Ferðaþjónustan hefur sett þjóðfélagið á hliðina
27.9.2017 | 22:43
Um daginn var því haldið fram að erlendum ferðamönnum fjölgi ekki eins mikið og áður og fylgdi þeim orðum mikil sorg og eftirsjá. Engu að síður er búist við um 2,2 milljónum ferðamanna á þessu ári en ekki 2,5 milljónum.
Sumir fjárfestar og ferðaþjónustuaðilar eru engu að síður aldeilis fokvondir út af þessum tölum, kenna ríkisstjórninni um, krónunni og þeirri staðreynd að Ísland er ekki í ESB. Þeir vilja áframhaldandi fjölgun, helst í risastökkum. Því miður hugsa þeir ekki út í afleiðingarnar.
Mér sýnist að hér hafi gripið um sig svo svakalegt gulgrafaraæði að þjóðin þekki varla annað eins. Um leið er íslenskt samfélag eins og við þekkjum það stórlega breytt, jafnvel gjörbreytt eða við það að breytast í grundvallaratriðum.
Lítum aðeins á hinar skaðlegu afleiðingar sem ferðaþjónustan hefur haft í för með sér, beinar og óbeinar:
- Gistirými vantar fyrir ferðamenn, hótel eru byggð út um allt land, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.
- Iðnaðarmenn vantar í hótelbyggingar, þá þarf að flytja inn, helst frá þeim löndum sem greiða lægri laun en hér tíðkast.
- Um helmingur ferðamanna gistir á AirBnB sem er gistiþjónusta í heimahúsum. Aðeins um fimmtungur húseigenda gefa upp tekjur sína, hinir svindla.
- Gríðarlegur skortur er á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, markaðsverðið hefur stórhækkað.
- Húsaleiga hefur stórhækkað.
- Fólk hrekst frá höfuðborgarsvæðinu og út á landi, margir þvert gegn vilja sínum.
- Iðnaðarmenn vantar til að byggja íbúðarhúsnæði.
- Iðnaðarmenn eru fluttir inn til að byggja íbúðarhúsnæði, helst frá þeim löndum sem greiða lægri laun en hér tíðkast, flestir ófaglærðir.
- Starfsfólk vantar á hótel og veitingastaði.
- Starfsfólk er flutt inn frá þeim löndum sem greiða lægri laun en hér tíðkast, flest er ófaglært.
- Margt útlent starfsfólk í byggingariðnaði og ferðaþjónustu fær lægri laun en samningar segja til um hér á landi.
- Grunur er um mansal í tengslum við aukinn fjölda ferðamanna.
- Áfengisneysla og fíkniefnaneysla eykst.
- Átroðningur á þekktum ferðamannastöðum hefur aukist margfalt.
- Kostnaður lögreglu, landhelgisgæslu og björgunarsveita eykst mikið.
Þetta er aðeins hluti vandans, margt er ótalið.
Þjóðfélagið á hliðinni
Þjóðfélagið er nær því komið á hliðina vegna ferðaþjónustunnar og græðginnar sem einkennir hana. Ríkisskattstjóri þarf að leggja á sig mikla vinnu til að koma upp um skattsvik, launþegafélög þurfa berjast gegn ólöglegum samningum fjölmargra ferðaþjónustu- og byggingarfyrirtækja.
Milli 20 og 30 þúsund útlendingar starfa hér í lengri eða skemmri tíma vegna. Langflestir þeirra er láglaunafólk, sinnir störfunum sem Íslendingar líta ekki lengur við.
3,5 milljónir ferðamanna?
Árið 1980 komu hingað rétt tæplega 66 þúsund ferðamenn. Á síðasta ári komu á meðaltali 147 þúsund ferðamenn í hverjum mánuði, tæplega 1,8 milljónir ferðamanna. Búist er við þeir verði 3.5 milljónir árið 2020. Reikna má með að þá muni um 35.000 manns vera starfandi ferðaþjónustu, byggingastarfsemi og tengdum störfum.
Er þetta góð þróun eða hvað?
Í fyrra voru ferðamennirnir meira en fimm sinnum fleiri en þjóðin og þeim mun fjölga og hugsanlega verða 10,6 sinnum fleiri eftir þrjú ár.
Á sama tíma eru útlendingar sem vinna hér til lengri eða skemmri tíma um tíu prósent af þjóðinni.
Hinir stéttlausu
Íslensk þjóð getur ekki hjálparlaust tekið við öllum ferðamönnum sem eru margfalt fleiri en þjóðin og þaðan af síður sinnt þeim. Afleiðing er innflutningur vinnuafls sem á að sinna þessum leiðinlegu störfum, störfunum sem Íslendingar líta ekki lengur við.
Vinnuaflið er yfirleitt ekki menntað, hvorki sem iðnaðarmenn eða þjónustufólk. Stór hluti er ómenntaður og margir misnotaðir. Fær léleg laun, aðbúnaður þess er slæmur, vinnutíminn langur og þeir sem mögla eru bótalaust sendir heim til Póllands, Lettlands, Litháen, Rúmeníu eða hvaðan svo sem þetta óheppna fólk kemur.
Þetta er hitt fólkið, fólkið sem við viljum ekki vita af, huldufólk 21. aldar.
Þetta er fólkið sem fær ekki húsnæði, býr í hjöllum, stöðum sem ekki eru mannabústaðir því öryggisstaðlar eru þar allt aðrir en í íbúðarhúsnæði. Þeim er troðið þar sem er pláss.
Þetta er stéttlausa fólkið sem við sjáum stundum afgreiða í stórmörkuðum, eða pjakka með skóflu úti á götu.
Þetta er fólkið sem lætur lítið fyrir sér fara, lítur það undan, horfir ekki í augun á hinum ríku Íslendingum.
Og við látum okkur það vel líka að hinir stéttlausu trufli ekki daglegt líf okkar.
Öllu er breytt
Maður sem ég þekki er að byggja hús, hann fær ekki innlenda smiði og ræður því útlendinga sem segjast vera smiðir, pípulagningamenn eða rafvirkjar. Þeir veifa óvefengjanlegum pappírum frá pólskum iðnskólum, geta neglt, sett saman rör og víra, brosa breytt og eru hinir elskulegustu.
Á veitingastaðnum sem ég fór á um daginn gat ég ekki rætt við þjónustufólkið á íslensku því það var útlent en það brosir fallega og er hið elskulegasta.
Þegar ég fer í miðborg Reykjavíkur og ætla að rifja upp minningar frá æsku minni eru þær löngu horfnar. Búið er að rífa gömlu húsin og byggja steinsteypta kassa í þeirra stað. Götur eru horfnar og aðrar komnar í staðinn. Þetta er ekki einu sinni broslegt.
Og hvað næst?
Ég hef starfað í ferðaþjónustu, verið ráðgjafi fyrir fyrirtæki og einstaklinga en eins og hendi er veifað er allt annað uppi á teningnum. Allt hefur breyst.
Lái mér hver sem er en ég hef áhyggjur af íslensku þjóðfélagi. Að mínu mati er vandinn ekki útlendingar heldur Íslendingar og ég spyr samlanda mína. Hvað gerist næst?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Facebook
Athugasemdir
Það er gömul saga og ný að íslendingar raði öllum eggjum í sömu körfuna. Hér þar Katla bara að reskj sig, jafnvel baraHeklan og þá fer hér allt á hliðina. Nánast öll sú fjárfesting sem farð hefur verið í fyrir greinina er á lánum í þokkabót. Ekkert plan B.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.9.2017 kl. 23:03
Það er sama hvert litið er: Það verður að tífalda ferðamannafjöldann á tíu árum, það verður að tífalda sjókvíaeldið á örfáum árum, það verður að stefna ötullega að því að framleiða tíu sinnum meira rafmagn en við þurfum til eigin heimila og fyrirtækja.
Ómar Ragnarsson, 28.9.2017 kl. 01:33
Vel sagt Sigurður!
Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 28.9.2017 kl. 02:49
Sérstakleg þessi setning "Að mínu mati er vandinn ekki útlendingar heldur Íslendingar..."
Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 28.9.2017 kl. 02:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.