Hvernig vissi ég þetta ekki og ítrekaður frambjóðandi
26.4.2019 | 10:21
Orðlof og fleira
Temmilegur
Orðið temmilegur er tökuorð úr dönsku temmelig sem aftur er fengið að láni úr miðlágþýsku temmelik(en) mátulegur, hæfilegur.
Þetta er sama orð og í háþýsku ziemlich allnokkur, þó nokkur. Elstu dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá 18. öld og sama gegnir um atviksorðið temmilega.
Sjá nánar á Vísindavefnum.
Eru orð sem byrja á p tökuorð?
Þau orð sem eru af indóevrópskum uppruna og skrifuð með p- eru í grunnorðaforða íslensks máls skrifuð með f- í framstöðu, til dæmis:
- latína portâre, íslenska fara
- indóevrópska *pelu-, íslenska fjöl-
- latína pater, íslenska faðir
og teljast erfðaorð.
Ef Íslenskri orðsifjabók er flett má sjá að í allflestum greinum um orð sem hefjast á p- er skýringin sú að um tökuorð sé ræða, ýmist úr Norðurlandamálum, einkum dönsku, eða úr miðlágþýsku sem sjálf hafa þegið orðin að láni.
Sjá nánar á Vísindavefnum (framsetning hér er á ábyrgð síðuhafa).
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Móðir Gretu Thunberg er Eurovision-stjarna og fólk ræður vart við sig: Hvernig vissi ég þetta ekki?!?!
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Hvort er réttara að segja: Hvernig vissi ég þetta ekki eða hvers vegna vissi ég þetta ekki? Auðvitað er hið síðarnefnda réttara, að minnsta kosti í þessu tilviki.
Hins vegar er ekkert að því að draga gerðir sínar í efa: Hvers vegna datt ég? Hvernig stóð á því að ég datt?
Í þessum tilvikum er hvernig atviksorð.
Hver er annars sá sem talar í fyrstu persónu í fyrirsögninni? Líkleg blaðamaðurinn sem veit ekki að skoðanir hans koma fréttaskrifum ekki við.
Svo er það þetta með að hrúga inn spurningar- og upphrópunarmerkjum. Ber ekki vitni um mikla þekkingu blaðamannsins.
Tillaga: Engin tillaga
2.
Ítrekaður frambjóðandi til forseta Íslands
Úr morgunþætti Ríkisútvarpsins 26.4.2019.
Athugasemd: Getur maður verið ítrekaður frambjóðandi? Held að hér sé notkunin á lýsingarorðinu ítrekaður komin út í algjörar öfgar. Eða hvað finnst lesendum?
Eru þeir sem fara oft í gönguferðir ítrekaðir göngumenn?
Eru þeir sem fara oft á rúntinn og kaupa ís ítrekaðir ískaupendur?
Eru hlustendur Ríkisútvarpsins ítrekaðir hlustendur?
Er sá sem þetta skrifar ítrekaður skrifari?
Er skólafólk ítrekað í námi?
Ofnotkun sagnarinnar að ítreka og lýsingarorðins ítrekaður er svo mikil vitleysa að ekki tekur nokkru tali. Maður veltir fyrir sér hvort þeir sem misnota orðin hafi rýrari orðaforða en aðrir.
Munum að í stað sagnarinnar getum við notað orðið endurtaka, margendurtaka, áminna, gera oft eða bara skrifa sig frá orðinu. Sama má gera með lýsingarorðið, nota má orð eins og aftur, aftur og aftur, enn og aftur, sífellt, tíðum ...
Tillaga: Tíður frambjóðandi til embættis forseta Íslands ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.