Umfang og stig meiðsla, hótelbyggingar opna og relevant fólk
18.5.2019 | 19:00
Orðlof og annað
Baggamunur
Eitthvað ríður baggamuninn: Eitthvað ræður úrslitum, eitthvað (eitt) hefur úrslitaáhrif eða mikla þýðingu.
Orðatiltækið er kunnugt frá fyrri hluta 19. aldar: Eitthvað ríður baggamun.
Líkingin er sennilega af því dregin er baggar voru fluttir á hestum og setið þannig á milli bagganna að jafnþungt var hvorum megin á hestinum enda er kunnugt af brigðið eitthvað ríður af baggamuninn.
Einnig er hugsanlegt að líkingin sé dregin af því er eitthvað var bundið við léttari baggann, samanber afbrigðið rétta við baggamuninn og orðasambandið jafna baggamun á klárnum.
Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Umfang og stig meiðsla var þá ekki ljóst en eitthvað um beinbrot og skrámur.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað skyldi vera stig meiðsla eða umfang meiðsla? Hvorugt er gott. Sama er með orðalagið eitthvað um beinbrot. Þetta er illa skrifað og ónákvæmt, jaðrar við bull.
Þetta er ekki góð umfjöllun hjá blaðamönnum á Vísi jafnvel þó þeir hafi fengið orðalagið frá Landsbjörg. Þeim ber að skrifa góðan texta, ekki að breiða út vitleysur. Mestöll fréttin er hnoð, stíllaus og óáhugaverð.
Í fréttinni er talað um viðbragðsaðila. Enginn veit hverjir bera þetta heiti enda fráleitt opinbert heiti á einum eða neinum. Giska má á að það séu akandi, gangandi, hjólandi og ríðandi vegfaraendur, lögregla, sjúkraliðar, björgunarsveitir, landhelgisgæslan, íbúar og bændur í nágrenninu. Nær allir sem að slysi koma. Af þessu leiðir að orðið er merkingarleysa og gerir fréttina ónákvæma.
Hvaðan kemur þetta orð, viðbragðsaðili. Má vera að blaðamenn þekki enska orðalagið response team og þýði það sem viðbragðsaðili sem er lélegur kostur.
Á vef Wikipediu segir:
An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident
Algjör óþarfi að kalla björgunarsveit annað er því nafni eða öðru sem það ber. Sama er með lögreglu, slökkvilið, landhelgisgæslu og sjúkraflutningamenn.
Á malid.is segir:
Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.
T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en ábyrgðaraðili, dreifingaraðili, eignaraðili, hönnunaraðili, innheimtuaðili, söluaðili, útgáfuaðili.
Í upptalninguna vantar letiorðið viðbragðsaðili sem má alveg hverfa úr málinu vegna þess að auðvelt er að nefna þá sem koma að óhöppum, slysum eða náttúruhamförum sínum réttu nöfnum.
Tillaga: Ekki er enn vitað hversu alvarleg meiðslin eru.
2.
33 voru í rútunni er slysið var, en farþegarnir 32 voru allir kínverskir ferðamenn.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Af og til sjást fréttir með setningum sem byrja á tölustöfum en það er mikill ósiður og þekkist óvíða.
Nokkuð er um nástöðu í fréttinni. Hún gæti verið hnitmiðaðri ef blaðamaðurinn hefði sleppt óþarfa málalengingum og endurtekningum. Gallinn við margar fréttir eru of mörg orð sem gera þær illskiljanlegar Dæmi:
Allri vettvangsvinnu á slysstað var lokið í gær og í dag mun lögregla ræða við farþega og bílstjóra.
Hver er hér munurinn á vettvangi og slysstað? Enginn. Þetta hefði því mátt orða svona:
Vinnu lauk á slysstað í gær. Í dag mun lögregla ræða við farþega og bílstjóra.
Í fréttinni segir að flestir farþeganna enduðu á Hellu í nótt . Fer ekki betur á því að segja að þeir hafi gist á Hellu í nótt?
Tvisvar í fréttinni er sagt að allir farþegarnir hafi verið kínverskir ferðamenn. Einu sinni dugar.
Í upphafi fréttarinnar er sagt að rútan hafi farið út af Suðurlandsvegi. Af myndum má samt ráða að hún hafi oltið.
Tillaga: Þrjátíu og tveir kínverskir farþegar voru í rútunni og auk bílstjórans.
3.
Sjö nýjar hótelbyggingar opna á næsta ári í Reykjavík og tólf á teikniborðinu.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hús opna ekki, þau eru opnuð. Þetta er með algengustu villum í fjölmiðlum.
Blaðamaðurinn sem þetta skrifar er einbeittur í brotavilja sínum. Hugsanlega veit hann ekki betur. Í upphafi fréttarinnar skrifar hann aldeilis grandalaus:
Búist er við að 800 ný hótelherbergi opni í Reykjavík á næsta ári. [ ] Gert er ráð fyrir að Marriott hótel opni í byrjun næsta árs.
Þarna heggur blaðamaðurinn í sama knérunn án nokkurrar eftirsjár og hefur ekki hugmynd um að hvorki gömul né ný herbergi opna heldur eru þau opnuð og þaðan af síður hefur Marriot hótel neina getu í þá veru.
Tillaga: Sjö ný hótel verða opnuð í Reykjavík á næsta og tólf á teikniborðinu.
4.
Exsklúta ákveðna hópa, targeta, sweet spot, lonsa, actually, funnel, relevant fólk, retargetað, event, teaser efni, interests, lookalikemengi ...
Viðtalsþáttur á Facebook á síðu Sahara.
Athugasemd: Hef í nokkurn tíma haft áhuga á auglýsingum og kynningum á Facebook og notið til þess aðstoðar manns sem er nokkuð fær í þessum efnum.
Ég rakst fyrir nokkru á viðtalsþátt (e. podcast) á Facebook. Tveir afar skýrmæltir ungir starfsmenn segja frá fyrirtækinu sínu og gera það nokkuð vel. Hins vegar tók ég fljótlega eftir því að þau slettu mikið eins og lesa má hér að ofan. Fyrir vikið dró fljótlega úr áhuga mínum og ég lauk ekki við að hlusta á þáttinn heldur gerði þessa athugasemd:
Furðulegt hvað þetta ágæta fólk á erfitt með að tjá sig á íslensku án þess að sletta enskum orðum og orðasamböndum.
Þrem vikum síðar sá maður nokkur ástæðu til að svara mér. Hann sagði:
Það má vera að þér finnst þetta slæmt, en fyrir þá sem eru að vinna með Facebook auglýsingar er þetta jákvætt. Því að ef öll þessi orð væru íslensku yrði töluvert erfiðara að skilja um hvað þau eru að ræða og myndi rýra gildi umræðunnar fyrir þá sem eru að vinna við þessi sömu hugtök á ensku.
Sem sagt, ef nógu mikið er slett þá skilja fleiri umræðuna. Er það jákvætt? Auðvitað stenst þetta enga skoðun. Slettur eru óþrif í málinu. Annað hvort á að tala íslensku eða eitthvað annað tungumál. Ég skil hvað maðurinn á við en í orðum hans felst uppgjöf, íslenskan hentar ekki. Of margir eru á þessari skoðun.
Þetta er nú meðal annars ástæðan fyrir því að ég er ekki bjartsýnn á framtíð íslenskunnar í höndum ungu kynslóðarinnar, sérstaklega þeirra sem starfa í tölvugeiranum.
Þess má geta hér í lokin að engin umræða var um þennan viðtalsþátt á Fb síðunni.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sem sagt, ef nógu mikið er slett þá skilja fleiri umræðuna. Er það jákvætt? Auðvitað stenst þetta enga skoðun. Slettur eru óþrif í málinu. Annað hvort á að tala íslensku eða eitthvað annað tungumál. Ég skil hvað maðurinn á við en í orðum hans felst uppgjöf, íslenskan hentar ekki. Of margir eru á þessari skoðun.
Hvað á smámunasemi að vera mikil varðandi íslenskt mál og stafsetningu?
Mér finnst réttara að segja ef nógu miklu er slett í fyrstu málsgreininni. Annaðhvort er eitt orð ef eða fer á eftir. Ég hefði sagt eitthvert annað tungumál.
En eru þetta ekki bara aukaatriði sem skipta engu máli?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 18.5.2019 kl. 21:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.