Stjórnarandstaða bíður eftir seppuku ríkisstjórnarinnar

Svo virðist sem furðuleg pattstaða sé komin upp á Alþingi. Hún er í stuttu máli þessi: Miðflokkurinn vill ræða orkupakka þrjú og helst rökræða við stjórnarliða um hann en enginn nennir því lengur.

Samfylkingin, Viðreisn og Píratar eru fylgjandi pakkanum sækjast ekkert eftir því að hann verði samþykkur. Þeir bíða bara eftir stór málinu, að ríkisstjórnarflokkarnir klippi á málþóf Miðflokksins. Þá myndi gefast prýðilegt tækifæri til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að leyfa ekki lýðræðislegar umræður.

Ríkisstjórnarflokkarnir vilja samþykkja orkupakkann en þeir geta ekki klippt á málþófið vegna þess að þeir vilja ekki gefa stjórnarandstöðunni tækifæri til að kalla þá ólýðræðislega og annað þaðan af verra.

Hvernig á þá að taka á málinu?

Það er ekki hægt. Þetta er eins og á taflborði þegar allir leikir eru slæmir, hafa í för með sér tap. Á meðan líður tíminn.

Eini þingmaður stjórnarandstöðunnar sem hefur gagnrýnt málþóf Miðflokkinn er Inga Sæland úr Flokki fólksins, og það gerði hún með hávaða og látum, en er þó eins og þeir Miðflokksmenn á móti pakkanum. Inga kom reynslulaus inn í stjórnmálin en hefur tekið ótrúlegum framförum sem þó hafa kostað mikið, svita og tár en varla blóð.

Um daginn sendi stjórnarandstaða skilaboð til hennar og bað hana um að vera ekki að tjá sig um málþófið því beðið væri eftir „seppuku“ ríkisstjórnarinnar, það er að hún neyti meirihluta síns og stöðvi málþófið. Þetta skilur Inga og veður nú ekki upp á dekk nema til að gagnrýna hæstvirtan forseta Alþingis um allt annað.

Smám saman missir almenningur áhuga á orkupakkanum. Sólin skín í heiði og allt er gott. Heyskapur er að hafinn og sauðfé og túrhestar arka á fjall.

Eftir sitja þingmenn Miðflokksins og endurtaka ræður sínar og enginn nennir að rökræða við þá. Þetta er svona eins og að ætla sér að fara á kvennafar á tómu öldurhúsi.

 

Í Wikipediu segir:

Seppuku eða harakiri er virðuleg sjálfsmorðsaðferð sem samúræjar notuðu við viss skilyrði, henni mætti líkja við helgisið. Hún felst í því að kviðrista sjálfan sig fyrir framan vitni, jafnvel er annar samúræji honum til aðstoðar sem afhöfðar hann örskotsstundu eftir að hann hefur kviðrist sig. Í Japan er siður fyrir því að menn skrifi örstutt ljóð (haiku) fyrir dauðan, margir samúræjar skrifuðu slíkt áður en þeir tóku líf sitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband