Uppaldir leikmenn og gat sem ekki er gat

Skemmdar fréttir í fjölmiðlum.

1.

„Eins og klámmyndastjarna segir áður en hún sefur hjá Trump: við skulum klára þetta af.“ 

Úr frétt á visir.is.     

Athugasemd: Hér ruglar blaðamaður. Veit líklega ekki betur sem auðvitað er engin afsökun. Til er orðasambandið að ljúka einhverju. Klára hefur svipaða merkingu en þó ekki alveg hina sömu og sögnin að ljúka. Samkvæmt orðabók merkir sögnin að klára að ljúka við, hreinsa og hefur svipaða merkingu og danska sögnin „klare“ og er hugsanlega komin þaðan.

Tilvitnunin er komin úr ensku og þar segir: 

Like the pornstar said when she was aobut to have sex with Trump, lets get it over with.

Lets get it over with“ og blaðamaðurinn segir í þýðingu sinni: „Við skulum klára þetta af.“ Ekki góð þýðing á annars smellnum inngangi blaðakonu í kvöldverði fréttamanna í Hvíta húsinu. Svona er nú auðvelt að eyðileggja góðan brandara.

Tillaga: Eins og klámmyndastjarnan sagði áður en hún hafði mök við Trump, drífum þetta af.

2.

„Þetta var bara ann­ar leik­ur fyr­ir mig en ég er þakk­lát­ur fyr­ir þenn­an vott af virðingu og vináttu frá Manchester United, ég naut þess.“ 

Úr frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Þetta skilst ekki: „Þetta var bara annar leikur fyrir mig …“ sagði Arené Wengir í endursögn blaðamanns Moggans. Ég gat því miður ekki fundið þessum orðum stað á Sky fréttastöðinni, þó hún sé tilgreind sem heimild í fréttinni.

Vottur af virðingu merkir eiginlega ekki mikil virðing. Ólíklegt að Það fræga félag Manchester United hafi dregið eitthvað úr virðingu fyrir þjálfara erkióvinarins. Þó er til nafnorðið virðingarvottur. Skyldi það vera merki um virðingarvott þegar forsetinn nælir fálkaorðuna í einhvern? Er það virðingarvottur þegar einhver vinkar til frægs leikara? Svona má spyrja en svörin velta án efa á máltilfinningu hvers og eins.

Dálítið annar og betri bragur var af sömu frétt á vísir.is en hún birtist löngu eftir að gerð var tillagan hér fyrir neðan:

„Þetta var æðislegt. Þetta er bara eins og hver annar leikur fyrir mig en ég er mjög þakklátur fyrir þessa gestrisni. Þetta var mjög flott og vel gert af þeim,” sagði Wenger mjög þakklátur.

Betra og innihaldsríkara hjá Vísismönnum (og hér).

Tillaga: Þetta var bara eins og hver ann­ar leik­ur fyr­ir mig en ég er þakk­lát­ur fyr­ir þenn­an vott af virðingu og vináttu frá Manchester United, ég naut þess.

3.

„Haukar unnu 74:70-sigur á Val í oddaleik - Margir ungir og uppaldir leikmenn.“ 

Undirfyrirsögn á bls. 2 í Íþróttablaði Moggans 1. maí 2018. 

Athugasemd: Seinnihlutinn í tilvitnuninni hér að ofan er frekar brosleg, „uppaldir leikmenn“. Hver er ekki upalinn? Líklega á blaðamaðurinn við að í liðinu hafi verið margir leikmenn sem hafa verið þar frá barnæsku. Þegar talað er um marga hlýtur að vera átt við fleiri en tvo. Fréttin segir þó aðeins frá tveimur leikmönnum sem hafa verið alla sína tíð í Haukum.

Íþróttablaðamenn Moggans eru þekktir fyrir að reyna að breyta hefðbundinni merkingu orða. Þeir hika til dæmis ekki við að kalla leikmenn lærisveina þjálfara í fótbolta- og knattspyrnuliðum sem auðvitað er alrangt. Þjálfari er ekki kennari heldur stjórnandi, leikmenn eru ekki nemendur heldur lúta stjórn og aga þjálfara.

Orðalagið „uppaldir leikmenn“ er merkingarlaust vegna þess að allir hafa verið aldir upp. Sé ástæða til að nefna það að leikmennn liðisins hafi notið uppeldis í körfubolta hjá Haukum ber að segja það með skýrari hætt. 

Betra er að sleppa rugli heldur en að reyna að troða einhverju inn í alltof þröngt pláss.

Síðar í fréttinni segir: 

Hún [stúlka] er einmitt púsluspilið sem vantaði til að klára Íslandsmeistaramyndina.

Þessi málsgrein er tómt rugl. Án ef ætlaði blaðamaðurinn að búa til myndræna lýsingu er klúðrar henni algjörlega. Fleira er aðfinnsluvert í fréttinni. Reglan er þessi: Ekki búa til myndlýsingar sem ganga ekki upp og alls ekki bulla með þær.

Annars staðar í þessu Íþróttablaði Moggans segir:

Fylkir og Fjölnir tefldu fram flestum uppöldum leikmönnum í fyrstu umferð Pepsi-deildar …

Fréttina skrifar einn af reyndustu íþróttablaðamönnum Moggans og sem er hreinlega furðulegt. Raunar er „uppalinn leikmaður“ einnig kallaður heimamaður í fréttinni og það er miklu skárra.

Hér á vel við gefa eitt gott ráð: Ef ekki er hægt, svo vel sé, að skrifa hugsun í stuttu máli þarf einfaldlega að fjölga orðum. Dæmi: Uppalinn leikmaður. Betri kostur: Leikmaður sem alinn hefur verið upp í félaginu eða leikmaður sem aldrei hefur verið í öðrum félögum.

Tillaga: Haukar unnu 74:70-sigur á Val í oddaleik - Margir leikmenn verið alla tíð í félaginu.

 

4.

„Í Frakklandi er að finna mesta fjölda gyðinga í Evrópu en þeir eru rúmlega hálf milljón manna.“ 

Úr frétt á bls. 38 í Morgunblaðinu 3. maí 2018. 

Athugasemd: Frekar klúðursleg málsgrein og stingur þar af leiðandi í augu. Jafnvel þaulreyndir blaðamenn þurfa að vera gagnrýnir á eigin texta. 

Í flýtinum er auðvelt rugla með því að segja „er að finna“ í stað þess að nota einfaldlega sögnina vera.

Það liggur í augum uppi að betur fer á því að segja flestir í stað „mestur fjöldi“. Gyðingar eru flestir,  óþarft er að klykkja út með að þeir sem „hálf milljón manna“. Þeir eru menn og talan ein nægir.

Mjög auðvelt er að koma hugsuninni fyrir í styttra máli eins og dæmi eru um hér fyrir neðan.

Tillaga: Hálf milljón gyðinga búa í Frakklandi, hvergi í Evrópu eru þeir fleiri.

5.

„Gerði risa gat á torf­vegg og ók burt.“ 

Fyrirsögn á mbl.is. 

Athugasemd: Hver er munurinn á gati og skarði? Í ofangreindri fyrirsögn er talað um torfvegg sem í raun er garður, byggður með grjóti og torfi. Garðurinn er við bílastæðið við Glaumbæ í Skagafirði. Veggur er ekki rangt orð í þessu sambandi. Hægt er að nota hvort tveggja, veltur á smekk.

Aðalatriðið er að ungi blaðamaðurinn áttar sig ekki á því að skarð kom í garðinn eftir að ekið var á hann. Gat er annars eðlis, varla þörf að að rökstyðja það nánar.

Einnig segir í fréttinni:

Þar kem­ur fram að hóp­ferðabíl­stjór­ar séu líka klauf­ar en bíl­stjóri keyrði á vegg­inn, skildi eft­ir risa gat og ók burt.

Legg það fyrir lesendur að meta hvort ekki hefði verið hægt að orða þetta  betur. Mér finnst þetta klúðurslegt eins og annað í fréttinni.

Tillaga: Braut skarð í torfvegg og ók á brott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Takk fyrir þennan pistil. - Þarfar ábendingar og ættu að vera skýr tilmæli til ábyrgðarmanna blaðanna um að fara að vanda betur og setja einhvern metnað í fréttaflutning og fréttaskrif.

Már Elíson, 5.5.2018 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband