Skemmdar fréttir í fjölmiðlum

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Loftárásir hafnar í Sýrlandi – Þetta er búið að gerast síðan í gærkvöldi.“ 

Fyrirsögn á dv.is.     

Athugasemd: Hvað er „búið að gerast“? Af hverju er ekki sagt; þetta hefur gerst frá því í gærkvöldi?

Ef blaðmaður hefur ekki skilning á eigin skrifum er afar brýnt að einhver lesi yfir. Enn er talað um prófarkalestur í þessu sambandi. 

Eiður heitinn Guðnason var því fylgjandi að einhver læsi yfir það sem fréttabörnin skrifuðu. Fréttamiðillinn dv.is verður að taka sig á og bæta málfar í fréttaskrifum.

Tillaga: Loftárásir hafnar í Sýrlandi – Þetta hefur gerst frá því í gærkvöldi.

2.

„Ég varð í raun sex dögum utandyra, sagði Manganielloum ferðina.“ 

Úr frétt á visir.is.      

Athugasemd: Sá sem nefndur er þarna hafði eytt sex dögum utan dyra. Blaðamaðurinn þekkir líklega sögnina að verja sem þýðir að nota eða eyða. Í þátíð er sögnin „ég varði“.

Vel má vera að þetta sér prentvilla, einn stafur fallið niður. Prófarkalestur hefði bjargað málinu. Vélrænn yfirlestur tölvu dugar hér ekki vegna þess að orðið sem um ræðir er ekki rangt skrifað, við það takmarkast „vit“ tölvunnar, og þar hefði hið mannlega átt að taka við.

Tillaga: Ég varði í raun sex dögum utandyra, sagði Manganielloum ferðina.

3.

„Kanadískur raðmorðingi grunaður um sjö morð hið minnsta.“ 

Úr frétt á dv.is.       

Athugasemd: Kanadamaðurinn er í haldi vegna sjö morða. Hann er því meintur morðingi enda aðeins grunaður. Vel má segja að hann sé meintur raðmorðingi ef löngunin til að koma þessu gildishlaðna orði í fyrirsögnina (sölutrix). Þar af leiðandi er hann ekki raðmorðingi.

Þegar fullyrt er að raðmorðingi sé grunaður um sjö morð skilst það þannig að hann hafi þegar verið sakfelldur um önnur morð, er því sannarlega raðmorðingi. 

Tillaga: Kanadamaður grunaður um sjö morð hið minnsta.

4.

„Bjóða fjárfestum Jarðboranir til sölu.“ 

Fyrirsögn á bls. 16 í Morgunblaðinu, 17. apríl 2018.      

Athugasemd: Þegar hlutur er boðinn ákveðnum einstaklingi eða hópi þá er sagt að hann sé þeim boðinn til kaups. Má vera að um þetta megi deila.

Þó má ábyggilega segja; Jarðboranir verða seldar til fjárfesta. Þetta er þó frekar stirðbusalegt orðalag.

Hins vegar held ég að máltilfinning flestra að eðlilegra sé að taka til orða á þann hátt sem segir í tillögunni hér fyrir neðan. En hverjir eru fjárfestar? Eru það ekki allir sem geta keypt? Er þá ekki verið að selja Jarðboranir.?

Tillaga: Bjóða fjárfestum að kaupa Jarðboranir.

5.

„Lýðháskólinn á Flateyri opnar dyr sínar í haust.“ 

Fyrirsögn á frettabladid.is.       

Athugasemd: Lýðháskólinn á Flateyri hefur enga hugsun, hann er skóli sem fólk stjórnar, stefnu sem fólk mótar og húsakynni sem fólk opnar og lokar eftir þörfum. Skólinn opnar ekkert en fólk gerir það.

Þrátt fyrir kjánalega fyrirsögn segir blaðamaðurinn þetta í upphafi fréttarinnar: „Kennsla hefst í Lýðháskólanum á Flateyri í september.“ Furðulegt að hann skuli ekki hafa notað þetta sem fyrirsögn í stað þess að fullyrða það sem ekki stenst.

Tillaga: Kennsla hefst í Lýðháskólanum á Flateyri í haust.

6.

„Sindri gæti hafa komið sér víða.“ 

Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Þessi fyrirsögn er ekki til fyrirmyndar. Í fréttinni er sagt frá strokufanga sem flúði til útlanda. Líklega á blessaður blaðamaðurinn við að maðurinn gæti hafa farið víða og óvíst hvar hann sé.

Fyrirsögnin er tómt rugl. Maður getur ekki „hafa komið sér víða“, nema því aðeins að hann hafi verið hlutaður í sundur. Jafnvel þessi tilraun til skýringar stenst ekki. Fyrirsögnin er bara bull og blaðamanninum fréttamiðlinum ekki til sóma. Verst er þó að enginn virðist hafa lesið greinina yfir. 

Ritstjórnin hefur enga neytendastefnu, engin virðing borin fyrir lesendum, þeir fá æ ofan í æ skemmda vöru. Hægt að treysta því nokkuð örugglega að verslanir selji ekki neytendum skemmda eða ónýta vöru. Sambærilegt eftirlit er ekki á fjölmiðlum, hvorki innra né ytra eftirlit. Við fáum lélega þjónustu.

Fjarskipti sem reka nú vefinn visir.is eru ekki með neina stefnu í útgáfumálum sínu aðra en þá að allt sé leyfilegt, engar kröfur gerðar og meiri áhersla er lögð á fjölda frétta en gæði þeirra.

Tillaga: Sindri gæti verið hvar sem er.

7.

„Hinn heims­frægi listamaður, Ólaf­ur Elías­son, hef­ur sett sitt heill­andi heim­ili á sölu..“ 

Úr frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Líklega er hérna dálítið ofsagt. Maðurinn mun hafa sett húsið sitt á sölu en ekki heimili. Veit einhver dæmi þess að heimili hafi verið selt?

Stagl einkennir þesssa „frétt“. Af hverju orðar blaðamaðurinn það svo að maðurinn hafi sett „sitt heimili“ á sölu? Hefur hann ekki sett heimili sitt (það er húsið) á sölu. Húsið sitt, ekki sitt hús. Örstuttu síðar er réttilega talað um „listaverk hans“ ekki hans listaverk …

Í fréttinni segir að húsið sé „yfirmáta smekklegt“. Aðrir hefðu sagt það vera afar laglegt. Yfirmáta er dálítið yfirdrifið, ekki góð tilfinning sem fylgir þessu atviksorði

Loks er húsið sagt „glundroðakennt á köflum“. Óljóst er hvernig húsið getur verið þannig, nema það sé illa skipulagt. Nafnorðið er ekki jákvætt, þvert á móti. Glundroði er „chaos“ á ensku og það er enn notað í hefðbundinni merkingu. Viltu þú, lesandi góður, kaupaglundroðakennt hús?

Í þessu sambandi ber þess að geta að tilraunir til að breyta merkingum orða eru afar tíðar. Sagt er að eitthvað sé „geðveikt“ fallegt, „truflað“ í merkingunni frábært, gott er einatt talið betra en ágætt. Flest af þessum tilraunum mistakast. Hver notar núna sögnina að „spæla“ einhvern eða „skvísa“ einhverju svo dæmi séu tekin?

Má vera að málið þróist af fólki sem hefur ekki góðan skilning á íslensku og því sé glundroði og yfirmáti orð sem eiga að fá aðra merkingu en þá sem þekktust er.  

Tillaga: Sindri gæti verið hvar sem er.

 

9.

„Jöfnunarmarkið kom hins vegar ekki, bikarmeistarar ÍBV lutu í lægri hlut gegn Íslandsmeisturum Vals.“ 

Úr frétt á visir.is.         

Athugasemd: Líklega er þessi klúðurslega málsgrein yfirsjón eða samsláttur orðatiltækja. 

Sá sem tapar lýtur í lægra haldi fyrir andstæðingnum. Einnig má orða það á  þannig veg að einhver bíði lægri hlut, tapi. Hver sem skýringin á klúðrinu kann að vera bendir allt til þess að enginn lesi yfir það sem blaðamenn skrifa á visir.is, ekki einu sinni blaðamennirnir sjálfir.

Eins og hér hefur iðulega verið sagt á þessum vettvangi þá bjóða allir fjölmiðlar upp á skemmda vöru ef fréttirnar eru ekki á góðu máli. Með því er neytendum sýnd óþolandi lítilsvirðing. Ástæðan er eflaust langlundargeð lesenda sem ættu ekki að láta bjóða sér svona athugasemdalaust. Enginn vill skemmt epli en skemmdar fréttir eru í lagi.

Tillaga: Jöfnunarmarkið kom hins vegar ekki, bikarmeistarar ÍBV lutu í lægra haldi fyrir Íslandsmeisturum Vals.

10.

„Plokkarar á Íslandi er áhugafélag rúmlega 4400 manns á Facebook sem fara út og þrífa upp plast og rusl úr náttúrunni. 

Auglýsing á bls 18 í Morgunblaðinu 21. apríl 2018.         

Athugasemd: Borið hefur á því að reynt sé að breyta merkingum orða. Sagnorðið plokk er nú notað yfir það að „þrífa plast og rusl úr náttúrunni“ eins og segir í ofangreindri tilvitnun.

Sögnin að plokka merkir vissulega að tína, en ekki þó í stórtækri merkingu þess orðs eins og þrif eða hreinsun. Konur plokka augnabrýr, lengi hefur tíðkast peningaplokk, sumir skjóta rjúpur og plokka fiðrið af fuglinum, aðrir plokka arfa úr blómabeðum og svo plokka börnin eitthvað úr matnum og teljast þá matvönd.

Athygli vekur að í tilvitnuninni virðist höfundur hennar ekki telja að nafnorðið plokk sé gegnsætt og telur því nauðsynlegt að skýra það þannig að þeir sem stunda plokk fari út og þrífi plast og rusl, ekki úr görðum heldur náttúrunni ... 

Þar að auki er málsgrein frekar klúðurslega samin, sérstaklega síðasta setning hennar. Hvað merkir til dæmis að „þrífa upp“? Er ekki nóg að segja þrífa?

Tillaga: Plokkarar á Íslandi er áhugafélag rúmlega 4400 manna á Facebook. Þeir tína upp plast og rusl í náttúrunni.

11.

„Helga hljóp í hlýj­asta Lund­úna­m­araþon­inu frá upp­hafi.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.          

Athugasemd: Keppni getur ekki verið hlý, hins vegar getur veðrið verið heitt, kalt eða eitthvað þar á milli. 

Íþróttablaðamenn reyna að breyta tungumálinu, vitandi eða óafvitandi. Þeir segja stundum að keppnishlaup hafi verið það fljótasta og eiga þá við að hlaupendur (!) hafi sjaldan eða aldrei fengið betri tíma. Þegar lið skorar strax í upphafi fótboltaleiks, jafnvel á fyrstu sekúndunum, þá er sagt að Nonni hafi skorað fljótasta markið á árinu, mánuðinum eða frá upphafi. Lærisveinn hefur fengið gjörbreytta merkingu í orðasafni íþróttablaðamanna.

Hlaupararnir í London hafa ábyggilega notið hlýindanna en fleiri nutu þeirra enda var hlýtt í borginni, ekki aðeins á hlaupurunum. Hins vegar má spyrja hvort að hitastigið hafi verið merkilegra umfram árangur hlauparans Helgu. Ekkert er hins vegar getið um hann.

Tillaga: Aldrei hlýrra þegar Helga tók þátt í Lundúnarmaraþoninu. 

12.

„ Fjölmennustu ríkisföng ferðamanna sem fengu þjónustu á LSH árið 2017 voru Bandaríkin, Bretland …“ 

Úr frétt á bls 10 í Morgunblaðinu 24. apríl 2018.         

Athugasemd: Þessi málsgrein er frekar skrýtin, sérstaklega vegna þess að ríkisföng fá ekki læknisþjónustu á Landspítalanum. 

Vissulega kann að stundum að vera erfitt að orða staðreyndir í stuttu máli. Þá þurfa blaðamenn að leggja heilann í bleyti og helst ekki apa eftir illa orðuðu skriflegu svari frá stofnunum eða fyrirtækjum eins og gert er í þessu tilviki. 

Tillaga: Flestir ferðamenn sem fengu þjónustu á LSH árið 2017 voru frá Bandaríkjunum, Bretland, Þýskalandi, Danmörk, Kína, Kanada, Spáni, Ástralíu, Svíþjóð og Noregi.

13.

„Við erum á þeim stað að mamma hans gat sofnað við hlið hans svo að hún get­ur loks sofið, henni líður vel í kring­um hann.“ 

Úr frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Skilur einhver þessi orð? Varla, enda er textinn á ensku illa skiljanlegur og þýðingin á íslensku er jafnvel enn verri. Þegar svo er komið er skynsamlegast að þýða innihaldið, ekki festa sig í orðunum. Á ensku segir svo í frétt sky.is: 

It has come to a point when his mum is actually asleep next to him so she can go to sleep, she feels comfortable with him.

Lesendur geta svo spreytt sig á að gera betur en gert er hér í tillögunni.

Tillaga:  Núna getur móðir litla drengsins sofið við hlið hans og þar líður henni vel. 

14.

Ný brögð bæta afkomuna hjá Coca-Cola.“ 

Fyrirsögn á bls. 11 í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 26. apríl 2018.        

Athugasemd: Almennt er bragð eintöluorð og er þá í merkingunni bragð af mat eða drykk. Þetta vita allir sem hafa nokkuð þroskaða máltilfinningu sem einungis kemur af miklum lestri og drjúgum orðaforða.

Brögð eru klækir, jafnvel ráð. Þegar ég las þessa fyrirsögn grunaði mig Kók fyrirtækið um græsku, það beitti brögðum til að heilla neytendur. Höfundur átti hins vegar við að bragðtegundum hafi fjölgað.

Margt fólk stundar skriftir en fær engan til að lesa yfir sem ætti þó að vera sjálfsagt mál að því tilskyldu að yfirlesarinn hafi eitthvað vit á tungumálinu. Ekkert er við því að segja þó tungumálið breytist og þróast. Vont er þó þegar breytingarnar verða vegna vanþekkingar eða ofurtrúar á að orð og orðalag í öðrum tungumálum geti athugasemdalaust nýst í íslensku.

Ég er þess fullviss að sá sem bergir á drykkjum hins virðulega Coca Cola fyrirtækis mun ekki finna „brögð“ heldur margar bragðtegundir.

Tillaga:  Nýjar bragðtegundir bæta afkomuna hjá Coca-Cola.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Er ekki málið bara að breytast?  Svokölluð "fréttabörn" eru þá væntanlega að skrifa fyrir sína kynslóð, og við gömlu skiljum samt svo vel að geta leiðrétt að hætti okkar kynslóðar.  Geta þá ekki allir verið ánægðir?

Kolbrún Hilmars, 27.4.2018 kl. 14:55

2 Smámynd: Már Elíson

2. TillagaÉg varði í raun sex dögum utandyra, sagði Manganielloum ferðina.

Ætti þetta ekki að vera ...Manganiello um ferðina..??

Takk annars fyrir frábæran pistil - Ég myndi vilja að þú tækir við keflinu þar sem Eiður heitinn hætti. - Það er af nógu að taka.

Már Elíson, 27.4.2018 kl. 20:37

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Rétt, Már. Lélegur prófarkalestur af minni hálfu. Nei, það er ekki á mínu færi að fara í fótspor Eiðs.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.4.2018 kl. 23:57

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, Kolbrún. Illa skrifaður texti getur aldrei talist góður, hvers jákvæð sem við reynum að vera. Blaðamenn eiga að skrifa fyrir alla, á góðu máli. Við eigum ekki að sætta okkur við skemmda vöru.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.4.2018 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband