Framkvæma flug, bakið á símanum og hæpaður blaðamaður púllar
30.4.2019 | 11:22
Orðlof og annað
Fjálglega
Andagift, andakt, ákefðarmælska, innlifun, lotning, mærð, tilfinningahiti eru nokkrir kollegar orðsins fjálgleiki í Samheitaorðabók.
Fjálgur merkir háfleygur í tali. Að vera fjálglegur í tali eða tala fjálglega er því nokkurn veginn að tala á upphafinn hátt. Ekki frjálslega eða gálauslega.
Málið á blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 30.4.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Logi leikur tveimur skjöldum.
Fyrirsögn á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 29.4.2019.
Athugasemd: Sá sem leikur tveimur skjöldum er tvöfaldur í roðinu, það er hann er ekki heiðarlegur. Í stríðum leika njósnarar tveimur skjöldum, á því leikur enginn vafi.
Af fréttinni má ráða að Logi sé góður og gegn maður, ekki bara snjall í fótbolta heldur semur hann líka tónlist.
Hæfileikar á fleiri en einu sviði eru ekki einsdæmi og þeir sem sinna mörgum áhugamálum eru síst af öllu að leika tveimur skjöldum. Þeir teljast fjölhæfir.
Í Mergur málsins (blaðsíðu 559) segir:
Líkingin er af því dregin að algengt var að menn bæru merki (herkuml) á skjöldum. Sá sem átti eða bar tvo skildi (með ólíkum herkumlum) gat ekki verið tveimur trúr.
Fjöldi orðatiltækja er runnin frá hernaði til forna, nefna má ganga fram fyrir skjöldu, koma í opna skjöldu, halda hlífiskildi, skarð fyrir skildi og mörg fleiri.
Tillaga: Logi er fjölhæfur.
2.
Rúmlega 270 starfsmenn indónesísku þing- og forsetakosninganna hafa látist úr ofreynslutengdum sjúkdómum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Finnst ekki fleirum þetta orð ofreynslutengdur dálítið skrýtið? Það finnst ekki í orðabók en flestir vita hvað ofreynsla er.
Á fréttavef BBC segir:
More than 270 election workers in Indonesia have died, mostly of fatigue-related illnesses caused by long hours of work counting millions of ballot papers by hand, an official says.
Annað orðalag er notað á vef Reuters, þar segir í fyrirsögn:
More than 270 died from overwork-related illnesses in Indonesia elections.
Mér finnst ótækt að nota ofreynslutendum sjúkdómum. Í fljótu bragði finn ég þó ekki annað. Þegar þannig stendur á reyni ég oftast að skrifa framhjá vandamálinu, komast hjá nafnorðavæðingu setningarinnar. Tillagan hér fyrir neðan er tilraun í þá átt.
Blaðamenn sem þurfa að þýða úr erlendum málum mega ekki láta íslenskuna lúta í lægra haldi fyrir orðalagi frummálsins. Fatigue-related illnesses eða overwork-related illnesses á ekki þýða sem ofreynslutengdir sjúkdómar. Leyfilegt er að umorða hugsunina sem að baki liggur til að koma henni til skila á eðlilegri íslensku.
Tillaga: Rúmlega 270 starfsmenn indónesísku þing- og forsetakosninganna hafa látist úr sjúkdómum sem tengjast ofreynslu eða ofþreytu.
3.
Sagði Muilenburg af því tilefni að fyrirtækið hefði nú þegar framkvæmt 146 flug á 737 MAX-vélunum sem skilað hefðu 246 flugtímum með hinum uppfærða hugbúnaði.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 30.4.2019.
Athugasemd: Hvort var flogið eða flug framkvæmt? Blaðamaðurinn lætur villast af ensku orðalagi og þýðir beint. Á fréttavefnum SkyNews segir:
Insisting that the company is getting close to a software fix, Mr Muilenburg said 146 flights of the 737 MAX had been completed, roughly 246 hours of air time, with the updated software.
Þó textinn sé líklega ekki heimild blaðamannsins er orðalagið mjög svipað og íslenska tilvitnunin. Á íslensku byrjum við sjaldan setningar á sagnorði nema í spurningum, en í ensku er það mjög algengt.
Að mestu er fréttin vel skrifuð enda blaðamaðurinn vel máli farinn. Þó má velta fyrir sér orðalaginu að þessi tiltekna tegund séu öruggustu flugvélarnar til að fljúga með. Er ekki síðustu fjórum orðunum ofaukið?
Tillaga: Muilenburg sagði af því tilefni að fyrirtækið hefði nú þegar látið fljúga 737 MAX-vélunum 146 sinnum, samtals í 246 flugtíma með uppfærðum hugbúnaði.
4.
Samsung stendur þétt við bakið á nýja Galaxy S10 5G-símanum eftir
Frétt mbl.is.
Athugasemd: Hvernig er hægt að standa þétt við bakið á síma sem er á að giska fjórtán til tuttugu sm á hæð?
Nú kann lesandinn að segja að þetta sé sagt í óeiginlegri merkingu, ekki bókstaflegri.
Má vera, en er þá ekki betra að velja orðalag sem hæfir? Í fréttinni segir að fyrirtækið sé að verja símann sinn, koma honum til varnar.
Tillaga: Samsung ver nýja Galaxy S10 5G-símanum eftir
5.
Bæði er ég enn mjög hæpaður og Lífið er mjög erfitt þessa stundina og ég gæfi allt til að geta púllað smá Costanza. Fokking opin vinnurými.
Frétt visir.is.
Athugasemd: Hver er tilgangurinn með því að blanda saman ensku og íslensku? Þykjast meiri en maður er, reyna að ganga í augun á lesendum, monta sig ... Markmiðið er hins vegar ekki að gera mál sitt skýrara, vera gagnorðari.
Málfarið í þessari grein er fyrir neðan allar hellur. Auðvitað má skrifa frjálslega, jafnvel upphafinn eða fjálglegan texta en blaðamaður þarf að gæta sín. Hann ber ábyrgð, getur ekki boðið lesendum sínum upp á svona skrif. Hér eru nokkur dæmi:
- sem var btw eitthvað það besta sem boðið
- þetta var líklegast besta sjónvarp sem ég hef nokkurn tímann séð
- Það gerði mikið fyrir þáttinn
- Tökurnar, tónlistin, hasarinn, spennan og dauðdagarnir.
- Í engri sérstakri röð dóu Theon, Jorah, Beric, Melisandre og
- sem fékk reyndar svalasta dauðdaga þáttarins,
- Ég átti von á fleiri dauðdögum
- Ég fór næstum því úr axlarlið við að fistpumpa út í loftið
- Jon Snow var einhvern veginn bara í ruglinu allan þáttinn.
- Það var ljóta ruglið og þau beisiklí gáfu
- Mögulega var þetta besta Come at me bro móment heimsins.
- Sá eini sem var í einhverju aksjóni var
Þetta er aðeins brot af skrifum blaðamannsins sem eru langt í frá gagnorð.
Sé á einhvern hátt hægt að réttlæta þau mun það ekki rökstyðja annað en að vegur íslenskunnar sé á hraðri niðurleið.
Svona skrifar enginn sem ber virðingu fyrir íslenskri tungu. Engin útgáfa birtir svona skrif sé henni annt um íslenskt mál.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.4.2020 kl. 09:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.