Hlaupa hlaup, viðkomandi og upphæðir eða fjárhæðir

Orðlof og annað

Stuttur texti er skýr

Texti er hafður einfaldur til að verða spennandi. Fréttatexti á að vera stuttur, skýr og spennandi. Stuttur texti er skýr. Skýr texti er spennandi. 

Fréttastíll er bestur stuttaralegur. Þú þarft að vera góður í íslensku og skilja málfræði og setningafræði.

Fréttaskrif eftir Jónas Kristjánsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… er að fara ásamt sjö öðrum Íslendingum til Annecy í Frakklandi að hlaupa fjallahlaup.“

„Kynningarblað“ (Fólk, Heilsa) í Fréttablaðinu 30.4.2019.             

Athugasemd: Hlaupa hlaup ... Til þess að skrifa sig framhjá kjánalegu orðalagi þarf að sjá vitleysuna og skilja hana. Í öðru lagi þarf að lesa textann yfir og í þriðja lagi þarf að … tja, vera vakandi, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.

Maðurinn sem segir frá er að fara í fjallahlaup, hann ætlar að hlaupa um fjöll.

Í næstu málsgrein á eftir tilvitnuninni hér að ofan segir:

… stefnir á 115 kílómetrana sem felur í sér um 7.000 metra hækkun, svipað og að hlaupa upp rúmlega 12 Esjur í röð.

Aftur er orðalagið hið sama, hlaupa hlaupið og vegalengdin „felur í sér“. Í staðinn hefði hann getað sleppt þessum þrem orðum og bætt við sögninni að vera, er: 

… stefnir á 115 kílómetrana sem er um 7.000 metra hækkun, svipað og að hlaupa upp rúmlega 12 Esjur í röð.

Höfundurinn er ekki vel skrifandi. Hann endurtekur „hlaupa fjallahlaup“ strax í upphafi textans. Annars staðar segir að viðmælandi hafi verið „viðloðandi“ hlaup lengi. Átt er við að hann hafi lengi stundað hlaup.

Þetta er þó ekkert einsdæmi í fjölmiðlum. Þeir segja frá fólki sem „gengur kröfugöngur“, þó er því aldrei haldið fram að fólk „labbi kröfugöngur“ og má þakka fyrir það. Þó hefur ekki sést að einhverjir syndi sund sem er líka þakkarvert.

Loks má nefna þetta úr fréttinni:

gerir HOKA fjölbreytta línu af hlaupaskóm fyrir götu- og utan- vegahlaup.

Sem sagt verksmiðjan gerir skó en framleiðir þá ekki. Skrýtin breyting á merkingu orðs.

Tillaga: … er að fara til Annecy í Frakklandi í fjallahlaup með sjö öðrum Íslendingum.

2.

„Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um einstakling berjandi í hús með málmhlut í miðborginni. Viðkomandi fannst ekki.“

Frétt á visir.is.             

Athugasemd: Alltaf fyndið að lesa löggufréttir og þá helst á milli línanna. Líklega er þetta orð viðkomandi búið að vinna sér þegnrétt í málinu en það fékk hér hæli úr dönsku. 

Hér áður fyrr þótti fínt að nota það, svo var eitrað fyrir því og það kallað dönsk sletta. Núna er öllum sama nema okkur í kverúlantaliðinu, við notuð það ekki, slíkt var uppeldið.

Hins vegar er svo skrýtið að yfirleitt er hægt að sleppa orðinu og nota hann eða hún í staðinn eða álíka eftir samhenginu.

Hvað þýðir viðkomandi. Á vefnum er dönsk synonymbog og þar stendur:

Vedkommende betyder omtrent det samme som Pågældende. Se alle synonymer nedenfor. Synonymer; pågældende, førnævnte, hin, omtalte.

Þetta er nú gott að vita. Hins vegar hefur maður doltlar áhyggjur af honum viðkomandi sem ekki fannst. Í fréttinni segir þó frá viðkomandi og hafði viðkomandi sparkað í bíla í Hafnarfirði:

Við afskipti lögreglu kom í ljós að viðkomandi var mjög ölvaður og vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Viðkomandi var settur í geymslu sökum ástands, ekki vegna eða fyrir, sem er gott. Og ekki er getið um að málið þurfi að rannsaka („settur í fangaklefa fyrir rannsókn málsins“ eins og oft er sagt).

Í löggufréttum er maður ýmist nefndur manneskja, einstaklingur eða viðkomandi. Alltaf að tala kurteislega um fólk sem skemmir eigur annarra, stelur eða brýtur af sér á annan hátt. Ekki má kalla það lögbrjóta, bófa, glæpamenn, skemmdarskrín, leiðindaseggi eða álíka. 

Tillaga: Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um mann sem barði í hús með málmhlut í miðborginni. Hann fannst ekki.

3.

Cross­fit-fólk tætti upp Esj­una.

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Ekki líst mér á’ða, maður, að verið sé að tæta Esju upp. Eru það ekki umhverfisspjöll?

Af fréttinni má þó ráða að fólk er í kapphlaupi upp undir Þverfellshorn í Esju. Sögnin að tæta er skemmtileg. Hún getur þýtt að rífa eitthvað í sundur eins og segir á malid.is: 

tæta, †tœta s. ‘rífa, reyta; dreifa, tvístra; tæja ull’, […] Af sama toga (og sagnleidd) eru no. tæta kv. ‘pjatla, tætla’, tæti h. ‘ögn,…’, sbr. nno. tøte ‘spunaefni’, og ótæti, tætingur k. ‘ullarvinna, tvístringur’ og tæsla kv. ‘ullartæting’. Sjá (2) og tætildislegur og tætla.

Orðabókin getur þó ekki um unga fólkið sem hér áður fyrr tætti á bílum um götur bæja og borgar. Þá tættu vélarmiklir bílar upp malbikið, að minnsta kosti í óeiginlegri merkingu. Rétt eins og nú tæta hlauparar upp Esju og hverfa í rykmekki.

Svo eru til vélar sem tæta, jarðvinnustæki sem tætir upp mold fyrir ræktun, í bókstaflegri merkingu.

Tillaga: Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um mann sem barði í hús með málmhlut í miðborginni. Hann fannst ekki.

4.

Fleiri vinningar og hærri upphæðir en nokkru sinni fyrr.

Auglýsing í ýmsum fjölmiðlum.              

Athugasemd: Þannig freistar Happdrætti DAS landsmanna. Líklega er það bara gott, við styrkjum góðan málstað og getum hugsanlega unnið nokkurn pening.

Þegar ég var strákur sagðist ég hafa fengið stóra fjárhæð fyrir að bera út Vísi. Eldri bróðir minn sem var með ár og reynslu umfram mig vísaði þá til forsætisráðherrans Bjarna Benediktssonar eldri sem hafði einhvern tímann sagt: 

Peningar eru í fjárhæðum en drottinn allsherjar í upphæðum.

Síðan hef ég talað um fjárhæðir af því að mér þótti þetta bæði rökrétt og snjallt.

Í textanum lofar Happdrætti DAS að peningum og því er ekki nema eðlilegt að textinn sé þá eins og í tillögunni hér fyrir neðan.

Mér finnst það einnig fara betur að nota atviksorðið áður en orðalagið nokkru sinni fyrr, en ekki er víst að allir séu því sammála.

Tillaga: Fleiri vinningar og hærri fjárhæðir en áður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Ég tel í grunninn rangt að agnúast út í málfar fólks með þessum hætti, sérstaklega ef það er gert út frá afar hæpnum forsendum eða jafnvel röngum. Það er til dæmis ekkert rangt við það að tala um upphæð. Getur ekki orðið fjárhæð einnig misskilist? Einhver gæti haldið að þar væri átt við sauðfjárhæð.

Að dæma fólk ekki vel skrifandi finnst mér ekki fallegt. Nær væri að fagna því að enn er töluð íslenska í landinu.

Sveinn R. Pálsson, 6.5.2019 kl. 14:37

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Sveinn,

Bestu þakkir fyrir innlitið. Átta mig ekki alveg á því hvort þú teljir það rangt gagnrýna málfar í fjölmiðlum svona almennt eða hvort þú sért að benda á eitthvað ákveðið sem ég hef skrifað um.

Get alveg samþykkt að það sé ekki fallegt að segja fólk illa skrifandi, það er beinlínis ljótt. Tel það þó réttlætanlegt sé um blaðamann að ræða. Þeir eiga einfaldlega að vera vel ritfærir sem og textagerðarmenn á auglýsingastofum og aðrir sem birta texta sinn opinberlega.

Af fjölda dæma sem birt hafa verið í þessu bloggi má sjá að víða er pottur brotinn hjá fjölmiðlum. Þegar enginn bendir á misfellurnar verða þær smám saman viðurkenndar sem rétt mál. Hins vegar þarf eflaust meiri bóg en mig til að fá blaðamenn til að skrifa betur.

Svo er það allt annað að ég er enginn dómari eða málfarslögga, skrifa af frá eigin hjarta. Sumt af því sem ég fjalla um kann að orka tvímælis og annað má vissulega gagnrýna. Held þó að mest allt sé hafið yfir vafa.

Nei, það er ekkert að því að tala um upphæð. Fjárhæð er þó skýrara orð þegar um peninga er fjallað. Hef aldrei heyrt talað um „sauðfjárhæð“ og get ekki ímyndað mér að nokkur maður missi áttir vegna þess orðs.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.5.2019 kl. 15:47

3 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Þakka þér góðar undirtektir. Ég hafði áhyggjur af því að mín athugasemd væri full harkaleg. Málið þarf að vera lifandi og skemmtilegt að mínu mati. Sérstaklega held ég að það sé mikilvægt fyrir unga fólkið. Að skrifa "Crossfit-fólk tætti upp Esjuna" finnst mér vera hressilegt og skemmtilegt orðalag og ekki nokkur hætta á að fólk skilji þetta sem svo að þarna hafi átt sér stað umhverfisspjöll. Augljóst að átt er við að fólkið hafi hlaupið af miklum krafti. Ég man ekki betur en íþróttafréttamenn hafi fengið hrós íslenskufræðinga fyrir skemmtilega notkun tungumálsins í fjölmiðlum.

Ég er í það minnsta kominn á þá skoðun að við eigum ekki að vera að tuða of mikið yfir orðanotkun, beygingum og þess háttar. Unga fólki er þó að tala og skrifa íslensku ennþá, en hættan er sú að enskan taki þetta allt saman yfir. Þarna hefði athugasemdin mátt vera að skrifa ætti Krossfitt-fólk í stað Crossfit-fólk, þannig að orðið væri tekið inn í íslenskuna og skrifað með okkar hætti. Annars veit ég ekki hvernig þetta á að vera allt saman.

Sveinn R. Pálsson, 6.5.2019 kl. 16:30

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll aftur,

Ég er eiginlega sammála þér, fyrir utan þetta með tuðið. Er dálítill tuðari inni í mér og kann bara nokkuð vel við það.

Auðvitað er ekkert að hressilegu og skemmtilegu orðalag eins og að tæta á bílum eða hlaupum. Sé ekkert að því.

Margir íþróttablaðamenn standa sig vel. Því miður er það með þá eins og markmenn í fótbolta sem tekst ekki að verja neitt, allt lekur inn. Eða körfuboltamennina sem hitta sjaldan í hringinn. Slíkir endast ekki lengi í baráttunni.

Hins vegar verður sá aldrei vel ritfær sem ekki hefur alist upp við bóklestur og safnað drjúgum orðaforða í æsku. Það er grunnur fyrir alla blaðamenn og marga fleiri.

Svo á auðvitað að gagnrýna þá sem gagnrýna. Með öðrum orðum, skoðanaskipti eru brauðnauðsynleg ... og oft fróðleg.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.5.2019 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband