til skelfingar að setið var í hverju sæti og hann var vissi hreinlega ekki hverjir væru þessa heims eða annars. Hann ákvað því að nota útilokunaraðferðina, hún hafði áður gefist vel. Innst inni horni sat kona sem virtist fornari en aðrir og hann gekk rakleiðis þangað og settist í fangið á ömmu sem var sprelllifandi og í þokkabót alein í stofunni. Verra gat það nú ekki verið.
Tillaga: Engin tillaga
5.
Hann sýndi flotta frammistöðu.
Hádegisfréttir í Ríkisútvarpinu, íþróttir, 13.1.2019.
Athugasemd: Nei, þetta er ekki gott. Hvernig er hægt að sýna frammistöðu. Sá sem skrifaði fréttina hefur ábyggilega ætlað að segja að íþróttamaðurinn hafi staðið sig vel. Sé svo, er furðulegt að grípa til hjáorða í stað þess að tala hreint og beint.
Samkvæmt orðabókinni snýst orðið frammistaða um getu eða árangur, hvernig einhver stendur sig. Sé árangurinn góður er sagt eftir á að frammistaðan hafi verið góð.
Tillaga: Hann stóð sig vel.
6.
Neyðarstig virkjað á Keflavíkurflugvelli.
Fyrirsögn á visir.is og mbl.is.
Athugasemd: Ég get ómögulega skilið hvernig hægt er að virkja neyðarstig. Veit ekki einu sinni hvað neyðarstig er. Orðið er samt svo kunnugleg tugga að enginn gerir athugasemdir lengur. Við eigum að vita hvað tuggan þýðir (þetta er svona eins og með nýju föt keisarans, allir sjá að þau eru ekki til, feik svo maður slái nú um sig á útlensku).
Í fréttinni á Vísi stendur þetta:
Varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja segir í samtali við fréttastofu að óvissustig hafi verið virkjað á flugvellinum sem fljótlega hafi verið breytt í neyðarstig vegna þess hversu alvarleg tilkynningin var.
Þarna fór í verra. Óvissustig er að mínu mati afar gegnsætt orð og merkir að koma af stað óvissu, getur varla þýtt annað. Ólíklegt er þó að varðstjórinn hafi átt við það.
Í sannleika sagt er ómögulegt að átta sig á því í hverju stigin byggjast. Aldrei nokkurn tímann hafa þau verið skilgreind enda eflaust leyndarmál. Eftir óhóflega fréttaneyslu í nokkuð mörg ár get ég ímyndað mér að þau séu þessi, stigvaxandi og svo hnígandi:
- Stig
- Óvissustig
- Vissustig
- Óneyðarstig
- Neyðarstig
- Alneyðarstig
- Hamfarastig
- Vonleysisstig
- Afturköllunarstig
- Rólegheitastig
Í gamla daga voru engin stig nema þegar löggan og brunaliðið steig upp í bíla sína. Já, og stigin í glímunni ... Sigtryggur vann.
Hins vegar er neyðaráætlun kunnuglegt og gegnsætt orð og miklu betra en ofangreind stig. Hún þarf alls ekki að vera stiglaust.
Allir vita að hægt er að virkja ár, gufu, vind og jafnvel sjávarföll til rafmangsframleiðslu. Sagnorðið merkir samkvæmt orðabókinni að beisla afl eða orku. Eðlilegt er að það geti líka merkt að örva til vinnu eða aðgerða (samanber enska orðið to activate svo maður sletti nú aðeins úr hégómleikanum).
Stig getur meðal annars merkt áfangi, kafli, þrep eða álíka. Í neyðaráætlun geta verið nokkur stig eða kaflar eftir því hversu alvarleg tilvikin eru, samanber áðurnefnd tíu stig.
Varla er þó hægt að virkja stig svona eitt og sér. Stigsmunur er á áætlunum vegna bilunar í flugvél sem kemur inn til lendingar og flugvél sem þegar hefur brotlent.
Og svo þetta (eins og fréttamenn í sjónvarpinu segja svo næsta frétt komi ekki algjörlega á óvart): Blaða- og fréttamönnum ber engin skylda til að apa orðfæri upp eftir einhverjum skrifbésanum sem áttar sig ekki hvorki á máli né stíl. Fjölmiðlar eiga að birta fréttir á skýru máli, ekki stofnanamállýsku. Næst þegar sagt er að neyðarstig eða óvissustig hefi verið virkjuð er þörf á að spyrja um stig, og telja þau (Islande un point).
Tillaga: Neyðaráætlun virkjuð á Keflavíkurflugvelli vegna flugvélar með bilaðan lendingarbúnað.
7.
Hann hljóp þá einn heilt 400 metra hlaup
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Húrra, hann hljóp hlaup. Það heyrir líklega til stórtíðinda. Ríkisútvarpið er með málfarsráðunaut í fullu starfi en samt er svona borið á borð fyrir neytendur.
Ekki vantar fjölbreytnina. Síðar í fréttinni er hlaupið sagt vera hringur og fer betur á því. Lakara er þetta:
Það má því vel vera að Jones hafi átt sitt besta hlaup á ferlinum en fær ekkert upp úr krafsinu.
Betra er að segja hafði ekkert upp úr krafsinu. Er ekki ljóst að maðurinn hljóp á sig? Þar með er ekki sagt að hann hafi rekist á sig sjálfan. Má vera að hann hafi verið að elta drauma sína. En eins og fleiri stóð maðurinn með sjálfum sér. Svona má nú leira með íslenskt mál.
Tillaga: Hann hljóp þá einn allan 400 metra hringinn
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.