Ronaldo afhjúpaður, múgur sem telur og langur armur laga
15.7.2018 | 17:09
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Alls greiddu 178 átkvæði, 5 þeirra sátu hjá. 172 greiddu Íslandi atkvæði eða 99,4% og hlaut Frakkland eitt atkvæði. Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Eitt það ljótasta sem sjá má í rituðu máli er þegar setning byrjar á tölustöfum. Þetta þekkist hvergi um hinn vestræna heim nema hjá óreyndu fólki eða fljótfærnu. Alls staðar er mælt gegn þessu.
Svo virðist sem að þessi ósiður fari vaxandi en líklega er hann árstíðabundinn. Fjölmargir góðir og vandaðir blaðamenn eru í sumarfríi og óreynt fólk hefur tekið við. Enginn les yfir, enginn leiðbeinir og allt endar í rugli. Prentvilla í fyrstu setningu.
Tillaga: Alls greiddu 178 atkvæði, 5 þeirra sátu hjá. Ísland hlaut 172 atkvæði eða 99,4% og Frakkland eitt atkvæði.
2.
Cristiano Ronaldo gengur brátt formlega í raðir Juventus á Ítalíu en allt er klappað og klárt í Tórínó fyrir afjúpun á besta fótboltamanni heims í dag. Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þetta er óskiljanleg málsgrein. Hvað er eiginleg að gerast? Verður Ronaldo afhjúpaður, verður stytta af honum afhjúpuð eða er verið að kynna hann formlega sem leikmann Juventus? Þar að auki er orðið afhjúpun rangt skrifað í fréttinni.
Íþróttafréttamenn eiga margir hverjir afar erfitt með að skrifa skammlausa frétt. Vera má að blaðamanninn gruni að hvað orðið afhjúpun þýðir, og ágiskunin er þá notuð.
Samkvæmt orðabók þýðir afhjúpun að taka klæði eða dulu (af e-u). Væntanlega verður fótboltamaðurinn ekki hulinn teppi sem síðan verður svipt af honum eins og hann sé myndastytta. Sögnin að hjúpa merkir hins vegar að fela eða hylja.
Blaðamaður verður að hafa góðan orðaforða og vita hvernig á að nota hann. Samstarfsmenn eða yfirmenn eiga að benda á villur eða misskilning í skrifum. Gerist hvorugt endar fjölmiðillinn eins og visir.is sem býður daglega upp á skemmdar fréttir og enginn segir neitt.
Tillaga: Cristiano Ronaldo gengur brátt formlega í raðir Juventus á Ítalíu en allt er klappað og klárt í Tórínó fyrir kynningu á besta fótboltamanni heims í dag.
3.
Flúði hinn langa arm laganna til Íslands. Frétt á visir.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin segir ekkert um fréttina og er því gagnslaus. Blaðamaðurinn hefði allt eins getað skrifað sem fyrirsögn: Enginn verður óbarinn biskup í Bandaríkjunum og haldið fréttinni óbreyttri. Orðtakið hinn langi armur laganna er venjulega notað yfir þá sem ekki tekst að fara huldu höfði, þeir nást oftast. Í fréttinni er ekkert um það.
Þarna er rætt um mann sem hafði ekki geði eða þolinmæði að bíða dómsúrskurðar í Bandaríkjunum heldur flúði til Íslands. Fréttin er afar þunn og ómerkileg, raunar illskiljanleg nema þetta með flóttann.
Ekkert réttlætir orðalagið langur armur laganna. Lesandinn kynni að láta sér detta í hug að ekki þýddi fyrir manngreyið að flýja hingað til lands, hinn langi armur laganna myndi ná til hans hér. Því er þó ekki að heilsa ef marka má fréttina
Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta illa framborin frétt enda virðist ritstjórn Vísis meta magnið meira en gæðin. Þar af leiðandi er lesendum ítrekað boðið upp á skemmdar fréttir.
Tillaga: Sakfelldur í Bandaríkjunum og flúði til Íslands.
4.
Indversk lögregluyfirvöld hafa handtekið að minnsta kosti 25 manns eftir að múgur, sem taldi allt að tvö þúsund manns, tók mann af lífi án dóms og laga seint á föstudag. Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað taldi múgurinn? Hér fer betur á að segja að hann hafi verið allt að tvö þúsund manns.
Hvergi í fréttinni kemur fram hver hafi verið myrtur þó leiða megi líkur að því að það hafi verið sá sem nefndur er á nafn.
Annars er fréttin í Mogganum hraðsoðin og illa skrifuð. Hún tekur ekkert á því sem segir í Express Tribune, sem þó virðist vera heimildin, án þess að hennar sé getið. Í því blaði segir:
Police said Azam and his companions were returning to neighbouring Hyderabad city after visiting their friend in Bidar when they stopped midway and offered chocolates to local children
Blaðamaðurinn þýðir þetta þannig:
Lögreglan segir Azam og vini hans hafa verið að snúa aftur til borgarinnar Hyderabad eftir að hafa heimsótt kunningja þeirra í nágrenninu.
Rétt þýðing er að fólkið var á leiðinni til baka, ekki að það hafi verið að snúa aftur.
Hægt er að gera fleiri athugsamdir við orðalag fréttarinnar. Þar að auki er algjörlega sneitt framhjá öðru sem fram kemur í erlenda blaðinu en það eru aftökur án dóms og laga á Indlandi, 21 morð frá því í maí.
Tillaga: Indversk lögregluyfirvöld hafa handtekið að minnsta kosti 25 manns eftir að múgur tvö þúsund manna tók mann af lífi án dóms og laga seint á föstudag.
Viðbót: Fréttinni var gjörbreytt kl. 21:20 þann 15. júlí. Hún er orðin allt önnur og miklu betri. Í fljótu bragði er ekkert við hana að athuga enda er hún orðin til fyrirmyndar, sjá hér. Fyrri fréttin er þó enn inni á mbl.is. Ágætt að bera þær saman.
5.
Funda um leifar frá Kóreustríðinu. Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Í fréttinni er ekki verið að tala um afganga, dót eða rusl frá tímum Kóreustríðsins heldur jarðneskar leifar fólks. Svona fyrirsögn er gjörsamlega óboðleg.
Hefur blaðamaðurinn engan skilning á því að kvenkynsnafnorðið leif (fleirtalan leifar) hefur fleiri en eina merkingu?
Síðar segir í þessari örstuttu frétt:
Afhending leifanna, sem rekja má aftur til Kóreustríðsins á árunum 1950 til 1953,
Þetta er bara bull. Lík eða jarðnesku leifarnar eru hermanna sem féllu í stríðinu. Það er hafið yfir allan vafa, þarf ekki að rekja eitt eða neitt. Blaðamaðurinn er úti að aka.
Les enginn yfir það sem viðvaningar á Mogganum skrifa? Fá þeir enga tilsögn? Skiptir magn frétta meiru en gæðin?
Fréttin er hörmulega illa skrifuð. Ótrúlegt.
Á fréttaveitunni Reuters segir um sama mál í fyrirsögn:
U.S., North Korea in rare talks over remains of Korean War soldiers: Yonhap
Líklega er betra að lesa fréttina á vef Reuters til að fá skilning á frétt Moggans.
Tillaga: Fundað um jarðneskar leifar hermanna úr Kóreustríðinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.