Grýta bílinn og berja ökumanninn?
31.7.2017 | 08:54
Ég þekki göngufólk sem hefði ekki hikað við að kasta steini í þennan bíl og er það þó ekki með öllu syndlaust fyrir. Ég er hér að fjalla um jeppann sem einhver vitleysingur ók langleiðina upp að Esjuhömrum en festist í mýri.
Svo áhrifagjarn er maður nú að líklega hefði ég líka kastað einhverju í þennan bíl en þegar litið er til þess að hann er í votlendi og talsverður spölur í nothæft grjót hefði maður láti nægja að henda mold í hann.
Þetta er nú frekar í gríni sagt, en öllu gamni fylgir þó einhver alvara. Sá sem þarna ók þekki ekki vel til staðhátta. Ökumaðurinn ætlaði greinilega að fara yfir að göngustígnum og jafnvel þar niður sem auðvitað hefði verið glapræði bæði fyrir göngustíginn, bílinn og ökumann og farþega.
Í sál flestra blundar sú þörf að fara um landið, ganga, hreyfa sig og njóta þess sem svo margir segja frá með sigurhljómi í röddu, að sigrast á sjálfum sér og ganga um óhefðbundnar slóðir. Sumir láta verða af þessu, aðrir hafa ekki tækifæri til þess og svo er það minnihlutinn sem endilega þarf að grípa til bílsins eða mótorhjólsins og skemma landið í þeim tilgangi að líkjast hinum, fólkinu sem gengur.
Góður vinur minn sagði einhvern tímann í algjöru gríni, líklega til að skensa mig, að ef ekki væri akfært á einhvern stað þætti honum tilgangslaust að fara þangað. Svo hló hann enda svo vel búinn þekkingu og tækni að honum hefði ekki verið skotaskuld úr því að aka upp á Esju. Það gerði hann þó aldrei enda var hann mikill sómamaður en lést því miður langt fyrir aldur fram.
Með einhverjum ráðum þarf að kenna ungu fólki að umgangast landið. Mikill árangur hefur náðst á undanförnum áratugum. Nú telst það til frétta ef einhver ekur utan vega. Hins vegar koma alltaf nýjar kynslóðir fram á sjónarsviðið og þar af leiðandi má áróðurinn aldrei falla niður, hann á að vera endalaus.
Þegar maður hugsar nánar um jeppann er ljóst að það er ekki ástæða til að grýta hann eða berja ökumann og farþega fyrir að hafa gert þennan óskunda að aka út í mýrina í miðri Esju. Miklu frekar er ástæða til að Skógræktin loki þessum vegarslóða, bílnum verði komið niður á láglendi og gott fólk fengið til að ræða kurteislega við bílstjórann og kenna honum á grundvallaratriði í útivist. Jafnvel bjóða honum í helgarferð með Útivist eða Ferðafélagi Íslands. Já, það væri leiðin til árangurs. Til viðbótar ætti að bjóða honum í afvötnun á Vogi.
Ekið langleiðina upp á topp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.