Aðkoma, elta draum, alvarleiki og samtal við hátalara
12.7.2019 | 10:14
Orðlof og annað
Opinskjalda
Bréfritari gagnrýnir, sem margur annar, einhæfni í orðavali manna, fátæklegt mál, þar sem hver étur eftir öðrum ("tuggur").
Dæmi: "út í hróahött" (= rugl og vitleysa), "vísa á bug" (= telja ósatt), "og þessi sífellda opinskjalda, þegar allir koma öllum í opna skjöldu (= koma að óvörum). Það er eins og vanti tilfinnanlega orðaforða".
[Innskot umsjónarmanns: Eitthvert sinn var kveðið:
Úti í Firði í fjósinu köldu
átti Finnur að mjólka með Öldu,
en hann gerði ekki gagn,
var með gaspur og ragn
og gekk bara fram fyrir Skjöldu.]
Íslenskt mál, 784 þáttur, umsjónarmaður Gísli Jónsson, Morgunblaðið 18.2.1995.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Loka aðkomu að Sauðleysuvatni vegna slæms ástands vegar.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Af hverju þarf að tala um aðkomu? Vegurinn eða slóðinn liggur að Sauðleysuvatni. Hann er illfær og honum hefur því verið lokað. Enn er hægt að ganga að vatninu og því hefur aðkomunni ekki að öllu leyti verið lokað.
Orðalagið í fyrirsögninni er dæmi um hjáorðatilhneigingu í fjölmiðlum. Er eitthvað erfitt að skrifa hreint og beint í stað þess að skrifa hringinn í kringum staðreyndir?
Tillaga: Vegurinn að Sauðleysuvatni er slæmur og hefur verið lokað.
2.
Hann ákvað að elta draum sem kviknaði fyrir allmörgum árum og ferðast nú umhverfis Ísland á traktor, með húsvagn í eftirdragi.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Er ekki betra að láta drauma sína rætast? Sá sem eltir drauma sína er alltaf á eftir, nær þeim aldrei. Raunar er þetta enskt orðalag, follow your dreams.
Spyrja má hvort draumar kvikni eða verði til á annan hátt? Efast um að draumurinn frá því síðustu nótt hafi kviknað. Mig dreymdi hins vegar ...
Oft er vonlaust að þýða beint úr ensku yfir á íslensku. Mörg dæmi eru um hraklegar þýðingar. Fólk sem hefur alist upp við bóklestur hefur öðlast orðaforða sem nýtist vel í blaðamennsku. Hinir gera meinlegar villur eins og þessa.
Tillaga: Í nokkur ár hefur hann átt sér draum sem nú hefur ræst. Hann ferðast nú umhverfis Ísland á traktor, með húsvagn í eftirdragi.
3.
Þá minntist hann á alvarleika þess að aldrei hefðu fleiri blaðamenn verið drepnir en í fyrra.
Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 12.7.2019.
Athugasemd: Þetta er ágætt dæmi um nafnorðavæðingu tungumálsins. Málsgreinin er hnoð. Enginn talar um alvarleika einhvers. Mörgum þykir samt margt vera alvarlegt.
Blaðamenn eru myrtir í tugatali. Lesendur átta sig á því og jafnvel þó að alvarleikinn sé ekki nefndur. Hann liggur þó í loftinu.
Tillaga: Hann nefndi að aldrei hefðu fleiri blaðamenn verið drepnir en í fyrra.
4.
Munu notendur með hátalara frá Amazon geta spurt um einkenni og fengið greiningu.
Seinni forystugreinin í Morgunblaðinu 12.7.2019.
Athugasemd: Hvers konar hátalarar eru þetta? Líklega einhver konar galdrahátalarar.
Hátalari er tæki sem varpar hljóði í þeim styrk sem notandinn vill. Annað gerir hann ekki. Gagnslaust er að standa fyrir framan hátalara og spyrja rétt eins og hann væri hljóðnemi.
Er til of mikils mælst að ritstjóri Moggans haldi áfram að skrifa forystugreinar en úthýsi verkefninu ekki til leigubílstjóra á BSR (með fullri virðingu fyrir honum).
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Ekki liggur fyrir hvar börnin smituðust af sýkingunni.
Frétt kl. 16 á Bylgjunni 11.7.2019.
Athugasemd: Meðan ég fæ ekki betri skýringu finnst mér ljóst að sýking verður til vegna einhvers konar smits en ekki öfugt.
Talað er um meðgöngutíma sýkingar, það er tíminn frá smiti og þar til sjúkdómseinkenna verður vart. Stundum er hann skammur, oft langur.
Á Vísindavefnum segir:
Kvef er hvimleiður en tiltölulega meinlaus veirusjúkdómur. Vitað er um meira en tvö hundruð veirur sem valda kvefi. Veirurnar berast á milli manna með úðasmiti, það er að segja við hósta eða hnerra.
Einnig geta veirurnar borist með snertismiti ef þær berast á hendur og þaðan í augu eða nef. [ ]
Einstaklingur getur borið smit frá því daginn áður en einkennin koma fram og í 1-3 daga til viðbótar. Að meðaltali gengur sjúkdómurinn yfir á 7-10 dögum.
Á vef Landlæknisembættisins er listi yfir smitsjúkdóma í stafrófsröð.
Á þessum vef Háskóla Íslands eru fróðlegar upplýsingar um sýkingar:
Til eru yfir 2000 mismunandi salmonellur og nokkur hundruð þeirra geta valdið sýkingum í mönnum. Salmonellur eru bakteríur sem finnast mjög víða í náttúrunni og hafa þær verið mjög vaxandi vandamál á undanförnum árum og áratugum. Þessar bakteríur valda ýmsum sjúkdómum í mönnum og eru þeir þekktustu nefndir taugaveiki, taugaveikibróðir og músataugaveiki.
Lang algengasta salmonellusýking er sýking í meltingarfærum sem stafar af því að matvæli voru menguð með salmonellum og maturinn ekki eldaður nægjanlega til að drepa bakteríurnar. Þetta hefur verið hratt vaxandi vandamál og nú er svo komið að í sumum nálægum löndum eru nær allir kjúklingar salmonellumengaðir.
Sjúklingurinn veikist 8-48 klst. eftir að hafa neitt mengaðrar fæðu, með sótthita, ógleði og uppköstum, samdráttarverkjum í kvið og niðurgangi sem getur verið blóðugur. Þessi veikindi standa lengur en venjuleg matareitrun, eða í 3-5 daga. Allan þann tíma og stundum lengur eru salmonellur í saur sjúklingsins. Sjaldnast er þörf á nokkurri meðferð og yfirleitt eru engin eftirköst eða fylgikvillar.
Ung börn og sjúklingar með aðra sjúkdóma geta þó orðið alvarlega veikir og þá er hægt að meðhöndla með sýklalyfjum. Einstaka sinnum fá sjúklingarnir sýkingar í bein eða liði.
Smit og sýkingar eru alvarlegt mál og ástæða til að fjölmiðlar segi skilmerkilega frá og blaðamenn leiti upplýsinga í stað þess að treysta algjörlega á þekkingu sína.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.