Barn no. 2, rusl ryður sér til rúms og kasta handklæði
11.7.2019 | 11:55
Orðlof og annað
Orðaforðinn
Ef orðaforðinn minnkar þá fækkar tilfinningunum sem þú getur lýst, atburðunum sem þú getur greint frá og hlutunum sem þú getur bent á. Ekki aðeins verður skilningurinn takmarkaðri heldur einnig reynsluheimurinn.
Tungumálið eflir manninn. Í hvert sinn sem hann tapar skilningi, tapar hann hluta af sjálfum sér.
Sheri S. Tepper, Pest af Angels - fengi af vefnum kennari.is.
Hugsunin er góð en betur fer á því að segja:
Minnki orðaforðinn fækkar tilfinningunum sem þú getur lýst ...
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Eins og DV greindi frá í gærmorgun hefur Ásgeir Bachman viðurkennt með yfirlýsingu að þjófnaður hafi átt sér stað í verslun Bauhaus.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hjáorðavæðing fjölmiðla er mikil. Blaðamanni dettur ekki í hug að skrifa að stolið hafi verið úr versluninni.
Tillaga: Eins og DV greindi frá í gærmorgun hefur Ásgeir Bachman lýst því yfir að stolið hafi verið úr verslun Bauhaus.
2.
Hann fékk standandi lófaklapp frá öllum salnum og dómurunum.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Standandi lófatak er ekki til. Á ensku er talað um standing applause sem merkir að áhorfendur rísa úr sætum sínum og klappa einhverjum lof í lófa.
Ein mesta hætta sem stafar að íslensku eru blaðamenn sem kunna ensku en eru slakir í íslensku. Afleiðingin er setning eins og hér að ofan.
Tillaga: Áhorfendur og dómarar risu á fætur og klöppuðu fyrir honum.
3.
Fannar og Vala eiga von á barni no. 2.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Svona er ekki hægt að segja á íslensku. No er ensk skammstöfun fyrir number, númer. Íslenska skammstöfunin er nr.. Má vera að í talmáli megi segja að haugsugan hafi losað farm nr. 2 eða vörubíllinn hafi komið með skítahlass nr. 2. Hvort tveggja er þó ferlega vitlaust því auðveldast er að segja og skrifa í annað skipti.
Stílleysi margra blaða- og fréttmanna er hræðilegt. Engin með fullu viti segir barn vera no. 2. Svona rugl er á borð við að segja að fólk éti, fólk drepist, börnum sé gotið eða kastað.
Tillaga: Fannar og Vala eiga von á öðru barni.
4.
62 ára karlmaður hefur verið dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Um nær allan heim forðast blaða- og fréttamenn að byrja setningu á tölustöfum. Slíkt á ekki við. Tölustafir og bókstafir hafa gjörólíka merkingu. Þar af leiðandi getur texti ekki byrjað á tölustaf, það getur valdið ruglingi og er í þokkabót afar ljótt.
Einnig er skrýtið að orða það þannig að maðurinn hafi verið dæmdur þegar ljóst er að hann var dæmdur.
Tillaga: Karlmaður var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í einn mánuð.
5.
Rusl hefur rutt sér til rúms í Rómarborg.
Frétt kl. 22 á ríkissjónvarpinu 10.7.2019.
Athugasemd: Þetta er út í hött. Orðalagið er vel skýrt í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson og þar er þetta meðal annars:
Ryðja sér til rúms: breiðast út hljóta almenna viðurkenningu; láta til sín taka.
Rusl ryður sér ekki til rúms. Sá sem svona skrifar skilur hvorki orðtakið né uppruna þess.
Tillaga: Rusl hefur safnast fyrir á götum Rómarborgar.
6.
Tala torfhúsa ekki þekkt.
Millifyrirsögn á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 11.7.2019
Athugasemd: Hvers vegna notar blaðamaðurinn ekki nafnorðið fjöldi? Séu torfhús talin kemur í ljós hversu mörg þau eru. Séu húsin tíu er það talan.
Hann segir í fréttinni:
Við þekkjum ekki tölu þeirra og vitum ekki nákvæmlega hvar þau eru eða hvernig væri hægt að nýta þau
Hér er hringsólað framhjá því sem mestu máli skiptir, það er að segja frá á einfaldan hátt. Fjöldinn er aðalatriðið.
Tillaga: Fjöldi torfhúsa ekki þekktur.
7.
Fyrir skömmu sendi heilbrigðiseftirlitið sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með forræði á svæðinu, bréf þar sem farið var fram á að hafist yrði þegar í stað handa við hreinsun á svæðinu.
Frétt á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 11.7.2019
Athugasemd: Nástaða er hvimleið, sérstaklega fyrir lesendur. Í málsgreininni kemur orðið svæði fyrir þrisvar sinnum. Varla er hægt að amast við nafni embættisins. Hin skiptin eru viðbót. Blaðamaðurinn á að kunna að skrifa sig framhjá svona vitleysu.
Vafasamt er að segja Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fari með forræði á svæðinu. Á vefnum syslumenn.is segir:
Sýslumenn fara með framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, hver í sínu umdæmi, eftir því sem lög og reglugerðir eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um.
Í orðabókinni segir um forræði:
Umsjón, ábyrgð, ákvörðunarvald, stjórn, yfirráð, umráð, forysta, völd.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fer ekki með forræði á einu eða neinu, hvorki á bökkum Elliðavatns né annars staðar. Störf embættisins eru á allt annan veg.
Tillaga: Fyrir skömmu sendi heilbrigðis- eftirlitið sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu bréf þar sem óskað var eftir leyfi til að hefja hreinsun.
8.
Allt of hratt að mati Armstrong, sem taldi að farið myndi yfirskjóta lendingarstaðinn um nokkra kílómetra.
Frétt á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 11.7.2019
Athugasemd: Á ensku er hugtakið to overshoot alþekkt, hvort heldur er í einu eða tveimur orðum. Það merkir að missa af lendingarstað, fljúga yfir hann. Á vefsíðu sem heitir Aviation segir:
To pass beyond the limit of the runway or landing field when trying to land.
Má vera að sambærilegt orð sé ekki til á íslensku en fráleitt finnst mér að búa til orðið yfirskjóta. Það bendir fyrst og fremst til byssuskots sem fer yfir markið, ekki þegar flugfar missir fyrir mistök af lendingarstaðnum.
Í þessu tilviki virtist Amstrong sem tunglfarið myndi ekki lenda á réttum stað heldur nokkrum kílómetrum frá honum. Málsgreinin segir það eitt að tunglfarið hafi virst fljúga yfir lendingarstaðinn í nokkurra kílómetra hæð. Það er þó ekki reyndin.
Laga þyrfti orðalag á fleiri stöðum í greininni sem þó er frekar vel skrifuð og upplýsandi. Til dæmis er orðalagið þáverandi ótti skrýtið. Einnig að Appolló áætlunin hafi verið skrínlögð.
Tillaga: Allt of hratt að mati Armstrong, sem taldi að farið myndi lenda nokkrum kílómetrum frá lendingarstaðnum.
9.
Kjos kastar handklæðinu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin fjallar ekki um handklæði. Blaðamaðurinn brúkar enskt orðtak Throw in the towel. Hann telur sig vera að segja að náungi sem heitir Kjos sér hættur störfum, búinn að segja upp.
Í Urban Dictionary segir:
This phrase comes from boxing. When a boxer is too beat up to continue, his coach throws a towel into the ring to signal that the fight is over.
Og:
To give up or surrender. Probably related in origin to throwing up the white flag, which also indicates surrender.
Þetta orðalag eða orðtak er ekki til á íslensku. Um það veit blaðamaðurinn ekki enda les enginn á Morgunblaðinu yfir það sem nýliðar skrifa og leiðbeinir. Nóg er samt af frábærum og vel skrifandi blaðamönnum sem hljóta að geta tekið verkefnið að sér. Hvernig eiga nýliðar að læra þegar enginn leiðbeinir? Hvaða lærdómur felst í því að birta gagnrýnislaust fyrsta uppkast?
Tillaga: Kjos hættir.
10.
Framtak hinna snöllu ættingja okkar í Færeyjum skilaði því tilætluðum árangri
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Með réttu má halda því fram að Færeyingar séu snjallir, svona almennt. Hins vegar eru þeir varla ættingjar Íslendinga þó einhverjir kunni að eiga ættingja þar.
Á hátíðlegum stundum er oft komist svo að orði að Norðurlandabúar séu frændur okkar. Fæstir trúa því bókstaflega nema hugsanlega blaðamaðurinn hjá DV sem tekur þetta svo alvarleg að hann heldur að hin meinta frændsemi þýði að Færeyingar séu ættingjar Íslendinga.
Stafsetningarvilla er í þriðja orð málsgreinarinnar.
Tillaga: Framtak snjallra Færeyinga skilaði því tilætluðum árangri
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.