Marklaust orðagjálfur, kæruleysi og hroðvirkni
29.3.2019 | 17:55
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Dómari mun skipa skiptastjóra yfir búið. Heimildir mbl.is herma að vegna umfangs gjaldþrotsins verði að minnsta kosti tveir skiptastjórar skipaðir yfir búið.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Tvítekningin er óþörf, kallast nástaða, sem eyðileggur stíll og yfirbragð fréttarinnar. Auðvelt er að laga eins og sjá má hér fyrir neðan.
Tillaga: Dómari mun skipa skiptastjóra yfir búið. Heimildir mbl.is herma að vegna umfangs gjaldþrotsins verði þeir að minnsta kosti tveir.
2.
Tvær óþekktar flugvélar komu inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins seint í gærkvöldi
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Af hverju er þetta kallað loftrýmiseftirlitssvæði, fjórsamsett orð? Er ekki hægt að stytta það og fell út tvo fyrstu liðina?
Annars er loftrými ansi furðulegt orð. Í Íðorðabankanum á malid.is er orðið skilgreint svo:
Hluti andrúmsloftsins sem afmarkast af ákveðnu svæði á yfirborði jarðar og tiltekinni hæð.
[skýring] Loftrými er skipulagseining á vegum stjórnvalda þar sem ýmist er veitt flugstjórnarþjónusta eða ekki.
[enska] airspace.
Líklega svarar þetta fyrri spurningunni. Enska orðið airspace er afar stutt og hnitmiðað, ólíkt loftrýmiseftirlitssvæði sem er svo langt að við liggur að mann þrjóti erindið (örendið) í framburðinum. Enska orðið er ekkert annað en loftsvæði eða loftrými.
Tillaga: Tvær óþekktar flugvélar komu inn á eftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins seint í gærkvöldi
3.
Nýlega varð grjóthrun úr klettabeltinu ofan við Stein sem fór niður hlíðina fyrir neðan hann á miklum hraða.
Tölvupóstur frá savetravel.is.
Athugasemd: Þessi málsgrein er ferlega mikið klúður og órökrétt í þokkabót. Þessi svokallaði Steinn undir Þverfellshorni í Esju er á að giska miðja vegu frá Einarsmýri og upp á brún.
Almennt hrynur grjót á miklum hraða, veltur þó á brattanum. Þetta vita allir. Þar að auki geta skriðuföll verið stórhættuleg, vart þarf að taka það fram.
Þverfellshorn er bratt og brattast er í hömrunum en þar fyrir neðan er líka afar bratt. Grjót sem hrynur þaðan er strax komið á mikla ferð löngu áður en það kemur að Steini.
Tillaga: Nýlega féll grjót úr hamrabeltinu í Þverfellshorni.
4.
Solskjær segir það vera ánægjulegt að fjölskyldan geti loksins byrjað að nota húsið almennilega einum tólf árum eftir að það var byrjað að byggja það.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Margir blaðamenn og fleiri skrifarar freistast til að lengja mál sitt með gagnslausu orðagjálfri. Ofangreind málgrein er dæmi um slíkt.
Einum tólf árum er gagnslaust málalenging, segir ekki neitt. Þetta orðalag er einna helst þekkt í talmáli.
Eftir að það var byrjað að byggja það, þetta er annar óþarfinn. Nástaðan hefði átt að vara blaðamanninn við, það er að segja ef hann hefði lesið skrifin yfir.
Hvernig notar fólk hús? Jú, það býr í því.
Hér er svo önnur spurning: Hvernig notar fólk hús almennilega? Tja ... nú vefst manni tunga um höfuð. Eru ekki almennileg not af húsi með því að búa í því.? Spyr sá sem ekki veit.
Betri og fyllri frétt um hús Solskjærs og búferlaflutninga hans má til dæmis lesa hér.
Tillaga: Solskjær segir það vera ánægjulegt að fjölskyldan geti loksins búið í húsinu tólf árum eftir að að það var byggt.
5.
Var þetta gert til öryggis á meðan lögregla vann að því að tryggja vettvang sem er nálægt unglingadeild skólans.
Frétt á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 29.3.2019.
Athugasemd: Hvaða tryggingafélög tryggja vettvang. Líklega gera þau það öll, nefna má heimilisvettvang, sumarbústaðavettvang en varla glæpavettvang. Munum að vettvangur er aðeins til í eintölu.
Lögguorðalagið að tryggja vettvang er bein þýðing úr ensku enda er tíðum sagt í amrískum löggumyndum:
To secured the perimeter.
Sögnin að tryggja getur þýtt margt, ekki aðeins að vátryggja, líka að gæta að öryggi. Í fjallamennsku tryggja menn sig, festa sig til dæmis við berg svo þeir falli ekki missi þeir fót- eða handfestu.
Einhæfni löggumálsins er mikið. Svæði sem lögreglan vinnur á og gætir öryggis fólk er alltaf kallaður vettvangur (e. scene) sem er gott og gilt orð, en einhæfnin maður lifandi.
Tillaga: Var þetta gert til öryggis á meðan lögregla gætti öryggis en svæðið er nálægt unglingadeild skólans.
6.
en fólkið er staðsett í flóttamannabúðum í Kenía.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hefði ofangreind setning breyst eitthvað ef lýsingarorðinu staðsettur væri sleppt? Held ekki. Þetta orð er ofnotað í íslenskum fjölmiðlum.
Tillaga: en fólkið er í flóttamannabúðum í Kenía.
7.
Besti markvörðurinn sem Gylfi hefur mætt um hvor sé betri Alisson eða Ederson.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin skilst ekki hversu oft sem hún er lesin. Útilokað er að lagfæra hana því ekkert vit er í henni.
Í fréttinni segir:
Ederson og Alisson eiga báðir mikinn þátt í góðu gengi liðanna og það mun örugglega mæða mikið á þeim báðum á lokasprettinum.
Hvað er hér átt við? Er mæðan sú að þeir hafi staðið sig vel með liðum sínum eða mun mikið hvíla á þeim í síðustu leikjum mótsins?
Gylfi valdi ellefu mann liði með erfiðustu andstæðingunum
Hér er kæruleysið alls ráðandi. Blaðamaðurinn les ekki yfir það sem hann hefur skrifað og sýnir þannig okkur neytendum, lesendum, mikla ókurteisi og dónaskap.
BBC Sport fékk Heurelho Gomes til dæma um það hvor landa hans sé betri markvörður.
Þetta er skemmd málsgrein, kæruleysislega skrifað, enginn yfirlestur. Til dæma um dugar ekki, inn á milli vantar að, til að dæma ...
Betur hefði farið á því að segja að maðurinn hafi átt að meta hvor væri betri markvörður. Þeim sem er umhugað um stíl og málfar gerir greinarmun á sögnunum að dæma og meta.
Hann sé því ekki mikið á milli þeirra en er samt á því að Alisson Becker sé betri markvörður í dag.
Enn skilst ekkert af því sem blaðamaðurinn skrifar, þetta er algjörlega óskiljanlegt. Svona er fréttin öll, illa samin, hroðvirknisleg og sundurlaus.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:58 | Facebook