Eru ljón á eða í veginum?
17.8.2017 | 09:24
Hér er fjallað um málfar og stuðst við Gott mál, ritgerð Ólafs Oddssonar, íslenskukennara í MR, útgefin 2004.
Ólafur (f. 1943, d. 2011) er mjög eftirminnilegur fyrir þekkingu sína, ljúfa lund og góða hæfilega til að vekja athygli manns á blæbrigðum íslenskrar tungu og fornbókmenntum. Ritið sem hér er nefnt er afar fróðlegt og tekur á mörgu ambögum sem enn má sjá í fjölmiðlum, því miður.
1.
Vafamál: Fótboltamaðurinn sparkaði boltanum upp völlinn. Algengt í íþróttafréttum fjölmiðla.
Athugasemd: Þetta er einfaldlega rangt vegna þess að fótboltavöllur er ekki lóðréttur. Margir íþróttafréttamenn halda að þeir geti búið til einhvers konar íþróttamál. Við getum ekki heldur farið niður til Spánar. Betra er að fara suður til Spánar og norður til Íslands, alls ekki upp til Íslands.
Tillaga: Fótboltamaðurinn sparkaði boltanum fram völlinn.
2.
Vafamál: Þetta tilboð er með öllu óásættanlegt. Algengt orðalag í fréttum fjölmiðla.
Athugasemd: Óásættanlegt er hrá þýðing úr ensku: unacceptable. Íslenskan á hér mörg ágæt orð: ótækur, óviðunandi, fráleitur, kemur ekki til greina/álita. Sama má segja um orðið ásættanlegt.
Tillaga: Þetta tilboð er fráleitt.
3.
Vafamál: Bankarnir eru að skila góðum hagnaði um þessar mundir. Algengt orðalag í fréttum fjölmiðla.
Athugasemd: Sumir nota alloft orðasambandið vera + nafnhátt af aðalsögn. Dæmi: Víkingar eru að standa sig vel í þessum leik. Betra væri: Víkingar hafa staðið sig vel í þessum leik. Annað dæmi: Athafnamenn eru að græða mikið um þessar mundir. - Þetta eru erlend máláhrif og hekki mælt með þessu orðalagi hér.
Tillaga: Bankarnir skila góðum hagnaði um þessar mundir.
4.
Vafamál: Þegar þú ert að klífa hæstu fjöll heims þá þarft þú að nota súrefnisgrímu. Algengt orðalag í tal- og ritmáli.
Athugasemd: Fornafnið þú hefur lengst af haft merkinguna: persóna sem er ávörpuð. Dæmi: Þú ert vinur minn - Æ meir hefur borið á því að menn noti fornafnið þú sem óákveðið fornafn, það er maður. Það er talið ættað úr ensku enda getur fornafnið you haft þessa merkingu. Það leiðir og oft til stílhnökra vegna nástöðu eins og fram kemur í tilvitnuninni.
Tillaga: Þeir sem klífa hæstu fjöll heims þurfa að nota súrefnisgrímu.
5.
Vafamál: Sumir vilja hafa hér bjór á boðstólnum. Algengt orðalag í fjölmiðlum.
Athugasemd: Sumir virðast ekki skilja orðalagið hafa eitthvað á boðstólum. Það merkir að hafa e-ð til sölu eða hafa e-ð fram að bjóða. Boðstólar tákna bekki eða borð sem vörur voru fram boðnar á. Að hafa e-ð á boðstólum - ekki: ?boð- eða borðstólnum - merkir því upphaflega að hafa vöru á slíkum bekkjum eða borðum eða með öðrum orðum: að hafa eitthvað til sölu.
Tillaga: Sumir vilja hafa hér bjór á boðstólum.
6.
Vafamál: Hún fór villur vegar. Algengt orðalag í fjölmiðlum.
Athugasemd: Hvort er betra: Hún fór vill vegar (vega) eða: Hún fór villur vegar (vega)? - Hið fyrra er betra. Orðið villur er lýsingarorð, en ef. er svonefnt tillitseignarfall. Þetta er með sama hætti og þegar sagt er: Hann er illur/hún er ill viðureignar. Orðalagið fara villur vega, þýðir að villast, vera villtur. Menn segja: Hann fór villur, - þeir fóru villir, - hún fór vill og þær fóru villur vega(r).
Tillaga: Hún fór vill vega.
7.
Vafamál: Mörg ljón eru í veginum. Algengt orðalag í fjölmiðlum.
Athugasemd: Þekkt er orðtakið Það eru mörg ljón á veginum, það er margt verður hér til hindrunar eða veldur erfiðleikum. Líkingin er auðskilin er stundum virðast menn ekki skilaorðtakið og tala þá um ljón í veginum. þetta afbrigði styðst ekki við íslenska málvenju.
Tillaga: Mörg ljón eru á veginum.
8.
Vafamál: Snuðra hljóp á þráðinn í samningaviðræðum. Þekkt orðalag í fjölmiðlum.
Athugasemd: orðið snurða þýðir í bókstaflegri merkingu harður samsnúningur á snúnum þræði eða hnökri. Í yfirfærðri merkingu er það haft um óvænt ósamkomulag eða vandræði sem upp koma. Ekki er ráðlegt að rugla þessu saman viðsögnina snuðra, en hún merkir njósna eða forvitnast um eitthvað.
Tillaga: Snurða hljóp á þráðinn í samningaviðræðum.
9.
Vafamál: Söluaðilar eru ósáttir. Algengt orðalag í fjölmiðlum.
Athugasemd: Orðið aðili er oft ofnotað. Hér má nefna framkvæmdaaðila, samkeppnisaðila, söluaðila, margumrædda aðila vinnumarkaðarins og jafnvel aðila hjónabands. Oft er hægt að orða þetta betur með öðrum hætti.
Tillaga: Seljendur eru ósáttir.
10.
Vafamál: Hinn 16. nóvember 2017 verður 210 ára ártíð Jónasar Hallgrímssonar. Algengt orðalag í fjölmiðlum.
Athugasemd: Allir þekkja orðið afmæli. En bent skal á að orðið ártíð tengist ekki fæðingu manna heldur dauða og það þýðir dánardægur. Æskilegt er að rugla þessu ekki saman. Jóna Hallgrímsson var fæddur 16. nóvember 1807 og hann lést 26. maí 1845.
Tillaga: Hinn 16. nóvember 2017 verða 210 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Segir maður ekki " ÞANN 16.nóvember..." þegar eitthvað er væntanlegt frekar en "Hinn 16. nóv...("Hinn 16.nóvember í fyrra, gerðist....")...?
Hvað finnst þér ?
Annars - Takk fyrir þennan frábæra pistil sem bendir vel á ambögurnar sem viðgangast í þjóðfélaginu, og margt verra en þetta, reyndar.
Már Elíson, 17.8.2017 kl. 16:32
Ég nota þetta jöfnum höndum, tel að þau séu jafnrétthá. Held að þeir sem eru vanir að skrifa finni sér farveg fyrir mismunandi notkun orðanna.
Í Málfarsbankanum á malid.is segir:
„Hægt er að nota ábendingarfornafnið hinn á undan dagsetningu en það er ekki nauðsynlegt: hinn fimmta júní fóru fram kosningar, fimmta júní var haldin veisla. Enn fremur þann: þann fimmta júní var haldin veisla en sumir hafa þó amast við þeirri málnotkun.“
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.8.2017 kl. 18:05
Sigurður. Þú hefur að mínu mati mjög góð tök á réttri íslensku. Það hefur mér alltaf fundist aðdáunarvert í þínu bloggi:) Vildi helst gera þig að íslenskukennara ef ég réði einhverju fyrir guðs náð.
Ég ætla að spyrja þig að því hvað það þýðir að fá uppreisn æru? Og ég spyr þig líka að því hvað það er í íslenskunnar málfari sem leyfir ærumissi, sem þarfnast einhverskonar "íslenskunnar" uppreisn ærumissis?
Ég veit að nú er ég mjög frek og fáfróð, hér á þinni síðu.
Takk samt fyrir það að hafa aldrei lokað á mínar misvitru og mannlegu skoðanir á þinni síðu.
Misjafnir þrífast á misjöfnu, á misjöfnum stöðum. Og misjafnlega réttarvörðum leikvöllum lífsins.
Guð blessi það góða í veröldinni allri.
Takk fyrir mig.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 17.8.2017 kl. 19:42
Sæl Anna. Held að það yrði nú lítið úr mér sem íslenskukennari enda veit ég fátt.
Venjulega er talað um „uppreist æru“ (uppreist, með 't') þó finnst 'uppreisn' (með 'n') hennar víða. Held að hér eigi við að reisa við/upp það sem er fallið, kjörgengi og lögmannsréttindi, 'það er reist upp æra'.
Þetta fann ég þó á malid.is:
Afbrigðunum uppreist æru og uppreisn æru bregður báðum fyrir. Við leit í lagasafninu (Íslenskt textasafn á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum) finnst aðeins hugtakið uppreist æru. Hitt afbrigðið, uppreisn æru, er talsvert algengt í ýmsum textum og finnst t.d. í Þjóðólfi 3. júlí 1896. Sjá pistil Eiríks Rögnvaldssonar á Vísindavefnum. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=71450
Hins vegar er 'uppreist æru' að mínu mati úrelt þing. Æra verður aldrei reist við nema sá sem hana á vinni til þess. Pennastrik frá ráðuneyti hjálpar lítið nema hvað varðar að fá aftur þau réttindi sem falla niður við dóm, en sam nægir sumum það.
Æran er að sumu leiti eins og orðstír en um hann segir í Hávamálum og er þar spaklega ályktað eins og þú veist:
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.8.2017 kl. 20:39
Sigurður. Það sem stórum og smáum börnum þessa samfélags vantar meðal annars, er einmitt svona víðsýnn og margra viskuþátta tungumálavitringur eins og þú ert.
Þakka þér kærlega fyrir þessa frábæru fræðslu og tilvitnanir.
Orðstír er okkar eigin vefnaður á lífsins göngu, og sá orðstír fer á ferilsskrá sálarinnar, og með yfir móðuna miklu. Engir peningar né veraldleg auðæfi eru nothæf í þann vefnað.
Ég sagði syni mínum þegar hann spurði eitt sinn hvað væri uppreisn æru, að uppreisn(t) æra væri ef maður nyti þess leiðréttingar og sannleiksopinberunar upplýsingu innan samfélagsins, að raunveruleikans verkin kæmu réttilega í ljós.
Ég reikna ekki með að hann hafi skilið það sem ég reyndi að útskýra, enda ekki lögð áhersla á að rætt sé um raunveruleikans staðreyndir á heimilum milli foreldra og barna á Íslandi. Skólayfirvöld ætlast til að ekki fari fram vitræn umræða á heimilum grunnskólabarna, um raunveruleikans fræðslu foreldra til sinna barna. Bara heilaþvotta-heimanám!
Ég er að segja satt, Sigurður. Sorglegt en satt.
þeir sem ræða um staðreyndir við börn sín eru oftar en ekki sagðir dálítið ruglaðir. Og auðvitað trúa blessuð barnaskólakerfis-heilaþvegin börnin því að foreldrar sem reyna að kenna sannleika og staðreyndir sem ekki stemma við heilaþvott grunnskólayfirvalda, séu ekki alveg "í lagi".
Ég fer með þann stimpil með mér í gröfina, að vera ekki alveg í lagi. En öll börn þurfa að lifa áfram með einhvern lærðan og skáldaðan grunnskólayfirvalds "staðreyndarsannleika"?
Ég segi bara: PASS!
En þú ert rétti íslenskukennslu-skólans kennari og stjóri. Það hefur lengi legið í kortunum Sigurður.
En ég er hins vegar alls ekki alltaf sammála þér í hinni svokölluðu "pólitík"! Það er allt annað mál (tungumál), og ekki til umræðu hér í þessum athugasemdarpistli.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 17.8.2017 kl. 21:33
Sæll Sigurður
Þegar maður fer að hugsa um ljónin í veginum með þessum hætti þá verður hugsunin aðeins of grafísk í afstæði sínu :)
Mjög fínir punktar, takk fyrir.
Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 18.8.2017 kl. 15:44
Sé þetta fyrir mér, Sigþór. Frekar skondið á þann veg.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.8.2017 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.