Með endemum ómálefnaleg stjórnarandstaða
4.6.2018 | 21:30
Mikið skrambi er ég feginn að Vinstri grænir eru í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Ástæðan er einfaldlega sú að nú er einum úrtöluflokknum færra í stjórnarandstöðunni. Flest af því sem Vinstri græni gagnrýndu undanfarnar ríkisstjórnir er þeim gleymt og grafið af því að ábyrgð fylgir valdastöðu en ábyrgðaleysi stjórnarandstöðu. Svona yfirleitt ...
Ég horfði á eldhúsdagsumræðurnar og fékk það á tilfinninguna að þingmenn væru orðnir óþreyjufullir að komast í sumarfrí. Sérstaklega var stjórnarandstaðan máttlaus og ... já, ég verð bara að segja það ... leiðinleg.
Oddný Harðardóttur, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, er vel læs og það kom sér vel því hún hefði aldrei getað lært ræðuna sína, hvað þá að hún hafi trúað á það sem hún þó sagði, svo mikið hikstaði hún og hikaði við flutning hennar.
Píratinn með útlensku röddina, man aldrei hvað hann heitir, flutti afbragðsgóða ræðu um eitthvað sem enginn man lengur. Hann var hins vegar afar sannfærandi þó eldmóðurinn hafi nú ekki beinlínis lekið af honum.
Á tímabili varð mér starsýnt á forseta Alþingis sem um tíma sat fyrir aftan ræðumenn. Gat ekki betur séð en að Steingrímur J. Sigfússon dottaði. Má vera að verkjalyfin hafi bara farið svona illa í hann. Munum að maðurinn er stórslasaður og í fatla.
Fyrrum félagsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, hefur náð einstökum tökum á ræðumennsku þingmanna sem voru aldraðir er ég var á unglingsárum. Slík ræðumennska nefnist í daglegu talið framsóknartal og hefur aldrei þótt skemmtilegt. Hæfileikar Þorsteins eru slíkir að jafnvel formaður Framsóknarflokks kemst ekki með tærnar nálægt því þar sem hann hefur raddböndin. Líklega sem betur fer!
Af þeim stjórnarandstæðingum sem ég hlustaði á fannst mér þingmenn Flokks fólksins bera af. Formaðurinn flutti afar tilfinningaþrungna ræðu og var ég, Sjálfstæðismaðurinn, fyllilega sammála henni. Ólafur Ísleifsson, þingmaður og hagfræðingur, flutti einnig verulega góða ræðu. Ég er jafnan sammála Ólafi enda er hann gamall félagi í Sjálfstæðisflokknum. Lokaorð hans voru að þjóðin gæfi sjálfri sér fullveldisgjöf sem er vernd og eflingu íslenskra tungu með því að efla kennslu og rannsóknir. Mikið er ég sammála Ólafi.
Afsakið, ég veit ekki hvaðan Hanna Katrín Friðriksdóttir kemur. Hún er eins og flestir í þessum flokki einstaklega óáhugaverð og ómálefnaleg í málflutningi sínum. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að hún og félagar hennar voru fyrir átta mánuðum í ríkisstjórn. Þá gagnrýndi hún ekkert. Sat bara með hendur í skauti og lét sér líða vel.
Ótrúlegt hvernig þingmenn stjórnarandstöðunnar eru heilagir í málflutningi sínum og skiptir þá engu þó þeir hafi verið í ríkisstjórn áður og þá svikið og svindlað af vild.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.